Helga Sigurrós Valgeirsdóttir
Helga Sigurrós Valgeirsdóttir
Mörg fyrirtæki vanmeta þörfina á tryggingum umfram þær lögbundnu og hafa jafnvel ekki verið upplýst um ýmsar viðbótartryggingar sem í boði eru.

Helga Sigurrós Valgeirsdóttir

Sú hreyfing hefur átt sér stað á fjármálamarkaði undanfarin misseri að tryggingafélög og bankar hafa aukið samstarf sitt. Við í Arion erum þar engin undantekning og höfum stóraukið samstarf við dótturfélag bankans, Vörð tryggingar. Það er margt athyglisvert í auknu samstarfi enda eru tryggingar mikilvægur hluti fjármála hvers fyrirtækis og heimilis. Þær eru órjúfanlegur þáttur heilbrigðs og öruggs reksturs fyrirtækja og markvisst samstarf Arion banka og Varðar gerir okkur kleift að leggja enn meira af mörkum til árangurs þeirra fyrirtækja sem við störfum með.

Vörður hefur lagt áherslu á einfalda og þægilega tryggingaþjónustu með ánægju viðskiptavina sinna að leiðarljósi. Það er að mörgu leyti sérstakt fyrir okkur sem komum upphaflega úr „bankahlutanum“ að kynnast tryggingum fyrirtækja enn betur og að vinna með tryggingavöruna; vöru og þjónustu sem ekkert fyrirtæki getur verið án en vill helst aldrei þurfa að fá afhenta þar sem afhendingin fer fram eftir að tjónsviðburður hefur átt sér stað. Það er yfirlýst stefna Varðar að standa við bak fyrirtækja viðskiptavina okkar með virku forvarnarstarfi með það að markmiði að lágmarka tjón, en standa jafnframt þétt við bakið á viðskiptavinum okkar þegar þeir lenda í tjóni.

Þess vegna er mikilvægt við val á tryggingum að forsvarsfólk fyrirtækja átti sig á heildarþörf trygginga í rekstri sínum. Mig langar því sérstaklega að beina athygli að því að mörg fyrirtæki vanmeta þörfina á tryggingum umfram þær lögbundnu og hafa jafnvel ekki verið upplýst um ýmsar viðbótartryggingar sem í boði eru. Margir vita til dæmis ekki að það er hægt að tryggja afkomu fyrirtækis fyrir rekstrarstöðvun. Leigugreiðslur og laun þurfa víst ennþá að greiðast þó að lagerinn hafi verið tæmdur í innbroti eða orðið ónýtur í bruna. Oft hafa tryggingar ekki verið uppfærðar í mörg ár og taka ekki mið af stöðu rekstrar eins og hann er í dag, sem getur annars vegar falið í sér að fyrirtæki séu vantryggð þegar á reynir eða að þau greiði of mikið í tryggingar. Þess vegna ættu öll fyrirtæki að leggja áherslu á að skipta við tryggingafélög sem veita góða ráðgjöf og leggja áherslu á að það sem skiptir máli í rekstrinum sé tryggt. Ekki meira og ekki minna.

Í samstarfi Arion og Varðar hefur fyrirtækjatryggingastofn félagsins farið ört stækkandi. Hann samanstendur af fyrirtækjum af ólíkum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum til öflugra stórra fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri. Við erum stolt af því að í ánægjumælingum mælast fyrirtækjaviðskiptavinir okkar með þeim ánægðari á markaði enda leggjum við kapp okkar og metnað í öfluga ráðgjöf og persónulega þjónustu. Allt sem skiptir máli þarf að vera tryggt.

Höfundur er forstöðumaður fyrirtækjatrygginga hjá Arion.

Höf.: Helga Sigurrós Valgeirsdóttir