Innlendar flóttakonur Anna Rósa með konum af Yazidis-ættbálknum sem ISIS frömdu þjóðarmorð á 2014.
Innlendar flóttakonur Anna Rósa með konum af Yazidis-ættbálknum sem ISIS frömdu þjóðarmorð á 2014.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hafði aldrei farið til Mið-Austurlanda, hvað þá Íraks, en ég sendi nokkra tölvupósta og svo bara fór ég upp á von og óvon. Ég fór fyrst í mars á þessu ári en ég var lengur núna í seinna skiptið og gat fyrir vikið kennt miklu fleiri konum

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hafði aldrei farið til Mið-Austurlanda, hvað þá Íraks, en ég sendi nokkra tölvupósta og svo bara fór ég upp á von og óvon. Ég fór fyrst í mars á þessu ári en ég var lengur núna í seinna skiptið og gat fyrir vikið kennt miklu fleiri konum. Þetta er eitt stærsta flóttamannasvæði í heimi og vissulega er ekki öruggt að fara til Íraks, en ég starfa í Kúrdistan-Írak, sem er aðeins skárra, þó þetta sé mjög framandi land, engir túristar og engar almenningssamgöngur,“ segir Anna Rósa Róbertsdóttir grasalæknir, en hún er nýkomin heim eftir mánaðardvöl í flóttamannabúðunum, þar sem hún kenndi konum að búa til vörur úr lækningajurtum.

„Ég stofnaði góðgerðarsamtökin Lífgrös til að efla konur í þessum flóttamannabúðum með því að kenna þeim að búa til smyrsl, gigtarolíu, hárolíu og hóstasaft. Eitthvað verður maður að gera og þetta er það sem ég get gert. Ég hafði engar tengingar þarna úti, en ég fann samtökin The Lotus Flower á Instagram og nú vinn ég með þeim. Fyrir mér var þetta ekkert val, ég varð að gera þetta, þessar konur standa afar höllum fæti. Ég fékk heilsteypt fólk með mér í stjórn góðgerðasamtakanna, Ingibjörgu Birnu Ólafsdóttur og Hjörleif Sveinbjörnsson, og þau hvöttu mig til dáða. Þessi snjóbolti hefur rúllað hraðar en mig óraði fyrir og nú er ég búin að ráða tvo starfsmenn þarna úti, bílstjóra og kennara. Kennarinn er hún Eman, túlkurinn minn, en ég þarf eðli málsins samkvæmt alltaf að hafa túlk með mér. Eman ætlar að halda námskeið fyrir mig á meðan ég er ekki á staðnum. Eman er ekki flóttamaður, hún er venjuleg kúrdísk stúlka, háskólamenntuð og býr í bæ sem er næst flóttamannabúðunum. Hún er með bílpróf og hefur bíl til umráða, en það er of hættulegt að hún keyri sjálf og foreldrar hennar leyfa ekki að hún aki ein fyrir mig í búðirnar til að halda námskeiðin, svo ég varð að ráða bílstjóra. Hann er með krabbabeinsveika konu heima og þarf að sinna því og fara með hana í meðferð í hverri viku. Hann væri atvinnulaus ef ég hefði ekki ráðið hann í vinnu til að keyra Eman.“

Sumar kvennanna ólæsar

Anna Rósa tekur fram að með kennslunni sé hún líka að útdeila ókeypis lækningavörum sem konurnar hafi annars engin tök á að nálgast.

„Konurnar fá vörurnar sem þær búa til með sér heim að námskeiði loknu og geta notað heima hjá sér. Þetta er algerlega sjálfbært hjálparstarf því ég nota einvörðungu hráefni sem fæst á mörkuðum úti í Írak. Þar kaupi ég jurtir fyrir námskeiðin og ég vel jurtir sem konurnar þekkja vel, en það er nauðsynlegt svo þær geti gert þetta sjálfar. Nokkrar kvennannna eru áhugasamar um að stofna fyrirtæki, vera með eigin framleiðslu á smyrslum og olíum, og ef af því verður þá mun ég kenna þeim grunninn í fyrirtækjarekstri og koma með stofnfé til að fara af stað.“

Anna Rósa segir sannarlega mikla lífsreynslu að koma í flóttamannabúðirnar og starfa þar.

„Þetta eru flóttamannabúðir fyrir sýrlenskar konur, en þarna búa líka karlmenn. Auk þess eru í búðunum innanlandsflóttamenn sem þurftu að flýja undan ISIS árið 2014, en þeir frömdu þjóðarmorð á Yazidis-ættbálknum. Konur af þeim ættbálki urðu burtrækar og geta ekki snúið aftur í sín heimahéruð, það er of hættulegt og ekki til neins að hverfa þar. Menntunarstig kvennanna sem ég hef verið að kenna er mjög misjafnt, sumar eru til dæmis ólæsar, þær sem koma úr strjálbýli og fátækt, og visslega er ólíkt fyrir mig að kenna þeim heldur en þeim konum sem eru með ágætis menntun. Sú sem er með mér í þessu hefur unnið í öðrum verkefnum og fyrir vikið þekkja þær hana, sem hjálpar mjög mikið. Tímaskyn hjá þessu fólki er ekki eins og við þekkjum hér heima, sumar konurnar mæta kannski klukkutíma eða jafnvel tveimur tímum of seint á námskeið, sem er alveg eðlilegt þarna,“ segir Anna Rósa og hlær.

„Stundum mæta þrjú börn með
hverri konu og þá þarf ég að taka
tillit til þess, ég þarf að vera sveigjanleg. Þetta er sannarlega allt annað
umhverfi í kennslu en ég á að venjast, en ég stressa mig ekkert á því.“

Ég mun klára mitt sparifé

Anna Rósa segir að aðstæður kvennanna í flóttamannabúðunum séu mismunandi, sumar þeirra búi í tjöldum, en aðrar í kofum.

„Þær eiga sitt líf þarna og vita að þær losna sennilega aldrei úr búðunum, einmitt þess vegna er svo áríðandi að einhver komi og veiti þeim tækifæri. Staða þeirra er hrikaleg, að vera þarna og geta ekkert gert, hafa ekkert fyrir stafni annað en að sinna heimilisstörfum og stundum örfáum kindum. Þarna er enginn skóli fyrir þær til að mennta sig, nema hjálparsamtök sem koma með ákveðin verkefni, The Lotus Flower býður þeim til dæmis upp á líkamsrækt, svo þær koðni ekki alveg niður. Ég legg upp úr því að hafa kennsluna einfalda, ég er að kenna þeim eitthvað sem þær eiga auðvelt með að tileinka sér. Ég er líka að efla sjálfstraust þeirra, kenna þeim að þær megi og geti, rétt eins og ég, en þær trúa því ekki allar í byrjun. Ég þarf því að nálgast þetta með allt öðrum hætti en þegar ég er með námskeið hér heima á Íslandi,“ segir Anna Rósa og tekur fram að hana bráðvanti peninga til að halda áfram.

„Ég er með þá ábyrgð að þetta gangi upp. Ég er búin að lofa þessu og ég mun sennilega klára mitt sparifé í þetta og verð því að hvetja fólk til að leggja þessu lið með því að styrkja verkefnið fjárhagslega. Ég lagði af stað ein kona til að hjálpa ótal öðrum konum, en ég sá fljótt að ég yrði að stofna samtök og reyna að fá fólk í lið með mér, því þetta er nú þegar orðið allt of dýrt. Þó ég noti minn eigin sparnað í þetta, þá er það ekki nóg.“

Á heimsíðu góðgerðarsamtaka Önnu Rósu, lifgros.is, er bæði hægt að styrkja verkefnið með stökum greiðslum eða gerast bakhjarl með mánaðarlegum greiðslum.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir