Landamærin Hópur fólks með erlent ríkisfang sést hér fara í gegnum Rafah-landamærastöðina og til Egyptalands.
Landamærin Hópur fólks með erlent ríkisfang sést hér fara í gegnum Rafah-landamærastöðina og til Egyptalands. — AFP/Mohammed Abed
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Stjórnvöld í Egyptalandi opnuðu í gær landamæri sín að Gasasvæðinu til þess að taka á móti særðu fólki og erlendum ríkisborgurum. Voru um 500 erlendir ríkisborgarar við landamærin í gær, og náðu 335 þeirra að fara yfir landamærin í gær samkvæmt egypskum stjórnvöldum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Egyptalandi opnuðu í gær landamæri sín að Gasasvæðinu til þess að taka á móti særðu fólki og erlendum ríkisborgurum. Voru um 500 erlendir ríkisborgarar við landamærin í gær, og náðu 335 þeirra að fara yfir landamærin í gær samkvæmt egypskum stjórnvöldum.

Þá voru um 40 sjúkrabílar sendir yfir landamærin með fólk sem særst hefur í átökunum, sem nú hafa staðið yfir í rúmar þrjár vikur. Tókst að flytja 76 særða yfir landamærin í gær. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, fagnaði því í gær að brottflutningur særðra og sjúkra af Gasasvæðinu væri nú hafinn.

Sagði Ghebreyesus að WHO hefði verið í sambandi við heilbrigðisyfirvöld í Egyptalandi til að tryggja að þau hefðu nægan stuðning til að taka á móti fólkinu, og kallaði um leið eftir því að meiri sjúkragögn yrðu send til Gasasvæðisins, þar sem enn væru þar sjúklingar í ástandi sem leyfði ekki að þeir væru fluttir á brott.

Brottflutningur hinna erlendu ríkisborgara er unninn í samvinnu egypskra og ísraelskra stjórnvalda, sem þurfa bæði að samþykkja hverjir megi yfirgefa svæðið, en stjórnvöld í öðrum ríkjum eru einnig látin vita fyrir fram ef ríkisborgarar þeirra eru á listanum.

Breska utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gær og sagði að vegna þessa fyrirkomulags gæti það tekið nokkra daga að bjarga öllum breskum þegnum frá Gasasvæðinu og að þeir myndu allir fá viðeigandi aðstoð þegar þeir kæmu yfir landamærin.

Segja sjö gísla látna

Áætlað er að minnst 47 manns hafi fallið í árás Ísraelshers á Jabalía-flóttamannahverfið í Gasaborg í fyrradag, en heilbrigðisráðuneyti Gasasvæðisins, sem stjórnað er af hryðjuverkasamtökunum Hamas, sagði í gær að sjö af gíslum samtakanna væru á meðal hinna föllnu. Þar af voru þrír þeirra sagðir erlendir ríkisborgarar, en ekki var hægt að staðfesta það.

Árás Ísraelsmanna beindist að stjórnstöð Hamas-samtakanna, sem falin var í undirgöngum undir flóttamannahverfinu, auk þess sem Ibrahim Biari, einn af skipuleggjendum hryðjuverkanna 7. október, var felldur í árásinni. Sagði Ísraelsher í fyrrakvöld að fjöldi hryðjuverkamanna hefði fallið með honum, en gaf upp engar tölur um mannfall.

Árásin hefur kallað fram hörð viðbrögð í Arabaheiminum og víðar, og fordæmdu stjórnvöld í Sádí-Arabíu og Katar árásina harðlega í gær. Þá ákváðu stjórnvöld í Kólumbíu og Chile að kalla sendiherra sína heim frá Ísrael til skrafs og ráðagerða vegna aðgerða Ísraelsmanna á Gasasvæðinu.

Stjórnvöld í Bólivíu gengu skrefinu lengra og tilkynntu í gær að þau myndu slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Er það ekki í fyrsta sinn sem Bólivíumenn slíta sambandi sínu við Ísraelsríki, en Evo Morales, þáverandi forseti Bólivíu, sleit því árið 2009, einnig vegna aðgerða Ísraelshers á Gasasvæðinu. Var sambandið fyrst tekið upp að nýju árið 2020.

Suðuramerísku ríkin þrjú kölluðu svo öll eftir því að Ísraelsmenn létu af aðgerðum sínum þegar í stað, en utanríkisráðuneyti Ísraels sagði að ákvörðun Bólivíumanna um að kalla sendiherrann heim væri „uppgjöf fyrir hryðjuverkamönnum“.

Sendu herskip til Rauðahafs

Ísraelski flotinn hefur sent minnst tvær korvettur til Rauðahafsins í kjölfar þess að Hútar í Jemen, sem studdir eru af Írönum, lýstu yfir stríði á hendur Ísrael og skutu eldflaug að borg í Ísrael. Beitti Ísraelsher Arrow-eldflaugavarnarkerfi sínu í fyrsta sinn gegn langdrægri eldflaug til þess að bægja árásinni frá.

Hútar lýstu því yfir í fyrradag að þeir hefðu gert þrjár dróna- og eldflaugaárásir á Ísrael frá því 7. október, og hétu því að fleiri slíkar árásir yrðu gerðar til þess að „hjálpa Palestínumönnum að sigra“.

Vill „friðarráðstefnu“ múslima

Hakan Fidan utanríkisráðherra Tyrklands fundaði í gær með Hossein Amir-Abdollahian utanríkisráðherra Írans í Ankara í gær vegna ástandsins á Gasasvæðinu. Sagði Fidan við blaðamenn eftir fundinn að Tyrkir vildu tafarlaust vopnahlé, þar sem það væri fyrirsjáanlegt að „hringiða ofbeldisins myndi vaxa“ ef ekki fengist varanleg lausn.

Amir-Abdollahian sagði að ríki Araba og múslima ættu að halda „friðarráðstefnu“ svo fljótt sem auðið væri, á sama tíma og hann skoraði á þau ríki að skera á öll tengsl sín við Ísrael og sniðganga ísraelskar vörur. Hótaði hann því jafnframt að ef ekki yrði boðað til tafarlauss vopnahlés mætti eiga von á „harkalegum“ afleiðingum fyrir Bandaríkin og Ísrael.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson