Alda Kristjana Sigmundsdóttir fæddist í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi 16. júní 1933.

Foreldrar hennar voru Þuríður Anna Jóhannesdóttir og Sigmundur Sigurðsson. Systkini Kristjönu eru Alda, f. 1930, d. 1931, Jóhannes, f. 1931, d. 2018, Sigurgeir Óskar, f. 1938, d. 1997, Sigurður, f. 1938, d. 2013 og yngstur er Sverrir, f. 1944.

Kristjana giftist Brynjólfi Geir Pálssyni, f. 1930, d. 2003 frá Dalbæ og bjuggu þau hjón með búskap í Dalbæ 2. Þau eignuðust fimm börn, en þau eru Anna, f. 1952, gift Tryggva Guðmundssyni, Magnús Páll, f. 1956, giftur Rut Sigurðardóttur, Margrét, f. 1958, gift Guðrúnu Sólveigu Pálmadóttur, Bryndís, f. 1965, Sigmundur, f. 1966, giftur Helenu Eiríksdóttur. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin sex.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Þá hefur hún tengdamóðir mín fengið langþráða hvíld.

Eins og hún planlagði þá lifði hún það að halda upp á 90 ára afmælið síðastliðið sumar og svo vildi hún fá að kveðja.

Kidda bjó alla sína ævi í Hrunamannahreppi. Hún var sveitakona í húð og hár. Mikið náttúrubarn og hafði unun af því að umgangast dýr, sérstaklega kindur og hesta. Ung að árum flutti hún að Dalbæ þar sem hún og Brynjólfur Geir tóku við hluta jarðarinnar og hófu búskap. Kidda var alltaf dugleg í bústörfunum en hússtörfin voru ekki í neinu sérstöku uppáhaldi. Hún bakaði samt bestu súkkulaðikökurnar og rúgbrauðið hennar er ógleymanlegt þeim sem það smökkuðu. Einnig var hún mikil handavinnukona, prjónaði og saumaði bæði í höndum og í vél.

Kidda og Bryngeir eignuðust fimm börn og seinna fæddust tíu barnabörn og svo eru sex barnabarnabörn komin í fjölskylduna.

Eftir að Bryngeir veiktist og lést 2003 hætti Kidda öllum búskap nema hún átti lengi vel nokkra hesta. Þótt hún væri hætt að fara á bak hafði hún gaman af þeim og lét temja nokkra þeirra.

Börnunum okkar Simma var Kidda góð og umhyggjusöm amma. Lengi vel var hún með gælunafnið amma íspinni, því iðulega lumaði hún á þannig góðgæti í frystikistunni.

Kidda kom með okkur fjölskyldunni í þó nokkrar sumarbústaðaferðir meðan hún hafði heilsu til. Það var magnað að ferðast með henni um landið, hún þekkti svo víða til. Bæjarnöfn og ábúendur sem og ættir þeirra, þessu gat hún romsað upp nánast hvar sem var á landinu.

Kidda var réttsýn og heiðarleg og þoldi illa undirferli og ágirnd. Hún stóð fast með sínum og hennar heimili var ávallt opið ef einhver þurfti á að halda.

Síðustu árin voru henni erfið, Kidda fékk slæma gigt og parkinsonsjúkdómurinn tók mikinn toll af henni. Hún dvaldi síðustu æviárin á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar fékk hún góða umönnun en hugurinn var samt ávallt heima.

Elsku Kidda, ég þakka fyrir áratugina þrjá sem ég fékk að verða samferða þér í lífinu. Ég veit að þú ert hvíldinni fegin.

Þín

Helena.