Kári Hólmar Ragnarsson
Kári Hólmar Ragnarsson
„Sú ákvörðun sem hefur verið tekin hjá dómstólnum er tímabundin ráðstöfun sem er bindandi að þjóðarétti fyrir íslenska ríkið. Skilyrði þess að þetta sé gert er að yfirvofandi sé óbætanlegur skaði fyrir viðkomandi,“ segir Kári Hólmar…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Sú ákvörðun sem hefur verið tekin hjá dómstólnum er tímabundin ráðstöfun sem er bindandi að þjóðarétti fyrir íslenska ríkið. Skilyrði þess að þetta sé gert er að yfirvofandi sé óbætanlegur skaði fyrir viðkomandi,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Hann var spurður hvort stjórnvöldum bæri að hlíta úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu um að ekki mætti vísa Hussein Hussein og fjölskyldu hans af landi brott fyrr en í fyrsta lagi 21. nóvember.

Kári segir að þúsundir umsókna berist þar sem óskað sé eftir að heimild þessa efnis sé nýtt, en henni sé sjaldan beitt og einu sinni áður gagnvart Íslandi.

„Þetta er frestun á meðan kært er til dómstólsins með hefðbundnum hætti. Í málum fólks sem leitar eftir alþjóðlegri vernd þá snúast þau nánast alltaf um það hvort endursending á tiltekinn stað eða fólks í tiltekinni viðkvæmri stöðu sé í andstöðu við 3. grein Mannréttindasáttmálans um bann við ómannúðlegri meðferð,“ segir Kári.

Sjaldan fallist á umsóknir um frestun

Hvort allir geti sótt um slíka meðferð sem hér um ræðir svarar Kári því játandi, en segir að skilyrðin fyrir því að það sé samþykkt séu mjög þröng og sjaldan fallist á slíkar umsóknir. Í þessu máli sjái dómstóllinn eitthvað sem veki eftirtekt. Samhliða því sem brottflutningi er frestað sé spurningum beint til íslenska ríkisins og það ráðist af svörum við þeim hvort dómstóllinn ákveði að framlengja eigi frestunina eða ekki.

„Það er alls ekki svo að hér sé komið eitthvert nýtt úrræði sem opnar einhverjar dyr sem áður voru lokaðar. Hvert og eitt mál er skoðað sérstaklega og afgreitt á þeim grundvelli. En það má draga þá ályktun að dómstóllinn sjái í þessu máli að minnsta kosti nógu mikið til þess að hann telji rétt að fresta þessari brottvísun á meðan hann skoðar málið nánar,“ segir Kári og bendir á að þetta sé í samræmi við framkvæmd dómstólsins hingað til sem sé í þá veru að einstaklingar í viðkvæmri stöðu eigi að njóta sérstakrar verndar og mál þeirra þurfi að skoða vandlega.

Að sögn aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, Árna Grétars Finnssonar, er ákvörðun Mannréttindadómstólsins bindandi fyrir Ísland í máli Husseins Husseins og því óheimilt að flytja hann úr landi fyrir 21. nóvember.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson