Hvalur Hafró segir þá gegna litlu hlutverki í loftslagsmálum.
Hvalur Hafró segir þá gegna litlu hlutverki í loftslagsmálum. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Hafrannsóknastofnun gerir ýmsar athugasaemdir við fullyrðingar sem fram koma í greinargerð með frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar alþingismanns o.fl. um bann við hvalveiðum. Segir stofnunin að í kaflanum „Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Hafrannsóknastofnun gerir ýmsar athugasaemdir við fullyrðingar sem fram koma í greinargerð með frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar alþingismanns o.fl. um bann við hvalveiðum. Segir stofnunin að í kaflanum „Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar“ komi fram staðhæfingar sem ekki séu í samræmi við núverandi stöðu þekkingar á vistfræðilegum áhrifum hvala.

Verði frumvarpið endurskoðað leggur hún til að kaflanum verði sleppt eða hann endurskrifaður í betra samræmi við stöðu vísindalegrar þekkingar. Hvað varði fullyrðingu í téðum kafla um að hvalir gegni mikilvægu hlutverki í baráttu gegn loftslagsvá, segir að fátt bendi til annars en að hvalir hafi þar hlutfallslega veigalitlu hlutverki að gegna. Mikil óvissa sé um flutning og örlög kolefnis frá hvölum.

Um fullyrðingu um að hvalir framleiði súrefni, segir stofnunin: „Við bendum á að hvalir framleiða ekki súrefni.“

Hvað varðar fullyrðingu um að fjölgun hvala styrki „fiskstofna, stóra og smáa, og loks hvalina sjálfa,“ segja vísindamenn stofnunarinnar erfitt að átta sig á við hvað sé átt, en hvalir og önnur sjávarspendýr éti mikið af fiski á ári hverju. Í nýlegri rannsókn byggðri á stofnstærðum og orkuþörf dýranna hafi verið metið að sjávarspendýr við Ísland og Austur-Grænland ætu 13,4 milljónir tonna af bráð á ári hverju. Óljóst sé hvaða ferlar gætu leitt til þess að fiskistofnar stækki vegna áhrifa hvala umfram það sem þeir éti á ári hverju.