Kristjana Þorbjörg Vilhjálmsdóttir (Systa) fæddist 3. júní 1941 á Brekku í Garði. Hún lést á HSS 21. október 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Vilhjálmur Kristján Halldórsson frá Vörum í Garði, f. 5.7. 1913, d. 1.4. 1997, og Steinunn Sigurðardóttir frá Hellissandi, f. 24.8. 1917, d. 13.4. 2013.

Systkini Kristjönu Þorbjargar eru Kristján Vilberg, f. 18.9. 1938, d. 16.5. 2020, eftirlifandi eiginkona hans er Ásta Vigdís Böðvarsdóttir; Sigurður Stefán, f. 15.10. 1939, d. 12.8. 2019; Steinunn, f. 5.3. 1945, d. 22.11. 1995, eiginmaður hennar var Guðmundur Sveinbjörnsson; Halldór, f. 22.6. 1947, d. 1.4. 2022, eiginkona hans var Gunnhildur Ásgeirsdóttir; Vilhjálmur, f. 31.12. 1949, d. 10.12. 2017; Stefanía, f. 25.11. 1956, eiginmaður hennar er Kristinn Kristinsson.

Hinn 25. desember 1975 giftist Kristjana Friðriki Ágústi Pálmasyni, f. 13.11. 1941, d. 15.1. 2016. Börn þeirra eru: 1) Vilhjálmur Pétur, f. 7.10. 1964, eiginkona hans var Dröfn Gústafsdóttir. Börn þeirra eru: a) Kristjana, gift Guðmundi Ragnari Magnússyni, börn þeirra eru Magnús Máni, Katla Dröfn og Elvar Dreki. b) Björg, c) Daníel Valur og d) Elva Ósk. 2) Steinunn Bríet, f. 22.7. 1971. Börn hennar eru: a) Eva Lín og b) Benjamín Ágúst. 3) Helga, f. 26.1. 1977, gift Friðriki Valdimar Árnasyni. Börn þeirra eru: a) Finnur Valdimar, b) Mikael Árni og tvíburarnir c og d) Friðrik Steinarr og Anna Hulda. 4) Hildur, f. 26.1. 1977. Börn hennar eru: a) Ágúst Annel, b) Þórarinn Vagn, c) Jón Símon og d) Magnþóra Rós.

Kristjana var í barnastúkunni Siðsemd nr. 14, var þar í embætti kapeláns og tók þátt í leikritum og söng. Hún vann bústörf á Brekku og í verslun sem var einnig á Brekku sem og í síld. Eftir að hún kláraði Gerðaskóla í Garði fór hún í Kvennaskólann í Reykjavík. Á öðru ári veiktist hún af berklum, var á Vífilsstöðum en fékk fullan bata. Kristjana gekk 15 ára gömul í kvenfélagið og var í því alla tíð, hún varð síðar varaformaður í mörg ár og svo heiðursfélagi. 16 ára fór hún að vinna skrifstofustörf á lítilli vörubílastöð í Garði og var einn vetur á Aðalstöðinni í Keflavík. Árið 1959 fór hún í lýðháskóla í Svíþjóð og fór svo að vinna á sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Þaðan fór hún á síld á Raufarhöfn með vinkonum sínum. Um tíma vann hún hjá SÍS í Reykjavík þar til hún fór til Edinborgar í Skotlandi sem au-pair. Þar lagði hún einnig stund á enskunám í kvöldskóla. Eftir heimkomuna frá Edinborg vann hún í fyrirtækinu Segli og á Hótel Borg. Þegar hún kom aftur heim í Garðinn fór hún að vinna við launaútreikninga hjá frystihúsinu Atlandor í Keflavík. Árið 1966 hóf hún störf sem stöðvarstjóri hjá Pósti og síma í Garðinum og starfaði þar í rúm 40 ár.

Kristjana var í Gufudalsnefndinni hjá Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um árabil var Kristjana félagi í Soroptimistaklúbbi Suðurnesja og í 23 ár var hún í sóknarnefnd Útskálakirkju og var þar jafnframt gjaldkeri í mörg ár.

Útför Kristjönu fer fram frá Útskálakirkju í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 15.

Elsku mamma og amma okkar Kristjana hefur nú fengið hvíldina.

Hún var einstaklega fjölhæf og margt til lista lagt, hún var stöðvarstjóri, ferðaðist til fjarlægra landa, las fjölmargar bækur og var listunnandi. Mamma okkar og amma var traust, gáfuð og ljúf fjölskyldukona og samverustundir með börnum og barnabörnum voru henni mikils virði og dýrmætar. Hún var úrræðagóð og drífandi, í hennar höndum urðu flóknustu mál einföld úrlausnar.

Ótal góðar minningar eigum við með henni bæði heima eða á ferðalögum, stuttum og löngum. Minningarnar af því að fá okkur kaffi og pönnukökur á veröndinni á meðan börnin léku sér í heita pottinum eru einstaklega sterkar. Svona daga áttum við oft á hverju sumri og fannst okkur ómissandi hluti af sumrinu að heimsækja ömmu Kristjönu og afa Gústa í Garðinn. Einnig var hún mjög framtakssöm í því að skapa frábærar æskuminningar. Til dæmis fór hún oft með okkur börnin á skíði í Skálafelli, Bláfjöllum og í skíðaskóla í Kerlingarfjöllum og með barnabörnin í leikhús, á tónleika og á skauta. Við erum þakklát fyrir minningarnar, samtölin og yndislegu samverustundirnar.

Þín verður sárt saknað og minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Við látum fylgja bæn sem þú kenndir okkur:

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

(Höf. ók.)

Steinunn Bríet, Eva Lín og Benjamín Ágúst.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

Við fjölskyldan munum minnast þín með pönnsubakstri sem var ein af þínum sérgreinum.

Helga Ágústsdóttir,
Friðrik V. Árnason,
Finnur Valdimar,
Mikael Árni, Anna Hulda og Friðrik Steinarr.

Elsku amma mín er farin.

Amma var ávallt svo virk bæði í samfélaginu í Garði þar sem hún fæddist og ólst upp sem og í fjölskyldunni. Hún starfaði í kvenfélaginu Gefn eins lengi og ég man eftir mér og var límið í stórfjölskyldunni. Hún var dugleg að taka vel á móti fólkinu sínu þegar um var að ræða formleg eða óformleg boð. Jólin og páskarnir voru ekki eins og venja var nema allir hittust í langborði á Garðbrautinni í matarveislu. Þar var alltaf glatt á hjalla.

Amma elskaði að lesa bækur og voru samræður okkar oftar en ekki um bókarýni af einhverju tagi.

Amma hafði einnig gaman af því að hafa sig til. Hún var alltaf vel til höfð og alger pæja eins og börnin mín orðuðu það stundum.

Hún dáðist að fólkinu sínu og naut þess að tala um hvað börn, barnabörn og barnabarnabörn væru að taka sér fyrir hendur. Hún var stolt af hópnum sínum.

Ég man vel þegar ég var barn hvað ég var dekruð af henni. Ég og síðan Danni bróðir vorum lengi vel einu barnabörnin. Hún fór með mig í leikhús, bústaði og alls kyns skemmtilegheit. Síðar bættist svo vel í hópinn, þar á meðal börnin mín sem voru þó alltaf partur af ömmubörnunum. Amma Kristjana bar því ekki titilinn langamma þó bókstaflega væri hún það heldur var hún bara amma okkar allra. Ég kunni svo vel að meta það.

Minningar um þig, elsku amma, eru perlur sem við geymum í hjörtum okkar.

Takk fyrir allt.

Þín

Kristjana Vilhjálmsdóttir.

Systir mín kær er farin frá okkur, hún var mér afar kær og þeim sem hana þekktu.

Við erum búnar að þurfa að kveðja marga saman, foreldra, systkini, Gústa þinn, vini og vandamenn, en nú er komið að kveðjustundinni okkar.

Við ólumst upp saman á Brekku þangað til ég var 15 ára, þá hafði hún byggt sitt eigið hús og flutti á Garðbrautina góðu. Það er margs að minnast.

Þegar ég var barn og Systa bjó heima á Brekku var alltaf gott að leita til hennar. Hún átti góðan ruggustól, sem enn er til, og þar sátum við oft saman í stólnum, hún að hjálpa mér með handavinnu, skólaverkefni eða að horfa á sjónvarpið.

Systu þótti alltaf gaman að ferðast og þegar hún kom frá útlöndum kom hún alltaf þeim mun glæsilegri til baka í nýjum fötum frá London og svo var ég svo heppin að hún kom einnig með svakalega flottar gjafir handa mér, leikföng eða falleg föt.

Þegar ég varð eldri og var mikið að heiman þá var hún alltaf dugleg að halda sambandi við mig og voru fastir liðir að spjalla saman í síma, sama hvort ég var á Laugavatni, London eða Akureyri.

Maður var alltaf velkominn á Garðbrautina og eigum við fjölskyldan góðar minningar af huggulegum kaffiboðum, sólríkum sumardögum þar sem krakkarnir léku sér saman í heita pottinum eða úti í garði, Húsinu á sléttunni í sjónvarpsholinu og leikföngunum í búrinu sem voru dregin fram.

Það var alltaf hægt að reiða sig á Systu og var hún traust sínu fólki. Hún var einstaklega hjálpsöm með foreldra okkar og hugsaði vel um sína.

Kæra Systa, við þökkum þér fyrir vináttu og kærleika þinn. Gangi þér vel á leiðinni í Sumarlandið, við vitum að þér verður þar vel tekið af honum sem öllu ræður, Gústa, foreldrum, systkinum, frændsystkinum og vinum.

Guð blessi minningu þína.

Þín systir,

Stefanía og fjölskylda.

Í dag kveð ég hjartfólgna frænku og æskuvinkonu mína með mikinn söknuð í hjarta, en um leið gleði yfir þeim fjársjóði sem hún skilur eftir sig í huga mínum.

Ég fæddist á heimili Systu og fjölskyldu hennar á Brekku en þá var verið að byggja grunninn að framtíðarheimili foreldra minna, Bjarmalandi, sem er næsta hús við Brekku.

Systa var tveimur árum eldri en ég og við áttum margar góðar samverustundir við leiki og störf. Hún kenndi mér versið Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt. Ég hef alltaf haldið upp á þessa minningu og kennt börnunum mínum það.

Amma okkar og afi bjuggu í næsta nágrenni, í Vörum, og voru útvegsbændur. Alltaf var nóg við að vera hjá þeim í fiskvinnslu og heyskap. Við Systa fengum að aðstoða ömmu í blómagarðinum hennar sem við kölluðum ömmugarð og var fallegur skrúðgarður, þar sem stórfjölskyldan frá Vörum kom saman á góðviðrisdögum.

Við Systa höfðum alltaf nóg fyrir stafni. Fjaran og heiðin voru góð leiksvæði og Gerðasíkið notað mikið til skautaferða á vetrum.

Systa var dugleg að hjálpa til á heimilinu sínu. Hún átti fjóra bræður og eina systur á þessum tíma, en yngsta barnið fæddist þegar hún var 15 ára. Búskapur var stundaður á Brekku, þau voru með hænsnabú og kýr og svo var eitthvað um fiskvinnslu, því Villi átti bátinn Fram sem nú er á Byggðasafninu á Garðskaga.

Þótt mikið væri að gera hjá Systu gaf hún sér tíma til að lesa bækur og miðlaði mér oft af því sem hún las. Hún sagði mér frá bókinni Vesalingunum eftir Victor Hugo sem hún hreifst mjög af og fleiri „fullorðinsbókum“. Almenningsbókasafn var í Sjólyst þar sem fyrsta bókasafnið á Suðurnesjum var til húsa. Þangað sóttum við bækur á loftið til hennar Unu. Sagt er að snemma beygist krókurinn og það átti við um okkur Systu því við áttum alla tíð það sameiginlega áhugamál að lesa mikið og vorum fastagestir á bókasafninu. Við stofnuðum leshóp sem nefnist Leshópurinn Una og hittist enn mánaðarlega í Sjólyst.

Æskuárin liðu, Systa vildi mennta sig og fór í Kvennaskólann í Reykjavík, en því miður veiktist hún af berklum og varð að hætta náminu.

Systa byggði sér einbýlishús í Garðinum af miklum dugnaði. Hún giftist Friðriki Ágústi Pálmasyni og byrjuðu þau búskapinn í nýja húsinu og áttu mjög farsælt og gefandi fjölskyldulíf. Þau hjónin voru samhent í öllu. Þau ferðuðust mikið með börnin bæði innanlands og utan og það var gaman að heyra ferðasögurnar þeirra og skoða myndir úr ferðunum.

Systa sýndi börnunum okkar Jóa mikla hlýju og kærleika og þótti þeim afar vænt um hana.

Nú síðustu árin eftir að við vorum báðar orðnar eftirlaunaþegar vorum við mjög samstiga í áhugamálum.

Ég geymi allar þær góðu minningar sem ég á um elsku Systu í hjarta mínu og mun deila þeim áfram með ástvinum okkar því þær eru uppbyggjandi og gefandi.

Við Jói minn og börnin okkar sendum börnum Systu og þeirra fjölskyldum, okkar hjartans samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa þau öll.

Kristjana H. Kjartansdóttir.

hinsta kveðja

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Vilhjálmur P.
Björgvinsson.