Jóna Ingibjörg Jónsdóttir er sérfræðingur í kynheilbrigðishjúkrun á Landspítalanum og ráðleggur krabbameinssjúklingum.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir er sérfræðingur í kynheilbrigðishjúkrun á Landspítalanum og ráðleggur krabbameinssjúklingum.
Í nánu sambandi getur líka hjálpað að hafa makann með frá upphafi, ekki vera að pukrast úti í horni á bak við makann heldur vinna í hlutunum saman, það hefur skilað betri árangri í kynlífsbatanum.

Atli Steinn Guðmundsson

Ég kom hérna inn í samstarf við Landspítalann árið 2011 þegar farið var af stað með verkefni sem hét Kynlíf og krabbamein til þess að hjálpa heilbrigðisstarfsfólki að opna á kynlífstengd málefni og veita í framhaldinu kynlífstengda ráðgjöf,“ segir dr. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, sérfræðingur í kynheilbrigðishjúkrun við Landspítalann, en hún hefur starfað við kynfræðina á þriðja áratug og lauk árið 2021 doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands en ritgerð hennar fjallaði um þróun styrkleikamiðaðra meðferðarsamræðna við konur með krabbamein og maka þeirra.

Sinnir Jóna Ingibjörg þó ekki einvörðungu sjúklingum sem þarfnast ráðgjafar vegna krabbameins, allir sem skráðir eru inn á spítalann eða eru í göngudeildareftirliti geta nýtt sér þekkingu hennar, svo sem vegna mænuskaða eða hvers sem verða vill.

„En ég þekki mest inn á krabbameinið og kynlífið þar sem fólk glímir við ýmsar áskoranir. Krabbamein er náttúrulega yfirleitt sjúkdómur þeirra sem eru að greinast á miðjum aldri. Vissulega fær ungt fólk krabbamein en stærsti kúfurinn af þeim sem greinast eru miðaldra fólk og þaðan af eldra,“ útskýrir Jóna Ingibjörg.

Skurðaðgerðir, geislameðferðir, lyfjameðferðir og andhormónameðferðir vegna krabbameins hafa í mörgum tilfellum áhrif á kynlíf að sögn Jónu Ingibjargar, „og þá er ég ekki bara að tala um ris og eiginleika kvenna til að blotna í leggöngum heldur líka hvernig nánu sambandi reiðir af, hvort fólk haldi áfram nánum tengslum og snertingu að ógleymdum hugmyndunum um ímyndir, karlmennskuna og kvenleikann, og því hvernig líkaminn bregst við kynferðislegri örvun og hvort hann geti brugðist við eins og hann gerði áður“, útskýrir Jóna Ingibjörg.

Hugleiðingar fólks, spurningar og áhyggjuefni kveður hún af ýmsum toga, ekki snúi allt beinlínis að kynlífsástundun og hugsanlegum vanda þar heldur bræði ýmsir með sér hvenær tímabært sé að greina verðandi maka frá erfiðleikum á kynferðissviðinu. Aðspurð segir Jóna Ingibjörg fólk eiga auðvelt með að nálgast hana til að ræða hugðarefni sín. „Ég hef alltaf haft mjög fáar og lágar girðingar, fólk getur beðið lækninn sinn eða hjúkrunarfræðinginn að bóka tíma hjá mér eða senda mér beiðni, en ég náttúrulega fyrst og fremst sinni sjúklingum spítalans, ég get ekki tekið við fólki utan úr bæ, þá væri ég bara að drukkna,“ segir Jóna Ingibjörg sem einnig annast námskeið og kennslu og var, daginn eftir þetta spjall að fara að ræða við sérnámslækna í endurhæfingu um kynlífstengd vandamál vegna mænuskaða.

Jóna Ingibjörg kveður alla kynlífsumræðu í þjófélaginu nú opnari og almennari en þegar hún vakti fyrst athygli fyrir fræði sín fyrir þremur áratugum. „Ég held að viðhorfin séu að skána, þetta er ekki eins mikil nýlunda og þegar ég kom fram á sjónarsviðið, þá þótti fólki þetta mjög skrýtið og vissi ekkert hvað ég var að gera,“ rifjar Jóna Ingibjörg upp sem á sínum tíma skipulagði fyrstu landskönnun um kynhegðun á Íslandi og kveður hafa verið mjög gaman.

Segir hún enga ástæðu fyrir fólk að draga sig inn í skel þegar skórinn kreppir á kynlífssviðinu. „Leitið ykkur hjálpar ef þið eruð í erfiðleikum með kynlífið og ráðið ekki við það sjálf vegna langvinnra sjúkdóma, hvort sem það er krabbamein eða eitthvað annað, það eru til úrræði og lausnir í dag, verið óhrædd við að leita ykkur hjálpar,“ segir Jóna Ingibjörg.

Flest þessara úrræða virki og mikilvægt sé að fólk gefist ekki upp of fljótt heldur reyni nokkrum sinnum.

„Í nánu sambandi getur líka hjálpað að hafa makann með frá upphafi, ekki vera að pukrast úti í horni á bak við makann heldur vinna í hlutunum saman, það hefur skilað betri árangri í kynlífsbatanum, sýna þrautseigju, það er það sem hjálpar körlum alltaf mest. Bara finna leiðir, það eru alltaf til leiðir,“ segir dr. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, sérfræðingur í kynheilbrigðishjúkrun við Landspítalann, að lokum.