Þetta þótti mikil nýjung á sínum tíma þegar Netgíró hóf starfsemi og þegar litið er yfir farinn veg var fyrirtækið kannski á undan sinni samtíð,“ segir Helgi Björn Kristinsson, forstöðumaður Netgírós, í samtali við ViðskiptaMoggann. Fyrirtækið fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir.
„Viðskiptamódelið að kaupa núna og greiða seinna (e. buy now pay later) var byggt að langflestu leyti í kringum netverslun og fyrir tíu árum var innlend verslun ekki komin svo langt. Þessu þurfti að breyta svo að viðskiptavinir gætu einnig greitt í búðum og verslunum,“ segir Helgi Björn.
Helgi segir að Netgíró hafi verið fyrsta íslenska greiðslulausnin sem fór ekki gegnum erlend greiðslumiðlunarkerfi. Netgíró er sjálfstætt íslenskt kerfi sem fer í gegnum Reiknistofu bankanna og þaðan í heimabankann hjá viðskiptavinum.
„Greiðslulausnin virkar þannig að viðskiptavinir greiða með Netgíró í versluninni, Netgíró gerir upp við kaupmenn og síðan sendum við greiðsluseðil í heimabanka viðskiptavina. Í grunninn byggist þetta á sömu hugmyndafræði og hefðbundin kortafyrirtæki, að því undanskildu að greitt er með Netgíró-appinu en ekki kreditkorti,“ útskýrir Helgi.
Á undan sinni samtíð
Netgíró virkar eins og greiðslukort að því leyti að neytendur geta keypt vörur og þjónustu bæði á netinu og í verslunum.
„Þetta safnast saman á mánaðarlegan reikning líkt og kreditkort. Síðan geta viðskiptavinir skipt öllum reikningum, annaðhvort öllum reikningnum eða einstökum greiðslum,“ segir Helgi Björn.
„Þarna var Netgíró dálítið á undan sinni samtíð. Í appinu er mjög einfalt fyrir viðskiptavini að skipta til dæmis stærri innkaupum í eina, tvær eða fleiri greiðslur. Þar liggur okkar helsti styrkleiki. Stærri innkaup hjá viðskiptavinum hafa verið okkar ær og kýr.“
Hann bætir við að mikill vöxtur hafi verið í því að fólk noti Netgíró þegar það kaupir í matinn. Að sögn Helga Björns hefur Netgíró velt 63 milljörðum króna. Notendur þjónustunnar eru um 56 þúsund einstaklingar og virkir söluaðilar eru 2.500.
Hluti af Kviku banka
Netgíró fór frá því að vera sprotafyrirtæki en stendur nú sterkum fótum að sögn Helga Björns. Kvika banki kom fyrst inn sem hluthafi árið 2018 en keypti svo allt félagið fyrir tveimur árum. Netgíró hefur haft margvísleg samlegðaráhrif með Kviku banka.
„Það er gaman að segja frá því að grunnkerfi Netgíró hafa haft mikið að segja um þróunina á fjártækni innan Kviku og samlegðaráhrifin eru enn að koma í ljós. Dæmi um óvænt samlegðaráhrif er Straumur, sem er greiðslumiðlunarfyrirtæki sem Kvika er nýbúin að koma á laggirnar og er að langstærstum hluta byggt á tækni og þekkingu frá Netgíró,“ útskýrir Helgi Björn.
Samkeppnin meiri en áður
Samkeppnin á greiðslumiðlunarmarkaði er meiri en áður var og Netgíró keppir nú í fjártæknilausnum við önnur íslensk fyrirtæki.
„Kortamarkaðurinn er langstærstur með kredit- og debetkort og nánast á hverju ári bætist við nýr aðili á markaðnum. Samkeppnisumhverfið er þannig að það má ekki halla sér aftur og slaka á,“ segir hann.
Tæknifyrirtækin vilja sneið af kökunni
Að mati Helga Björns má skipta framtíðarhorfum Netgírós í tvennt. Annars vegar séu það innlendar samkeppnislausnir og hins vegar stóru erlendu tæknifyrirtækin á borð við Apple sem vilja fá sneið af kökunni. Þetta eru stórir aðilar sem eru búnir að byggja upp rafræn veski í snjallsímum og hafa ýmis gögn og tölfræði sem aðrir hafa ekki.
„Þeir eiga greiðan aðgang að viðskiptavinum í gegnum gríðarlega sterka stöðu sína í símanotkun. Slík þróun kemur kannski til með að raungerast í nánustu framtíð og áfram verður innlend þróun á þessum markaði. Debet- og kreditkortin eru ekki á undanhaldi en ýmislegt mun bætast við, til dæmis sértækari lausnir í greiðslumöguleikum og framtíðin á eftir að skera úr um í hvaða átt það fer,“ segir Helgi spurður nánar út í það í hvaða átt hann telji að þessi mál þróist.
„Við sjáum að sjálfsafgreiðsla og appvæðingin í verslunum mun hafa áhrif á hvernig og hvert hlutirnir þróast. Kortin eru ekki að fara og ýmsir spennandi hlutir eiga eftir að líta dagsins ljós,“ segir hann.
Gervigreind á eftir að koma
Helgi Björn telur að spennandi hlutir eins og gervigreind sem verður tengd við greiðslumiðlunarkerfin séu fram undan.
„Í framtíðinni þegar keyrt er inn á bílaplan hjá matvöruverslun mun matvöruverslunin bjóða viðkomandi góðan daginn í gegnum símann. Síðan mun upplýsingabylting ráða því hvernig hlutirnir verða gerðir. Til dæmis verður hægt að bjóða fólki einstök tilboð sem eru sérsniðin eftir neytendahegðun hvers og eins. Enginn annar í versluninni sér hvaða tilboð hver og einn viðskiptavinur fær. Þeir geta staðið hlið við hlið í versluninni og annar þeirra fær tilboð á vöru vegna þess að hann verslar oftar þar. Þessi þróun er öll eftir og það verður ákveðin bylting hvernig greitt verður fyrir vörur á sem hagkvæmastan hátt,“ segir Helgi Björn að lokum.