Baldur Arnarson
Geir Áslaugarson
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), gerir ráð fyrir að minni ívilnanir vegna rafbíla muni draga úr eftirspurn.
„Margir munu velta því fyrir sér hvort það borgi sig að kaupa rafbíl miðað við sína akstursþörf og notkun. Það eru ekki allir drifnir áfram af umhverfissjónarmiðum við kaup á rafbíl. Þetta er stór útgjaldaliður þannig að fólk þarf að huga að ýmsu öðru. Boðaðar breytingar gætu haft í för með sér að það verði ekki lengur hagkvæmt fyrir marga aðila að fara í orkuskipti. Maður heyrir að margir séu svolítið tvístígandi með að fara í þessi umskipti út af þessu,“ segir Runólfur.
Annars vegar sé rætt um að hætta endurgreiðslu á virðisaukaskatti á rafbíla allt að 1.320 þúsundum en taka í staðinn upp styrki úr Orkusjóði. Hins vegar sé boðað að leggja á 6 króna kílómetragjald á rafbíla um áramótin.
Þótt endanleg útfærsla liggi ekki fyrir sé ljóst að dregið verði úr niðurgreiðslum á rafbílum til almennings. „Á þessum tímapunkti höfum við að sjálfsögðu áhyggjur af því að það dragi úr áhuga almennra kaupenda á rafbílum,“ segir Runólfur.
Girðingar hindra sölu
Að ýmsu sé að hyggja þegar ívilnanir vegna rafbíla eru endurskoðaðar. Meðal annars hafi komið upp vandamál vegna rafbíla sem eru forskráðir erlendis. Rafbílar þurfi að vera nýskráðir á Íslandi til að vera styrkhæfir. „Það er verið að leita lausna um hvernig eigi að höndla ökutæki sem hafa verið forskráð erlendis. Allar girðingar geta verið erfiðar þegar fólk er í þessum hugleiðingum. Þetta gæti hindrað að hingað kæmu tæki og tól sem væru hugsanlega á hagstæðu verði.“
Þá vekur Runólfur athygli á að nýir rafbílar hafi jafnan verið í dýrari kantinum og því ekki á færi tekjulægri hópa. Ástæðan sé ekki síst hærri framleiðslukostnaður en á hefðbundnum bílum.
Verðið fer lækkandi
„Verð rafbíla fer hins vegar lækkandi og samkeppnishæfnin gagnvart hefðbundnum brunahreyfilsbílum er alltaf að styrkjast. Það mun væntanlega gera fleirum kleift að fjárfesta í rafbíl. Hins vegar er sá tími ekki kominn og við teljum því að farið sé of bratt í boðaðar breytingar,“ segir Runólfur.
Þótt FÍB taki í meginatriðum undir þau áform að innheimta kílómetragjald af rafbílum og tengiltvinnbílum til að tryggja framlag þeirra til uppbyggingar, viðhalds og reksturs vegakerfisins þá staldri samtökin við áform um að leggja á 6 króna kílómetragjald á rafknúna fólks- og sendibíla, óháð þyngd og orkuþörf ökutækjanna.
Þyngdin mjög mismikil
„Það eru rafbílar á markaði sem eru ríflega eitt og hálft tonn og svo eru rafbílar sem eru þrjú og hálft tonn og geta dregið eftirvagn. Með því getur samanlögð þyngd verið á sjötta tonn. Það verður því sama gjald á km sem er ekki í samræmi við að taka gjald vegna notkunar og slits á vegum. Þannig að við höfum lagt til viðmiðanir sem byggðust á þyngd og koldíoxíðslosun. Rafbílar losa ekki koldíoxíð þannig að þyngdin myndi þá vega á móti,“ segir Runólfur.
Samtökin hafi vikið að þessu í ný-
legri umsögn til fjármála- og efna-
hagsráðuneytisins og bent þar á að
„notkunargjald í anda frumvarpsdraganna getur í mörgum tilvikum verið hærra af rafbíl heldur en af sambærilegum brunahreyfilsbíl“.
Hafa mismikla möguleika
Að sama skapi þurfi að endurhugsa áform um 2 króna flatt gjald á tengiltvinnbíla. Mikill munur sé
enda á drægni tengiltvinnbíla. Dæmi séu um að drægni eldri tengiltvinnbíla á rafmagni sé aðeins um 10 km í kulda og vindi en drægnin sé ríflega 50 km í nýrri tengiltvinnbílum. Því hafi eigendur eldri tengiltvinnbíla ekki sömu möguleika til að aka á rafmagni.
Samkvæmt loftslagsáætlun stjórnvalda verður sala nýrra bensín- og díselbíla bönnuð frá og með 2030. Nánar tiltekið verður „óheimilt að meginreglu að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030“. „Með þessu er dregin skýr lína í sandinn um að bílar sem eingöngu eru knúnir jarðefnaeldsneyti verða ekki hluti af framtíð fólksbílasamgangna hér á landi,“ segir um þetta í aðgerðaáætluninni.
Hlutfall rafbíla af flotanum er nú um 10% og segir Runólfur aðspurður óvíst hvenær það verður til dæmis komið í 25%.
Runólfur segir FÍB sakna þess að stjórnvöld skuli ekki hafa meira samráð vegna fyrirhugaðra breytinga. „Við erum félagasamtök með yfir 20 þúsund félagsmenn. Það er skortur á samráði og það er ekki góð stjórnsýsla að leggja fram svona tillögur á síðustu metrunum sem hafa veruleg áhrif á afkomu heimilanna,“ segir Runólfur.
Umboðin sögð hagnast á breytingum
Hömlur á skráningu mismuna innflytjendum
Kynnt var fyrir Bílgreinasambandinu að styrkur til kaupa á hreinorkubílum, sem tekur gildi um áramótin, muni aðeins eiga við um bíla sem eru nýskráðir hér á landi. Þetta kemur fram í bréfi sem Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, sendi fyrir hönd skjólstæðings síns til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Morgunblaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að til stæði að veita einstaklingum og fyrirtækjum styrk úr Orkusjóði til kaupa á hreinorkubílum eða rafbílum. Styrkurinn mun nema allt að 900 þúsund krónum.
Fram kemur í áðurnefndu bréfi lögmannsins að með því að takmarka styrkinn við einungis nýskráða bíla sé verið að gera upp á milli stærri bílaumboða og smærri söluaðila á bílamarkaðinum.
„Þróun innan Evrópusambandsins og annarra EES-landa hefur undanfarna áratugi verið að sjálfstæðir bílasalar og innflytjendur hafa veitt hefðbundnum bílaumboðum aukna samkeppni. Þeir samkeppnishamlandi samningar sem umboðin hafa sögulega gert við framleiðendur standast ekki kröfur Evrópusambandsins um fjórfrelsið eða samkeppnislöggjöf í EES-löndum. Réttindi neytenda og sjálfstæðra bílasala hafa vegið þyngra fyrir dómstólum innan EES-landa en hagsmundir umboða af fákeppnisstöðu,“ segir í bréfinu. Það megi ætla að nærri helmingur markaðarins með rafbíla sé í höndum sjálfstæðra bílasala og innflytjenda.
„Þær reglur … sem taka gildi við áramótin takmarka styrki sem sækja má um úr Orkusjóði vegna kaupa á rafmagnsbílum við „óskráða nýja rafbíla“. Verði slíkt ákvæði leitt í lög á Íslandi myndi það undanskilja alla rafbíla aðra en þá sem fluttir eru inn af bílaumboðum sjálfum,“ segir í bréfinu. Flestir sjálfstætt starfandi aðilar á bílamarkaðinum kaupi „rafbíla erlendis sem þegar hafa verið skrásettir þar, þó að þeir séu ekki notaðir“. Almennt séu það aðeins umboðin sem nýskrá bíla á Íslandi en „framleiðendur hafi sérstaka samninga við umboð sem ætlað er að viðhalda fákeppni á einstökum mörkuðum“. Hætt sé við að styrkir vegna rafbílakaupa muni heldur renna til tekjuhærri einstaklinga en tekjuminni, enda megi ætla að tekjuhærri einstaklingar versli heldur við bílaumboðin en sjálfstætt starfandi aðila. Þar að auki séu tekjuminni einstaklingar líklegri til þess að kaupa sér notaða bíla.
Garðar segir aðspurður að til hafi staðið að kynna fyrirkomulag styrksins í vikunni en kynningin hafi fallið niður. „Vonandi eru þau að skoða þetta betur,“ segir Garðar Steinn.