Öskuhaugar Enginn veit með vissu hvaða úrgangur var urðaður í Gufunesi á árum áður. Á myndinni sjást haugar af heimilissorpi sem urðað var í Álfsnesi.
Öskuhaugar Enginn veit með vissu hvaða úrgangur var urðaður í Gufunesi á árum áður. Á myndinni sjást haugar af heimilissorpi sem urðað var í Álfsnesi. — Morgunblaðið/Friðrik
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Umhverfisstofnun telur að lagning Sundabrautar ofan á Gufuneshaugunum geti leitt af sér margháttuð vandræði, til dæmis vegna óstöðugs undirlags rotnandi úrgangs með gasmyndun.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Umhverfisstofnun telur að lagning Sundabrautar ofan á Gufuneshaugunum geti leitt af sér margháttuð vandræði, til dæmis vegna óstöðugs undirlags rotnandi úrgangs með gasmyndun.

Þetta kemur fram í athugasemdum stofnunarinnar við matsáætlun sem Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, hefur birt vegna fyrirhugaðrar Sundabrautar. Matsáætlunin var kynnt í Skipulagsgáttinni og bárust 109 athugasemdir frá einstaklingum og stofnunum.

Morgunblaðið birti í júní síðastliðnum fréttir af áhyggjum manna af lagningu Sundabrautar í og við gömlu öskuhaugana í Gufunesi. Nú hefur Umhverfisstofnun birt álit sitt og það sýnir ljóslega þann mikla vanda sem glíma þarf við. Ljóst er að þetta verður eitt snúnasta verkefnið varðandi lagningu Sundabrautar.

Margvíslegar hættur

Umhverfisstofnun segir í athugasemdum að urðunarstaðurinn hafi verið aflagður að mestu um 1990 og að fullu árið 2001. Varlega áætlað voru urðaðir um fimm milljón rúmmetrar (m3) af óflokkuðum úrgangi, þ.m.t. spilliefnum, á urðunarstaðnum. Umhverfisstofnun bendir á að haugar sem þessir séu viðkvæmir fyrir hvers konar röskun sem truflar jafnvægi haugsins og getur haft í för með sér ýmiss konar hættur, s.s. gasmengun og mengun grunn- og yfirborðsvatns ásamt sprengihættu.

Þeir valkostir sem lagðir eru fram fela allir í sér einhvers konar röskun á haugnum, hvort sem um er að ræða Sundabraut sjálfa eða tengiveg við Hallsveg. Skipti engu hvort röskunin feli í sér fergingu eða rof á haugnum, hvort tveggja raski jafnvægi hans. Miðað við framlagðar hugmyndir um legu Sundabrautar sér Umhverfisstofnun ekki hvernig framkvæmdaraðilar hafi hugsað sér að komast hjá því að rjúfa hauginn.

Ekki sé fullnægjandi þekking á því hvað var urðað í Gufunesi, annað en að þangað fór allur úrgangur óflokkaður í áratugi. Að mati Umhverfisstofnunar krefst aðgerð eins og bygging Sundabrautar um aflagðan urðunarstað umfangsmikilla rannsókna á áhrifum framkvæmdarinnar og er mikilvægt að þeir aðilar sem komi að slíkum rannsóknum hafi mikla þekkingu og reynslu af slíkum rannsóknum og framkvæmdum. Þá mun öll vinna á svæðinu vera áhættusöm fyrir umhverfið og ekki síður fyrir heilsu þeirra sem þar vinna, íbúa í nærliggjandi hverfum og framkvæmdaraðila. Úrgangurinn fór þangað óflokkaður og því ekki hægt að tryggja að það sem grafið yrði upp og þyrfti að fjarlægja væri ekki spilliefni.

Fari svo að haugnum verði raskað þannig að flytja þurfi úrgang af staðnum, t.d. til hreinsunar eða urðunar, þá hefur enginn urðunarstaður í landinu heimild til móttöku á þessum úrgangi. Þá er enginn staður á landinu með leyfi til hreinsunar á menguðum jarðvegi. Ef eitthvað af þessum úrgangi væri brennanlegt þá er til staðar brennslustöð í landinu en erfitt getur reynst að flokka þennan úrgang til brennslu. Sé ætlunin að rjúfa hauginn er það mat Umhverfisstofnunar að um hreinsunaraðgerð sé að ræða sem er starfsleyfisskyld starfsemi. Að auki gætu allar framkvæmdir og aðgerðir sem fela í sér rask urðunarstaðarins fallið undir lög um umhverfisábyrgð enda mat stofnunarinnar að þá sé um að ræða yfirvofandi hættu á tjóni.

Fram kemur í matsáætlun Vegagerðarinnar, sem unnin er af sérfræðingum Eflu, að áætlað sé að Sundabraut liggi vestan við haugana eða yfir þá á um 800 metra kafla. Jarðgöng undir haugana komi einnig til greina. Gatnamót við Hallsveg verða utan við jaðar sorphauganna og framlenging á Hallsvegi verður í suðurjaðri hans.

Stærsti hluti heimilissorp

Stærstur hluti hauganna er í Gufunesvogi (Knútsvík). Sá úrgangur sem urðaður var á svæðinu var heimilissorp en í dag er áætlað að 30-50% af því séu lífrænn úrgangur. Uppbygging hauganna var með þeim hætti að neðst var komið fyrir rusli frá byggingarsvæðum og fyrirtækjum. Þar ofan á var komið fyrir heimilissorpi í tveimur til þremur lögum sem hvert um sig var um þriggja metra þykkt. Einnig voru spilliefni urðuð í haugunum, m.a. úrgangsolía (olíusori) og efni sem innihéldu PCB og arsenik auk talsverðs magns af asbesti. Síðan var urðað yfir með jarðvegsfyllingu sem er allt að þriggja metra þykk og sáð í yfirborðið.

„Á rekstrar- og framkvæmdatíma getur öryggi vegfarenda og starfsmanna stafað ógn af gasmyndun,
sem og af þeim spilliefnum sem urðuð voru á sínum tíma. Við hönnun Sundabrautar er horft til þess að ekki þurfi að sneiða í haugana,“ segir m.a. í matsáætluninni.