Frank-Walter Steinmeier
Frank-Walter Steinmeier
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, baðst í gær afsökunar á þeim glæpum sem Þjóðverjar frömdu gegn íbúum Tansaníu þegar landið var hluti af nýlendum Þýskalands. Steinmeier heimsótti í gær Maji Maji-safnið í borginni Songea, en þar er…

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, baðst í gær afsökunar á þeim glæpum sem Þjóðverjar frömdu gegn íbúum Tansaníu þegar landið var hluti af nýlendum Þýskalands. Steinmeier heimsótti í gær Maji Maji-safnið í borginni Songea, en þar er samnefndrar uppreisnar íbúanna á árunum 1905-1907 gegn yfirráðum Þjóðverja minnst. Áætlað er að á bilinu 200.000-300.000 frumbyggjar Tansaníu hafi verið myrtir í aðgerðum þýska hersins til að kveða niður uppreisnina.

Sagði Steinmeier að Þýskaland væri tilbúið til að vinna með Tansaníu til þess að fara saman yfir hina myrku nýlendufortíð Þjóðverja og gera upp við hana. Þá hét hann því að vekja athygli á þessari fortíð í Þýskalandi.

Þjóðverjar hafa áður viðurkennt glæpi sem þeir frömdu sem nýlenduherrar yfir Namibíu, og hétu þýsk stjórnvöld árið 2021 að greiða afkomendum fórnarlambanna einn milljarð evra í skaðabætur.