Heimsmeistaramótið Átján manna leikmannahópur Íslands er klár í slaginn fyrir lokamót HM.
Heimsmeistaramótið Átján manna leikmannahópur Íslands er klár í slaginn fyrir lokamót HM. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, tilkynnti í gær 18 manna hóp fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í lok nóvember. Íslandi mistókst að tryggja sér þátttökurétt í gegnum undankeppnina, en fékk síðan úthlutað boðssæti og verður með …

HM 2023

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, tilkynnti í gær 18 manna hóp fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í lok nóvember. Íslandi mistókst að tryggja sér þátttökurétt í gegnum undankeppnina, en fékk síðan úthlutað boðssæti og verður með á stórmóti í fjórða sinn og í fyrsta sinn frá árinu 2012.

Ísland mætti Færeyjum og Lúxemborg í undankeppni EM í síðasta mánuði og er um sama hóp að ræða og tók þátt í því verkefni. Ísland vann bæði Færeyjar og Lúxemborg og leit hópurinn vel út.

Flestir leikmenn hópsins, sex talsins, leika með Val og eru aðrir sex leikmenn atvinnumenn erlendis. Þórey Rósa Stefánsdóttir er reynslumesti leikmaðurinn með 123 landsleiki og á eftir henni er Hildigunnur Einarsdóttir með 96 leiki.

Þórey Rósa er einnig markahæst í liðinu með 348 mörk í landsliðstreyjunni. Á eftir henni er Thea Imani Sturludóttir með 124 mörk í 64 landsleikjum og Hildigunnur er með 108 mörk.

Elín Rósa Magnúsdóttir og Elísa Elíasdóttir eiga fæstu landsleikina í hópnum, eða fjóra hvor. Katrín Tinna Jensdóttir er með fimm og Elín Klara Þorkelsdóttir átta. Sunna Jónsdóttir verður fyrirliði Íslands á mótinu og eru þær Sandra Erlingsdóttir og Þórey Rósa einnig í svokölluðu fyrirliðateymi.

Framhald af síðasta verkefni

„Það tók sinn tíma að setja þennan hóp saman. Þetta er samt sami hópur og á móti Færeyjum, svo þetta er beint framhald af því,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið frá skrifstofum Icelandair, þar sem hópurinn var kynntur í gær.

Arnar svaraði játandi aðspurður hvort einhverjir leikmenn hefðu gulltryggt sér farmiðann á HM með góðri frammistöðu í verkefninu gegn Færeyjum og Lúxemborg. „Það hefur myndast ákveðinn kjarni og svo eru ungar stelpur að koma inn líka sem eru lofandi. Við hugsuðum að þessi blanda væri rétta leiðin,“ sagði Arnar.

Margir ungir og óreyndari leikmenn eru í hópnum að þessu sinni og hafa til að mynda sjö af átján leikmönnum leikið ellefu landsleiki eða færri. Arnar sagði það geta gefið yngri leikmönnum mikið að fara á stórmót og mæta sterkum andstæðingum.

„Þetta skilur örugglega mikið eftir sig. Ég er með mikið af ungum leikmönnum í hópnum. Við mætum mjög sterkum þjóðum á þessu móti og það mun reyna á okkur á ýmsan hátt. Það er þroskandi,“ sagði hann.

Ísland er í D-riðli með Frakklandi, Slóveníu og Angóla. Fer hann fram í Stavangri í Noregi, en mótið fer einnig fram í Danmörku og Svíþjóð. Íslenska liðið leikur við Slóveníu 30. nóvember, Frakkland 2. desember og Angóla 4. desember. Þrjú efstu sætin fara í milliriðla á meðan botnliðið spilar um forsetabikarinn.

Frakkland og Slóvenía eru fyrir fram talin töluvert sterkari en Ísland, en sigur á Angóla í lokaleiknum gæti tryggt sætið í milliriðli. Arnar sagði hins vegar markmiðið ekki endilega vera að komast í milliriðla, þar sem riðillinn er snúinn.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa leikjum, en við verðum líka að horfa á hvaða liðum við erum að fara að mæta og hver andstæðingurinn er. Við erum að fara að mæta liðum sem eru töluvert sterkari en við á pappírnum og með meiri reynslu á stórmótum.

Við leggjum áherslu á annað en að krefjast þess að vinna. Það sem við ætlum að leggja áherslu á er frammistaða okkar og hvernig við spilum vörn og sókn. Við viljum hámarka alla þætti leiks og gera allt okkar. Það gæti skilað okkur góðum úrslitum,“ sagði hann.

Margir leikmenn fjarverandi

Ansi margir leikmenn Íslands eru fjarri góðu gamni um þessar mundir. Birna Berg Haraldsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Lovísa Thompson eru allar að glíma við meiðsli og Ragnheiður Júlíusdóttir hefur verið lengi frá vegna veikinda, en hún hefur ekki náð sér að fullu eftir að hafa greinst með kórónuveiruna fyrir tæpum tveimur árum. Þá eru þær Unnur Ómarsdóttir, Rut Jónsdóttir, Karen Knútsdóttir og Steinunn Björnsdóttir allar í barneignar-
leyfi.

„Það hafa verið höggvin skörð í þennan hóp og síðast duttu út fyrirliðarnir Rut og Steinunn. Ég hefði gjarnan viljað hafa þær til taks, en svona er þetta. Ég er mjög ánægður með hópinn sem ég er búinn að velja. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni með þeim,“ sagði Eyjamaðurinn.

Ísland mætir Noregi, Angóla og Póllandi á undirbúningsmótinu Posten Cup fyrir lokamótið. Verður leikið í Lillehammer í Noregi í nóvemberlok. Arnar hefur ekki áhyggjur af því að mæta verðandi andstæðingum á HM nokkrum dögum á undan.

„Við þurftum að hugsa það, en við samþykktum að taka þessa þrjá leiki sem munu nýtast okkur í framtíðinni,“ sagði hann, áður en hann hvatti áhorfendur til að fjölmenna til Noregs að styðja íslenska liðið.

„Það er auðvelt að fljúga til Óslóar og þetta verður góður tími fyrir hóp af Íslendingum að koma saman,“ sagði Arnar.

Leikmannahópur Íslands

Markverðir:

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Aalborg 44/1

Hafdís Renötudóttir, Val 45/2

Aðrir leikmenn:

Andrea Jacobsen, Silkeborg 41/46

Berglind Þorsteinsdóttir, Fram 11/5

Díana Dögg Magnúsdóttir, Sachsen Zwickau 40/48

Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum 8/8

Elín Rósa Magnúsdóttir, Val 4/11

Elísa Elíasdóttir, ÍBV 4/0

Hildigunnur Einarsdóttir, Val 96/108

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Skara 6/8

Katrín Tinna Jensdóttir, Skara 5/0

Lilja Ágústsdóttir, Val 10/4

Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi 34/53

Sandra Erlingsdóttir, Metzingen 22/95

Sunna Jónsdóttir, ÍBV 77/59

Thea Imani Sturludóttir, Val 64/124

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val 38/21

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram 123/348

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson