Norðurljós Mikil aðsókn hefur verið í norðurljósaferðir undanfarið. Vel hefur viðrað til þess að berja þau augum.
Norðurljós Mikil aðsókn hefur verið í norðurljósaferðir undanfarið. Vel hefur viðrað til þess að berja þau augum. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldvin Haukur Júlíusson, þjónustustjóri leiðsögumanna hjá Kynnisferðum, segir aðsókn í norðurljósaferðir hafa verið mjög góða upp á síðkastið. „Það er búið að vera frábært veður undanfarið og spáir áfram vel til norðurljósaferða

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Baldvin Haukur Júlíusson, þjónustustjóri leiðsögumanna hjá Kynnisferðum, segir aðsókn í norðurljósaferðir hafa verið mjög góða upp á síðkastið. „Það er búið að vera frábært veður undanfarið og spáir áfram vel til norðurljósaferða. Það eru allir kátir,“ segir hann.

Baldvin segir ferðirnar einstaklega vinsælar. Það sé mikil upplifun fyrir fólk að koma og sjá norðurljós á Íslandi. Hann segir að jafnaði vera á milli 300 og 500 manns á kvöldi sem fari í ferðir hjá fyrirtækinu þegar veður leyfir. Síðastliðinn vetur hafi verið allt að 800 manns á kvöldi þegar best lét.

Mjög góðu veðri er spáð út vikuna. Baldvin segir gott tímabil vera yfirstandandi í norðurljósavirkni. Hann segir það vafalaust að það verði aukin aðsókn í norðurljósaferðir í framtíðinni.

Virkni mun aukast

Sævar Helgi Bragason ritstjóri Stjörnufræðivefsins segir norðurljósavirkni hafa verið nokkuð rólega undanfarnar vikur. „Vonandi er það að breytast núna á næstu dögum og vikum,“ segir hann. Virkni sólarinnar og þar af leiðandi norðurljósanna sé þó að færast í aukana sé horft aðeins lengra fram í tímann.

Sævar útskýrir að sólin sé að nálgast hámark ellefu ára virknitímabils á næstu tveimur árum. Hann segir bestu norðurljósavirknina yfirleitt vera í kjölfar þessa hámarks. „Við erum kannski að horfa upp á að bestu norðurljósaárin í þessari virknisveiflu verði 2026 til 2029. Það er bjart fram undan, það er ekki spurning,“ segir Sævar.

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir