Alls hafa 14 smærri byggðarlög á landinu tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir frá því að því var ýtt úr vör fyrir rúmum áratug og er það í gangi í dag í fimm byggðarlögum. Eitt meginmarkmið þess er að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum sem staðið hafa höllum fæti

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls hafa 14 smærri byggðarlög á landinu tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir frá því að því var ýtt úr vör fyrir rúmum áratug og er það í gangi í dag í fimm byggðarlögum. Eitt meginmarkmið þess er að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum sem staðið hafa höllum fæti. Fram kom á málþingi um reynsluna af verkefninu, sem haldið var í seinasta mánuði, að greina megi framfarir í öllum byggðarlögunum 14, að því er greint er frá á vef Byggðastofnunar. Ljóst er þó að árangurinn er misjafn eftir byggðarlögum og ekki hefur alls staðar tekist að snúa við þróun fólksfækkunar.

KPMG var fengið til að vinna áhrifamat á verkefninu og framvindu þess og hefur Byggðastofnun nú birt lokaskýrslu þessarar úttektar. Í henni eru m.a. birtar niðurstöður úr viðtölum við fólk sem komið hefur að verkefninu og svör úr viðhorfskönnunum sem gerðar voru meðal íbúa í 13 byggðarlögum sl. sumar. Í niðurstöðum KPMG segir að það sé mat viðmælenda og íbúa að verkefnið hafi almennt gengið vel og ánægja sé með það. Vísbendingar séu hins vegar um að brothættar byggðir nái ekki nægilega vel að uppfylla meginmarkmið samkvæmt byggðarlögum og stjórnsýsluleg staða verkefnisins, verkefnisstjóra og verkefnisstjórnar sé ekki nægilega skýr. M.a. þurfi að leita leiða til að tengja verkefnið betur inn í stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera.

Heildarframlög til verkefnisins úr byggðaáætlun yfir allt tímabilið nema 1.395 milljónum króna á núvirði. Fram kemur í mati á íbúaþróuninni þennan tíma að í níu byggðarlögum sem tekið hafa þátt í verkefninu hafi íbúaþróunin ekki haldið í við íbúaþróun þess landshluta sem þau tilheyra. Tvö hafa fylgt landshlutaþróuninni og fjölgun hefur orðið umfram íbúafjölgun í landshluta í þremur byggðarlögum. „Það er því ljóst að staða byggðarlaganna er ennþá viðkvæm og ljóst að það hallar á jaðarsvæði innan landshlutanna. Þróun íbúafjölda í landshlutanum gefur ákveðna mynd af því hvernig breytingar á svæðinu eru, erfitt er þó að bera saman stöðu jaðarsvæða við landshluta,“ segir í skýrslu KPMG. Fram kemur að mest varð íbúafjölgunin í Skaftárhreppi, eða 140 íbúar, og í Bíldudal 44. Mest varð fækkun íbúa hins vegar í Strandabyggð, 29, eða um 6% á verkefnistímanum og í Grímsey fækkaði um 25 manns eða um 31% á þessum tíma. Í helmingi byggðarlaganna átti sér þó ekki stað fækkun á verkefnistímanum og bendir KPMG á að þau byggðarlög standist því meginmarkmið verkefnisins.

„Ljóst er að utanaðkomandi þættir hafa jákvæð áhrif í þeim byggðarlögum þar sem íbúafjölgun er umtalsvert yfir landshlutameðaltali, svo sem uppbygging laxeldis á Vestfjörðum og uppgangur einkennandi greina ferðaþjónustu á Suðurlandi. Þetta undirstrikar þær ábendingar sem fram komu í viðtölum að meira þurfi að koma til, svo að hægt sé að snúa við neikvæðri íbúaþróun brothættra byggða,“ segir í skýrslunni.

46% segja verkefnið ganga vel

Svör íbúa í íbúakönnun KPMG eru mjög mismunandi eftir byggðarlögum. Yfir 70% svarenda þekkja vel til verkefnisins Brothættra byggða en þegar íbúarnir voru spurðir álits á því hversu vel verkefnið hefði gengið sögðu 46% það ganga fremur eða mjög vel en 24% mjög eða fremur illa. Íbúarnir voru líka beðnir að leggja mat á hversu vel verkefninu hefði tekist að hægja á fólksfækkun í byggðarlagi þeirra. 14% svöruðu mjög illa og 23% fremur illa. 26% töldu hins vegar að það hefði tekist fremur vel og 5% mjög vel. 32% völdu valkostinn hvorki né. Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti, eða um 85%, telja skipta miklu eða mjög miklu máli að hafa verkefnisstjóra búsettan í byggðarlaginu og spurðir hversu vel eða illa fyrirkomulag styrkveitinga væri til þess fallið að styðja við viðleitni til framfara í byggðarlaginu sögðu 63% það vel til þess fallið.

Í niðurstöðum skýrslunnar er velt upp hvort lengja ætti verkefnistímann og bent er á að misjafnt sé hver beri ábyrgð á eftirfylgni þegar honum er lokið. Dæmi séu um að ekkert taki þá við og að árangur af verkefninu verði minni en ella vegna skorts á eftirfylgni.

Höf.: Ómar Friðriksson