Morgunblaðið fagnar í dag 110 ára afmæli

Íslendingar eru söguþjóð. Hér hafa sögur verið sagðar frá upphafi byggðar og fljótlega hófust sagnaskrif sem eru ríkulegur söguarfur þjóðarinnar og raunar frændþjóða okkar einnig. Áhugi Íslendinga á sögum af landi og þjóð hefur jafnan verið mikill eins og sjá má á bókaútgáfu allt frá skinnhandritum til okkar tíma. Þennan áhuga má einnig sjá á þeim velvilja sem Morgunblaðið, sem í dag fagnar 110 ára afmæli sínu, hefur notið meðal þjóðarinnar. Mörg dagblöð hafa komið og farið á æviskeiði Morgunblaðsins og nú stendur það eitt dagblaða eftir hér á landi og heldur áfram að segja sögur af stóru og smáu í lífi íslensku þjóðarinnar.

Staða Morgunblaðsins hefur lengi verið einstök, ekki aðeins hér á landi heldur einnig í alþjóðlegum samanburði enda finnst tæplega blað erlendis sem slíkra vinsælda nýtur. Þetta stafar ekki síst af þeirri stefnu sem mörkuð var í upphafi og Vilhjálmur Finsen lýsti á forsíðu fyrsta tölublaðsins: „Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað.“ Skömmu eftir að Vilhjálmur lét af störfum settist Valtýr Stefánsson í stól ritstjóra og gegndi því starfi í tæpa fjóra áratugi. Um tíma við hlið Valtýs, en einnig með öðrum, ritstýrði Matthías Johannessen blaðinu í rúma fjóra áratugi og samfellt stýrðu þessir tveir blaðinu í 76 ár. Lengi var Styrmir Gunnarsson ritstjóri við hlið Matthíasar og allt þar til fyrir fimmtán árum. Nokkrir aðrir gegndu þessu starfi um lengri eða skemmri tíma en þessir eru nefndir hér til að benda á samfelluna í sögu Morgunblaðsins. Núverandi ritstjórn hefur í störfum sínum horft mjög til þessarar sögu og lagt sig fram um að þráðurinn við hana slitni ekki því að þó að tækni breytist og framfarir verði þá minnkar ekki þörfin fyrir áreiðanlega, skemmtilega og lipra fréttaumfjöllun af öllu tagi. Miklu frekar má segja að með nýrri tækni sem hefur rutt sér hratt til rúms við miðlun upplýsinga – og ekki alltaf haldgóðra – hafi þörfin fyrir slíkan fréttamiðil farið vaxandi.

Í aldarafmælisblaði Morgunblaðsins var rætt við lektor í sagnfræði, sem nefndi að oft væri haft á orði að „með blöðunum fái maður fyrsta uppkast sögunnar. Blaðamenn eru alltaf á vettvangi atburðanna og þá gildir einu hvað það er sem menn eru að fjalla um. Það geta verið fréttir af slysum, náttúruhamförum, stjórnmálum eða efnahag, auk þess sem þeir vinna greinargerðir eða viðtöl.“ Hann bætti því við að halda mætti því fram að „Morgunblaðið í krafti stærðar sinnar sé fremst meðal jafningja þegar kemur að því að leita uppi fréttir af málefnum líðandi stundar hverju sinni“. Þá vakti hann athygli á mbl.is og mikilvægi þess fyrir þá sem vilji finna fréttir úr samtímasögunni. Sagnfræðingurinn sem þessi orð mælti gegnir nú embætti forseta Íslands og er því iðulega sjálfur orðinn söguefni þó að sagnfræðiáhuginn sé enn fyrir hendi eins og landsmenn þekkja.

Og undir þessi orð Guðna Th. Jóhannessonar skal tekið enda enginn annar fjölmiðill hér á landi sem segir jafn margar fréttir af því sem hér gerist eða fer jafn víða um land og inn á jafn mörg og ólík svið mannlífsins. Það hefur ekki breyst á þeim áratug sem liðinn er, nema síður sé.

Morgunblaðinu er kappsmál að halda áfram úti þeirri öflugu umfjöllun sem það hefur gert frá upphafi. Landsmenn hafa án efa orðið varir við ítrekaða umræðu síðustu ára um erfitt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og viðleitni til að bæta úr því. Töluvert vantar enn upp á að rekstrarumhverfið sé eðlilegt og má nefna að auk þeirrar stöðu sem fjölmiðlar heimsins eru í gagnvart tæknirisum á borð við þá sem halda úti Facebook og Google þurfa íslenskir fjölmiðlar að keppa við ríkið á auglýsingamarkaði. Þrátt fyrir þetta er skattalegt umhverfi og stuðningur við einkarekna fjölmiðla mun hagstæðari í þeim löndum sem við berum okkur saman við en hér á landi.

Þetta gerir íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir í samanburði við erlenda miðla og afleiðingin hefur orðið sú að ýmsir hafa helst úr lestinni og sárafáir eru eftir til að segja landsmönnum þá nýju sögu sem verður til á hverjum degi. Morgunblaðið og aðrir miðlar Árvakurs munu þó halda áfram að flytja landsmönnum nýjustu fréttir og verður áfram horft til þess að nýta enn frekar þá nýju tækni sem nú er í boði. Áskrifendur og aðrir landsmenn hafa fengið að kynnast nýjungum í útgáfu Árvakurs á liðnum árum og á afmælisárinu mun sú þróun halda áfram.

Nýjar sögur – og eftir atvikum nýjar leiðir við að færa landsmönnum þær sögur – verða hér eftir sem hingað til í forgrunni í starfsemi Morgunblaðsins. Og eins og frá fyrstu tíð er markmiðið að þær séu áreiðanlegar, skemmtilegar og lipurlega fram settar.