Nú er bakvörður dagsins spenntur! Hann mætti á fund Arnars Péturssonar, landsliðsþjálfara kvenna í handbolta, í gær, þar sem átján manna hópurinn fyrir lokamót HM var opinberaður. Er um mjög spennandi hóp að ræða, sem leit vel út gegn Færeyjum og Lúxemborg í undankeppni EM í síðasta verkefni

Jóhann Ingi

Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Nú er bakvörður dagsins spenntur! Hann mætti á fund Arnars Péturssonar, landsliðsþjálfara kvenna í handbolta, í gær, þar sem átján manna hópurinn fyrir lokamót HM var opinberaður.

Er um mjög spennandi hóp að ræða, sem leit vel út gegn Færeyjum og Lúxemborg í undankeppni EM í síðasta verkefni.

Margir sterkir leikmenn eru fjarverandi hjá íslenska liðinu, eins og komið er inn á í grein á síðunni á undan. Þess í stað fá ungir leikmenn að spreyta sig á stóra sviðinu og þeim hent í dýpsta enda laugarinnar. Það þarf að læra hratt og vel.

Sjö leikmenn hafa leikið ellefu landsleiki eða minna og aðeins Þórey Rósa Stefánsdóttir hefur leikið á heimsmeistaramóti áður, en hún var hluti af hópnum sem gerði glæsilega hluti á HM í Brasilíu árið 2011.

Það verður mjög skemmtilegt að sjá hvernig yngri leikmönnum gengur á allra stærsta sviðinu. Undanfarin ár hafa verið erfið hjá landsliðinu, eftir þrjú stórmót í röð á árunum 2010 og 2012. Nú er byrjað að glitta í ljósið við enda ganganna. Ísland er á leiðinni á HM og ekki er ólíklegt að EM á næsta ári fylgi, eftir sigrana á Lúxemborg og Færeyjum.

Það væri æðislegt að sjá kvennalandsliðið fara á stórmót eins reglulega og karlalandsliðið því það þarf ekki síður að lýsa upp hversdagsleikann í lok hvers árs en í byrjun þess. Hitum upp fyrir jólin með stórmóti í handbolta og fögnum nýju ári með öðru. Þvílík veisla.

Bakvörður dagsins er sjálfur að fara til Noregs til að fylgja liðinu eftir og fundurinn í gær kveikti enn meiri neista. Nú getur hann og aðrir farið að telja niður, með fiðring í maganum.