Stjarna Marilyn Monroe í Some Like It Hot (1959).
Stjarna Marilyn Monroe í Some Like It Hot (1959).
Óhætt er að mæla með heimildaseríunni Reframed: ­Marilyn Monroe sem Karen McGann leikstýrði og CNN framleiddi. Serían, sem telur fjóra þætti, var frumsýnd 2022 þegar 60 ár voru liðin frá því að Monroe lést aðeins 36 ára gömul

Silja Björk Huldudóttir

Óhætt er að mæla með heimildaseríunni Reframed: ­Marilyn Monroe sem Karen McGann leikstýrði og CNN framleiddi. Serían, sem telur fjóra þætti, var frumsýnd 2022 þegar 60 ár voru liðin frá því að Monroe lést aðeins 36 ára gömul. Undirrituð sá hana á DR í sumar en hægt er að nálgast hana á vefnum dailymotion.com.

Monroe lést langt fyrir aldur fram og af þeim sökum hefur oft verið um það talað hversu illa kvikmyndabransinn og ýmsir karlmenn fóru með hana. Í seríunni dregur McGann í viðtölum við m.a. Ellen Burstyn, Joan Collins og Amy Greene-Andrews fram nokkuð aðra hlið á Monroe og beinir sjónum að því hversu sterk og hugrökk hún var. Sem dæmi er rifjað upp að löngu fyrir tíma #metoo eða árið 1953 lýsti hún í greininni Wolves I Have Known“ í Motion Picture and Television Magazine þeim „úlfum“ sem hún hafði kynnst í kvikmyndabransanum.

Á hátindi ferils síns hikaði Monroe ekki við að fara í verkfall til að krefjast hærri launa og hafa meira um feril sinn að segja, enda var hún ekki sátt við þau einhæfu ljóskuhlutverk sem henni buðust. Enginn sem sér myndir hennar getur efast um einstaka leikhæfileika hennar og stórkostlegar kómískar tímasetningar.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir