Gleðistund Verðlaunahafar ársins ásamt norska krónprinsparinu.
Gleðistund Verðlaunahafar ársins ásamt norska krónprinsparinu. — Ljósmynd/Fartein Rudjord fyrir norden.org
Eins og greint var frá í blaðinu í gær hlaut Rán Flygenring Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir myndabókina Eldgos þegar þau voru afhent í Osló í fyrrakvöld

Eins og greint var frá í blaðinu í gær hlaut Rán Flygenring Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir myndabókina Eldgos þegar þau voru afhent í Osló í fyrrakvöld.

Í þakkarræðu sinni sagðist Rán bæði stolt og glöð yfir viðurkenningunni. „Það finnast svo ótrúlega margar stórkostlegar og mikilvægar bækur sem fjalla um erfið málefni og hræðilega hluti sem koma fyrir fólk, börn og dýr. Bókin mín er kannski ekki svoleiðis, því þótt hún fjalli um alvarlega hluti þá inniheldur hún mikinn húmor. Af þeim sökum átti ég ekki von á því að standa hér í kvöld. Ég trúi því að óháð aldri verðum við að hafa rými til að hlæja og dást að því að við búum á jörð sem getur skyndilega opnast og spúð út hrauni og búið til ný fjöll,“ sagði Rán.

Aðrir verðlaunahafar kvöldsins voru sænski höfundurinn Joanna Rubin Dranger sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndasöguna Ihågkom oss till liv, danska kvikmyndin Empire í leikstjórn Frederikke Aspöck sem hreppti Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs og finnska þjóðlagatónlistarkonan og kanteleleikarinn Maija Kauhanen sem hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Þá hlaut verkefnið Renewcell frá Svíþjóð Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.