Hætta Skortur á frágangi við afreinina hefur sætt harðri gagnrýni.
Hætta Skortur á frágangi við afreinina hefur sætt harðri gagnrýni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ekki stendur til að leggja niður afrein sem liggur frá Reykjanesbraut að Álfabakka. Þetta kemur fram í svörum skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum Morgunblaðsins

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Ekki stendur til að leggja niður afrein sem liggur frá Reykjanesbraut að Álfabakka. Þetta kemur fram í svörum skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum Morgunblaðsins.

Borgin hafði til skoðunar að leggja niður afreinina en samgöngudeild Reykjavíkurborgar þótti það óráðlegt og varð ekkert úr þeim áformum.

Stöðvunarskylda og trén stytt

Þar sem afreinin mætir Álfabakka var komið á biðskyldu eftir að götunni var breytt úr einstefnugötu yfir í tvístefnugötu. Nú hefur verið ákveðið að sett verði þar stöðvunarskylda í staðinn. Enn fremur verður trjárunninn snyrtur og tré lækkuð við afreinina til að bæta sjónlínur bílstjóra sem þar aka.

Í svari frá borginni segir að svæðið sé enn vinnusvæði og sé merkt sem slíkt. Til stendur að það verði málað og merkt með skiltum. Morgunblaðið er fullvissað um að keppst sé við að ljúka við verkið.

Áður hefur verið fjallað um þá hættu sem skapast hefur vegna skorts á frágangi og merkingum á svæðinu. Bæði við afreinina og við hjólastíg sem liggur meðfram Álfabakka.

Kristín Helga Gísladóttir framkvæmdastjóri Garðheima hefur lýst yfir áhyggjum af að skortur á frágangi við afreinina hafi í för með sér hættu fyrir viðskiptavini fyrirtækisins sem staðsett er við götuna.

Kristín sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að betra væri ef afreinin væri staðsett annars staðar. Hún tók þó illa í þá hugmynd borgarinnar að hún yrði lögð niður og lýsti yfir áhyggjum af því að aðkomunni yrði lokað fyrir þá sem kæmu úr suðri.

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir