70 ára Drífa er fædd á Akranesi og ólst þar upp. Hún lauk ljósmæðraprófi við Ljósmæðraskóla Íslands 1979 og BSc.-prófi í hjúkrunarfræði við HÍ 2005. Hún var ljósmóðir á Akranesi 1979-1994 og eftir það í Vestmannaeyjum

70 ára Drífa er fædd á Akranesi og ólst þar upp. Hún lauk ljósmæðraprófi við Ljósmæðraskóla Íslands 1979 og BSc.-prófi í hjúkrunarfræði við HÍ 2005. Hún var ljósmóðir á Akranesi 1979-1994 og eftir það í Vestmannaeyjum. Hún lauk störfum 1. október sl.

„Ég fór til Eyja að leysa af og hef ekki farið heim síðan. Ég var ein með stelpuna sem var þá 11 ára. Hún undi sér vel og við höfum átt gott líf í Eyjum.“

Drífa dreif sig svo í hjúkrun sem gerði starfið í Eyjum fjölbreyttara en hún hefur mestalla tíð unnið vaktavinnu og verið mikið á bakvöktum. Drífa vann einnig sem hjúkrunarfræðingur á dvalarheimilinu Hraunbúðum.

„Ég tek starfslokunum fagnandi, aðlagaði mig hægt og rólega þar til ég hætti alveg 1. október sl., ég hef þó samið um að vera til taks ef þörf krefur.“

Drífa var formaður Vesturlandsdeildar Ljósmæðrafélags Íslands í nokkur ár frá 1982 og var meðlimur í Oddfellow í Eyjum um nokkurra ára skeið. Hún er meðlimur í kvenfélaginu Líkn í Eyjum og Golfklúbbi Vestmannaeyja. Golfáhuginn hefur vaxið á síðustu árum og hefur Drífa farið í ófáar golfferðir utan með góðum vinum. Önnur áhugamál eru ferðalög, prjónaskapur og að njóta lífsins með vinum og fjölskyldu.

Fjölskylda Dóttir Drífu er Hildur Sólveig Sigurðardóttir, f. 1983, sjúkraþjálfari og bæjarfulltrúi í Eyjum. Maður hennar er Sindri Ólafsson og börn þeirra eru Aron, Sara Rós og Drífa. Foreldrar Drífu: Guðrún Daníelsdóttir, f. 1930, d. 2022, sjúkraliði á Akranesi, og Björn Halldórs Björnsson, f. 1932, fv. lögregluþjónn á Akranesi, nú búsettur í Reykjavík.