Svavar Reynir Benediktsson var fæddur á Hömrum í Haukadal, Dalasýslu 18. mars 1935. Hann lést 19. október 2023. Foreldrar hans voru Benedikt Jónasson bóndi f. 19. febrúar 1888, d. 14. september 1948 og Guðrún Guðjónsdóttir f. 28. júní 1894, d. 4. október 1976. Systkini Svavars eru Þuríður Sigurrós f. 4. maí 1915, d. 31. ágúst 2011, Kristín f. 14. febrúar 1917, d. 1. desember 1998, Fanney f. 15. september 1918, d. 28. maí 2008, Jónas Kristinn f. 26. mars 1920, d. 25. nóvember 1971, Guðjón f. 3. júní 1921, d. 30. apríl 2013, Jón f. 26. janúar 1923, d. 2. mars 2019, Ragnheiður f. 2. júlí 1924, d. 5. júlí 2013, Guðmundur Sigurvin f. 3. sept 1925, d. 3. september 2003, Elísabet f. 31. janúar 1927, d. 19. apríl 2002, Ólafur Árni f. 25. september 1933, Elsa f. 30. júlí 1936, Hreinn f. 9. desember 1937, Fjóla f. 24. júlí 1939. Svavar giftist Sigríði Sigurðardóttur, bankastarfsmanni f. 24. október 1938. Börn þeirra eru 1) Sigurður Haukur, rekstrarstjóri f. 25. október 1968. Eiginkona hans er Þórlaug Hildibrandsdóttir f. 9. desember 1967. Sigurður á Klöru Alexöndru Sigurðardóttur f. 26. júlí 1993. Móðir hennar er María Berglind Oddsdóttir. Börn Sigurðar og Þórlaugar eru Sölvi Snær Sigurðarsson f. 1. október 1995 og Hekla Dröfn f. 13. mars 1998. 2) Sveinbjörn Rúnar, deildarstjóri f. 15. febrúar 1971. Sambýliskona hans er Izabela Gryta f. 15. janúar 1971. 3) Sunna Mjöll f. 28. maí 1972, d. 14. maí 1978. 4) Svala, viðskiptafræðingur f. 1. maí 1974. Sambýlismaður hennar er Eyþór Jón Gíslason f. 1. apríl 1975. Svala á Katrínu f. 14. febrúar 2006 og Ísak f. 6. desember 2007. Faðir þeirra er Einar Jón Geirsson. 5) Benedikta Guðrún, framkvæmdarstjóri f. 12. ágúst 1979. Sambýlismaður hennar er Ingirafn Steinarsson f. 16. mars 1973. Þau eiga synina Hörð Áka f. 6. október 2016 og Sigurberg Reyni f. 3. maí 2019.

Svavar ólst upp á Hömrum í Haukadal ásamt stórri fjölskyldu. Hann sinnti daglegum störfum á bænum og tók jafnframt að sér að sjá um póstburðinn á bæina í sveitinni ásamt föður sínum. Þegar Svavar var tólf ára lést Benedikt faðir hans um aldur fram af slysförum frá fjölskyldu sinni. Meiri ábyrgð var þá á systkinunum við að sjá um búskapinn ásamt móður sinni. Svavar var mikill hestamaður og tamdi hann hesta sína og var hestamennskan hans helsta áhugamál. Stuttu eftir að Svavar lauk bílprófi fór hann að keyra vörubíl milli Reykjavíkur og Dalasýslu fyrir Kaupfélag Hvammsfjarðar og starfaði hann þar í tuttugu og þrjú ár. Svavar flutti til Reykjavíkur þegar hann var í kringum þrjátíu og þriggja ára aldur þar sem hann stofnaði til fjölskyldu. Hann gerðist húsvörður í um tveggja ára tíma þar sem fjölskyldan bjó í Asparfelli og hvíldi sig á akstrinum. Hann settist síðan aftur við stýrið og gerði út sendibíl og vann ýmist fyrir afurðastöðina Goða, sendibílastöð og að lokum fyrir Húsasmiðjuna fram til sjötíu og níu ára aldurs.

Útför Svavars fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 2. nóvember 2023, kl. 15 og eru allir ættingjar og vinir hjartanlega velkomnir til kveðjustundar.

Elsku pabbi, það er komin kveðjustund og það er svo margs að minnast eftir okkar 55 ár saman. Ég veit ekki hvar á að byrja, það eru svo margar góðar minningar með þér. Allar ferðirnar í Kaupfélagsbílnum, Reykjavík – Búðardalur – Reykjavík, og þá tók það aldeilis ekki tvo og hálfan tíma að fara á milli. Hvalfjörður, rokið, óveðrin, moka og festa vesenið oft á okkur. Þarna lærði maður að gefast aldrei upp því það var bara ekki í boði. Í þessum ferðum kenndir þú mér að þekkja fjöllin og landslagið, við spiluðum lög af kassettum og það var sungið alla leiðina. En svo kom að því þegar ég var u.þ.b. sex ára að við fórum vestur og þú skildir mig eftir í neðri kojunni í piltaherberginu á Stóra-Vatnshorni hjá bróður þínum og konu hans, mínum elskulega fóstra og fóstru, Árna og Gunnu.

Ég man það enn hvað ég grét þegar þú skildir mig eftir, svo háður var ég þér, elsku pabbi, en söknuðurinn rjátlaðist af mér og ekki leið á löngu þar til ég vildi hvergi annars staðar vera en í sveitinni og í Haukadalnum góða sem þú elskaðir mest. Þú reyndir að koma við eins oft og þú gast og stundum fórum við aðeins á hestbak og þá var gaman. Þegar ég var í kringum tíu ára aldur vorum við saman á Nesoddanum á hestamótinu og vorum að undirbúa að ríða heim í Haukadalinn. Þá hittum við mikinn meistara sem bauð þér að koma með meri undir graðhest, einhvern mjög efnilegan og vel ættaðan fola úti í Hörðudal, seinna sama sumar. Hann setti það eina skilyrði samt að ég, sá stutti, fengi að eiga afkvæmið og þarna var ekki aftur snúið. Seinna sama sumar riðum við út í Hóli í Hörðudal og ég reið að mig minnir gömlu Jörp sem átti að fara undir hestinn. Merin fór inn í girðingu og við inn í kaffi hjá Munda á Hóli. Svo var nú orðið nokkuð áliðið og ég átti að ríða Gránu gömlu heim en við Miðá var sá stutti nú orðinn nokkuð syfjaður og farinn að dotta á baki. Þarna voru góð ráð dýr hjá elsku pabba en hann tók þá ákvörðun að setja mig á bak Tígli (Rauð-Skjóna) sem ég hafði aldrei fengið að fara á áður. Það var eins og við manninn mælt, ég glaðvaknaði og Tígull brunaði með mig upp Harrastaðaveginn á yfirferðartölti og þetta er einhver magnaðasta upplifun sem ég lent í. Það er algjörlega greypt í huga minn að horfa fram veginn en sjá ekkert nema bara rauða og hvíta faxið flaksast fyrir framan mig svo háreistur og flottur var þessi hestur. Það var sæll og glaður drengur sem lagðist á koddann þessa nótt.

Næsta vor fæddist mér svo fagur jarpur hestur sem fylgdi mér næstu 20 ár og reyndist hinn mesti happafengur. Það er svo sannarlega þér að þakka að ég er enn í dag á útreiðum og öll mín bestu hross hafa komið út frá þinni ræktun.

Það er enn tíra á kertinu, elsku pabbi, og ég ber kyndil þinn stoltur. Mæðgurnar Jörp, Silfurtoppa, Þota, Þruma og Gleði hafa gefið vel og gera enn, ég er hvergi nærri hættur og mun gera mitt besta til að halda ræktun þinni gangandi.

Takk fyrir allt, elsku frábæri, ljúfi, góði og harðduglegi pabbi minn, þú varst alveg einstakur maður.

Sigurður H. Svavarsson.

Elsku pabbi.

Það er skrítið að geta ekki skroppið til þín eins og ég hef gert mikið af síðustu árin og og nú fæ ég ekki lengur símtal um kl. 22 en þú varst vanur að hringja í mig á hverju kvöldi til að spjalla smá eða bara til að láta vita af þér og bjóða góða nótt. Þó það hafi verið viðbúið að þinn tími færi að koma þá einhvern veginn er maður aldrei alveg tilbúinn þegar þarf að kveðja en ég veit að þú varst alveg tilbúinn og nú treysti ég því að mamma og Sunna hafi tekið þér opnum örmum og einnig er ég viss um að einhverjir hestar bíði þín líka því nóg áttir þú af gæðingum í gegnum tíðina.

Minningin um ótrúlega traustan og góðan föður mun lifa í hjarta mínu um ókomna tíð. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þig að og óendanlega stoltur af því að vera sonur þinn. Það er erfitt að finna nógu sterk lýsingarorð til að útskýra hversu góð manneskja þú varst og hversu vel þú reyndist öllu samferðafólki og skipti þá ekki máli hvort þú þekktir fólk eða ekki. Þú varst alltaf fullur af kærleik til náungans og þjónustulundin var endalaus.

Þær eru margar sögurnar sem koma upp í hugann af þér með okkur krökkunum og var maður ungur þegar maður var farinn að fara á hestbak með þér og þá þurfti eflaust talsvert af þolinmæði en þú varst ótrúlega duglegur að taka okkur með í reiðtúra bæði í sveitinni og einnig varstu alltaf með hesta í bænum seinnipart vetrar. Þú varst ótrúlega næmur þegar kom að dýrum og eldklár hestamaður og naut maður góðs af því og nýtur enn reynslunnar sem maður öðlaðist ungur, fyrir það er ég þakklátur. Einnig fékk maður að fara margar ferðirnar með þér í Kaupfélagsbílnum og þú þuldir upp nöfn á öllum fjöllum og hólum á leiðinni og svo voru auðvitað kassettur með vel völdum lögum spilaðar. Þetta hefur skilað sér til okkar barnanna þinna og kunnum við heilan helling af lögum en þau voru líka mikið sungin í reiðtúrum og ekki má gleyma að þú söngst stundum fyrir okkur fyrir svefninn og ef maður var ekki alveg tilbúinn að fara að sofa þá reyndir þú bara að kenna okkur textana.

Ég man eftir að það var oft aukavinna, blaðburður á morgnana og skúringavinna á kvöldin og þið mamma hjálpuðust að við þetta allt og við krakkarnir oft með og það var mikið lagt á sig til að eiga nóg að bíta og brenna fyrir okkur börnin. Þú og mamma voruð ótrúlegt teymi og hefði ég ekki getað valið mér betri foreldra. Vinnusemi þín var mikil og þú hættir ekki að keyra og þjónusta fólk á sendibílnum fyrr en þú varst rúmleg 78 ára. Eftir að þú fluttir í þjónustuíbúð í Norðurbrún lagðir þú talsvert á þig við að bjarga þér sjálfur og vildir helst ekkert vera að nota þjónustutakkann, fannst óþarfi að vera að trufla starfsfólkið sem þar vann þó svo að þú hefðir verið löngu búinn að leggja inn fyrir því að láta þjónusta þig.

Ég mun geyma góðar minningar um frábæran pabba sem var svo ótrúlegur og einstakur á margan hátt. Takk fyrir allt. Guð geymi þig, elsku pabbi minn.

Sveinbjörn Rúnar
Svavarsson.

Elsku pabbi minn.

Það er sárt og óraunverulegt að það sé komið að kveðjustund og þegar ég sit hér og minnist okkar tíma saman þá er ég voða lítil í mér og græt yfir að hafa misst þig en gleðst í leiðinni yfir því að þú varst pabbi minn og nú ertu búinn að fá hvíldina og kominn til mömmu og Sunnu okkar. Þú varst einstakur maður, heiðarlegur, góður og hjálpsamur og varst alltaf klettur í mínu lífi. Ég er svo stolt af þér og þinni vegferð og finn fyrir djúpu þakklæti fyrir að fá að vera dóttir þín, betri fyrirmynd er ekki hægt að finna.

Ljúfar minningar ylja en í æsku sastu alltaf hjá mér við rúmstokkinn og söngst mig inn í svefninn og lagðir þar grunninn að áhuganum á öllum lagatextum. Þið mamma sunguð mikið enda erum við systkinin fræg fyrir að kunna alla texta. Ég elskaði þegar þú skarst niður epli í báta á kvöldin yfir sjónvarpinu og þá kúrði ég hjá þér og maulaði epli með þér og ég tala nú ekki um þegar þú keyptir bláber og rjóma, þá var veisla.

Heimili okkar var alltaf öllum opið og þið mamma tókuð alltaf vel á móti öllum vinum okkar systkina og það var aldrei talið inn. Ég hef alltaf fundið það mjög sterkt hvað margir samferðamenn þínir hafa alltaf talað fallega um þig og haft sérstaklega orð á því hversu mikið ljúfmenni þú varst, þægilegur í viðmóti og framkomu, já þú varst hvers manns hugljúfi, elsku pabbi minn, og hjá mörgum varstu í miklu uppáhaldi.

Það voru alltaf góðar stundirnar með þér í kaupfélagsbílnum þegar við keyrðum vestur í Dali. Ósjaldan var stoppað í Olíustöðinni í Hvalfirði. Þá var ekkert minna en pylsa og kók með lakkrísröri og þarna þekktu þig allir og brosin og athyglin sem maður fékk af því maður var dóttir þín voru endalaus, já þú varst og verður alltaf bestur og flottastur, elsku pabbi minn. Þú varst mikill hestamaður og hestarnir þínir voru alltaf glaðir og dönsuðu undir þér og það er þér að þakka að hestarnir urðu aðalatriði í mínu lífi.

Mér er minnisstætt þegar þú varst að keyra sendibílinn og keyrðir mikið fyrir Húsasmiðjuna og eitt sinn varstu sendur með efni út í bæ en starfsmaðurinn gerði mistök og þú þurftir að fara aftur með efnið og sækja það rétta og keyra aftur á staðinn. Ekki datt þér í hug að rukka fyrir báða túrana og hafðir á orði að greyið strákurinn væri nýr og gæti fengið skammir fyrir mistökin. Ég reyndi að tala um fyrir þér og sagði að Húsasmiðjan gæti vel greitt fyrir þína vinnu sem þú sannarlega reiddir af hendi en þér varð ekki haggað, þetta varst þú í hnotskurn.

Ég mun geyma góðu minningarnar um dásamlegan og góðan pabba og veit að þú munt fylgja mér og leiða mig áfram í lífinu. Ég vil þakka þér í einlægni fyrir allt og kveð þig með ljóðinu sem þú kenndir mér og söngst alltaf fyrir mig á kvöldin.

Ó, faðir! gjör mig lítið ljós

um lífs míns stutta skeið,

til hjálpar hverjum hal og drós,

sem hefur villst af leið.

Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt,

sem brosir öllum mót

og kvíðalaust við kalt og hlýtt

er kyrrt á sinni rót.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, ég mun alltaf elska þig.

Svala Svavarsdóttir

Elsku besti pabbi minn;

dansarinn, náttúrubarnið, hestahvíslarinn og greiðvikni sendibílstjórinn.

Það er ljúft til þess að hugsa að þú náðir yfir til mömmu og Sunnu á friðsælu kvöldi með okkur öll hjá þér. Það var þér líkt að vera hugulsamur alveg til síðasta dags og leyfa okkur að eiga þessa dýrmætu stund með þér. Þessa stund mun ég geyma í hjarta mér og alltaf sjá þig fyrir mér svífa í sátt við guð og menn yfir í sumarlandið með okkur öll hjá þér. Það áttir þú skilið eftir langt og stundum strangt lífshlaupið.

Þú varst traustur sem klettur fyrir allt og alla í þínu lífi. Það var ekki til í þér karlakarl, tókst jafnan þátt í þriðju vaktinni hvort sem var matseld, í þvottahúsi eða barnauppeldi. Heiðarlegri, hjálpsamari og blíðari mann er vart hægt að finna á byggðu bóli og sérdeilis heppin ég að fá að vera dóttir þín.

Ég finn fyrir djúpu þakklæti fyrir þig og tímann, elsku pabbi minn, þú varst og ert minn allra besti maður, gafst mér alla tíð allt sem þú gast gefið, varst mér sönn og heilsteypt fyrirmynd og kenndir mér æðruleysi og traust til lífsins.

Það er alltaf sárt að kveðja, góðu minningarnar ylja og kalla um leið fram tár og djúpar tilfinningar. En það er gott að vita af þér á góðum stað þar sem ég veit þú munt vaka áfram yfir okkur öllum með þínu djúpa ástríki. Ég mun halda áfram að syngja söngvana sem þú kenndir mér, reyna að ala strákana mína upp í sama æðruleysi og ég fékk að njóta og styðja þá í einu og öllu. Það var ekki lítil gjöfin að fá að koma í heiminn til þín og fyrir hana er ég alla daga þakklát. Uppeldi ykkar mömmu, ykkar skilyrðislausa ást og djúpu tengsl er þegar á botninn er hvolft undirstaða alls og það er ekki sjálfgefið að búa að slíkum grunni. Það er hið sanna ríkidæmi og það tókst ykkur að gefa börnunum ykkar þrátt fyrir mikið vinnuálag og lífsins öldurót.

Ég elska þig, pabbi minn, þú verður alltaf hjá mér og vísar mér áfram á hjartans leið – takk fyrir allt og allt.

Hvíldu í friði – umvafinn ást og kærleika.

Þín dóttir,

Benedikta Guðrún.

Svavar, föðurbróðir minn, er látinn eftir erfið veikindi síðustu ár.

Hann var ellefti í röð fjórtán systkina sem öll voru fædd og uppalin á Hömrum í Haukadal í Dalasýslu. Það lætur nærri að oft hefur verið fjörugt á bænum en amma, Guðrún Guðjónsdóttir, hafði góða stjórn á hópnum sínum með geðprýði sinni og mildi.

Ég á minningar um frænda minn frá því ég fór að muna eftir mér. Ein af fyrstu minningum mínum um hann er þegar hann kom suður í hálskirtlatöku og gisti þá hjá foreldrum mínum. Ég man eftir því að hann var að hjálpa mér að teikna og spila en ég var þá sex ára. Hann var alla tíð hlýr, brosmildur og jákvæður og það var gott að vera nálægt honum.

Seinna varð hann bílstjóri hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar í Búðardal og var þá í allnokkur ár kostgangari á heimili foreldra minna og stundum gisti hann þar ef svo stóð á. Alltaf hlakkaði ég til að fá hann í heimsókn því hann hafði fréttir að færa vestan úr Dölum af frændfólkinu þar og sagði skemmtilega frá. Hann var ósérhlífinn, hjálpsamur og dró hvergi af sér við vinnu og kom sér alls staðar vel.

Hann átti hesta um langt skeið og fyrsti hesturinn sem hann eignaðist var hann Skjóni sem var sjálftaminn en síðan eignaðist hann marga hesta og hafði mikla ánægju af að umgangast þá. Hann hafði líka gaman af að dansa og söngmaður var hann ágætur. Eftir að hann hætti störfum hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar gerðist hann sendibílstjóri í Reykjavík í allmörg ár og kom sér vel þar eins og alls staðar annars staðar.

Hann kvæntist frænku minni, Sigríði Sigurðardóttur, en móðir mín og hún voru systradætur, og eignuðust þau fimm börn en Sunna Mjöll, sem var þriðja í röðinni, lést aðeins tæplega sex ára gömul. Þau Sigga bjuggu lengst af í Asparfelli og um tíma var Svavar húsvörður þar. Þar ólust börnin þeirra upp og hafa öll komið sér vel fyrir.

Ég kveð frænda minn með þökk og minnist margra góðra stunda með honum. Börnum hans og barnabörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning frænda míns, Svavars Reynis Benediktssonar.

Ólafur H. Jónsson.

Við minnumst með hlýju og þakklæti góðs manns sem kvaddi friðsæll þessa jarðvist umvafinn fjölskyldu sinni fyrir stuttu.

Sagan segir að þegar Svavar hafði náð sér í heimasætuna frá Vatni hafi ekki verið aftur snúið. Hann stóð sem klettur við hlið Siggu sinnar í meira en hálfa öld og varð þeim fimm barna auðið. Svavar lifði konu sína, sem lést fyrir fimm árum. Það markaði einnig lífssýn hans að hafa misst litla dóttur, Sunnu Mjöll, fyrr á lífsleiðinni.

Svavar var ljúfur maður, traustur og glaður en þurfti ekki að vera miðja athyglinnar. Hann naut sín best á góðum stundum við söng með sínu fólki – og enginn kunni eins marga lagatexta og hann. Svavar var líka langt á undan sinni samtíð á sviði kynjajafnréttis sem kom kannski til af því að hann var giftur mikilli kvenréttindakonu. Hann tók virkan þátt í heimilishaldi og barnauppeldi auk þess að vera dugnaðarforkur í vinnu alla tíð – alltaf til staðar fyrir stórfjölskylduna þegar á þurfti að halda.

Hugur okkar er hjá ykkur, elsku bestu Siggi Haukur, Sveinbjörn, Svala, Ditta og fjölskyldur.

Við munum vanda okkur sérstaklega vel næst þegar brestur á með söng í fjölskyldunni. Já, við förum bara, förum bara fetið í minningu góðs manns.

Ég er að horfa hugfanginn

í hlýjum sumarblænum

yfir litla lækinn minn

sem líður fram hjá bænum.

Þegar eg er uppgefinn

og eytt er kröftum mínum,

langar mig í síðsta sinn

að sofna á bökkum þínum.

(Gísli Ólafsson)

Hugrún, Sigrún Sóley, Jörundur, Sigurður Hrafn, Auður Edda og fjölskyldur frá Vatni.