Dvergsreitur Í hjarta Hafnarfjarðar rís 19 íbúða byggð á Dvergsreit auk 5 verslunarrýma, þar sem nýja byggðin rímar vel við umhverfi og eldri hús.
Dvergsreitur Í hjarta Hafnarfjarðar rís 19 íbúða byggð á Dvergsreit auk 5 verslunarrýma, þar sem nýja byggðin rímar vel við umhverfi og eldri hús.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Uppbyggingin hér í miðbænum gengur mjög vel,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. „Við erum að reyna að blanda skemmtilega saman nýjum byggingum með öllum nútímaþægindum við eldri byggð á þessum þéttingarreitum…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Uppbyggingin hér í miðbænum gengur mjög vel,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. „Við erum að reyna að blanda skemmtilega saman nýjum byggingum með öllum nútímaþægindum við eldri byggð á þessum þéttingarreitum í miðbænum og gamla bænum.“ Þau þéttingarverkefni sem eru í vinnslu eða nýlokið er við eru á Dvergsreit á Lækjargötu 2 við Lækinn í Hafnarfirði, á Stekkkjarbergi, við Hlíðarbraut, Hrauntungu, Hjallabraut og við Strandgötu 26-30. „Við leggjum alla áherslu á að húsin falli vel að umhverfinu og gömlu byggðinni, hrauninu og erum við að huga að útliti húsanna, hæð þeirra, litum og fleiru sem tryggi að nýja byggðin undirstriki þann mikla sjarma sem er hérna í miðbænum í Hafnarfirði,“ segir Rósa.

Staður ársins

„Á Dvergsreitnum þar sem gömul smiðja stóð um áratugaskeið eru komin mjög skemmtileg íbúðarhús með þjónustu á neðstu hæðum sem hefur vakið mikla ánægju bæjarbúa,“ segir Rósa. Dvergsreitur er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum 2023, en hönnun arkitektastofanna KRADS og TRÍPÓLÍ þykir ná einstaklega vel að þétta byggðina, en skapa samt gott rými milli húsanna og hönnunin nái vel að fanga skemmtilegan þorpsanda sem styðji við gott mannlíf á svæðinu.

Þá nefnir Rósa líka uppbygginguna á Strandgötunni þar sem verið er að byggja við verslunarhúsnæðið Fjörð. „Þangað mun bókasafn bæjarins flytja og þar verða bæði íbúðir og hótelíbúðir og fleiri verslunarrými. Þar lögðum við mikla áherslu á að götumyndin myndi í lit og formum falla vel að gömlu byggðinni og samkvæmt þeirri hönnun sem unnið er eftir höfum við miklar væntingar til þess að það muni heppnast mjög vel.“

Stefnan skýr frá upphafi

Rósa segir að það hafi strax verið ákveðið að reyna að þétta byggð undir þeim formerkjum að hún styddi vel þá byggð sem væri fyrir á svæðinu án þess að gefa afslátt af nútímaþægindum nýbygginga. „Það skiptir mjög miklu máli í mínum huga að passa upp á þessi einkenni bæjarins, þennan sjarma sem við höfum hérna í Hafnarfirði. Það hefði verið hægt að byggja bæði hærri hús og meira á þessum reitum og fá þá meiri fjármuni til skamms tíma litið. En ég er sannfærð um að með því að halda í séreinkenni bæjarins og vinna með þeim séum við að skapa miklu meiri verðmæti til langs tíma litið. Við erum að horfa á að skapa skemmtilega umgjörð um mannlífið og að hönnunin hafi góð áhrif á umhverfið. Það er fjárfesting til framtíðar, því ef svona uppbygging tekst ekki vel til þá er það ekkert endilega afturkræft.“

Ný hverfi og höfnin

Þá er ekki allt upptalið sem verið er að gera í Hafnarfirði því einnig er uppbygging nýrra hverfa á nýjum svæðum eins og í Áslandi 4, Hamranesi og í Skarðshlíð þar sem gert er ráð fyrir íbúðabyggð fyrir rúmlega sex þúsund manns. „Þar erum við að búa til blönduð og skemmtileg vistvæn hverfi, en það eru önnur lögmál sem gilda þegar verið er að byggja frá grunni, og þar erum við líka með hærri fjölbýlishús í bland við lægri byggð.“

Svo stendur fyrir dyrum mikil uppbygging á hafnarsvæðinu þar sem iðnaðarsvæði verður að íbúðabyggð. „Flensborgarhöfnin er í hönnunar- og skipulagsferli og það er mikið tilhlökkunarefni að það verkefni fari af stað,“ segir Rósa. „Höfnin er í miðbænum og áherslan á Óseyrarsvæðinu er að hafa ýmsa starfsemi við höfnina í bland við íbúðabyggð, þar sem gott mannlíf getur þrifist.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir