Samtök atvinnulífsins (SA) standa nú fyrir fundaherferð um landið, sem ber yfirskriftina Samtaka um land allt. Þannig hafa samtökin nú þegar heimsótt Selfoss og Keflavík og í gær var haldinn fundur í Reykjavík. Þá verður haldinn fundur á Akureyri á föstudag og í Vestmannaeyjum í næstu viku. Fundaröðin um landið er haldin í aðdraganda kjarasamninga en þeir renna flestir út í lok árs.
Á fundunum er leitað að lausnum til að losa íslenskt efnahagslíf út úr vítahring verðbólgu og vaxta, eins og það er orðað í tilkynningu frá SA. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir fundarefnið hafa valið sig sjálft því það sé stærsta áskorunin fyrir íslenskt samfélag. „Við sjáum mikinn samhljóm um það. Það að verðbólga sé 8% og stýrivextir 9,25% er ólíðandi, hvort sem fólk rekur heimili eða fyrirtæki,“ segir Sigríður Margrét í tilkynningunni.