Ferskur Rýnir segir ljóst að Víkingur Heiðar Ólafsson þekki Goldberg-tilbrigðin eins og lófann á sér. „Það heyrist berlega á nýju Deutsche Grammophon-plötunni, en þar tekst honum eftir sem áður að láta Goldberg-tilbrigðin hljóma eins og maður sé að heyra þau í fyrsta skipti.“
Ferskur Rýnir segir ljóst að Víkingur Heiðar Ólafsson þekki Goldberg-tilbrigðin eins og lófann á sér. „Það heyrist berlega á nýju Deutsche Grammophon-plötunni, en þar tekst honum eftir sem áður að láta Goldberg-tilbrigðin hljóma eins og maður sé að heyra þau í fyrsta skipti.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einleiksverk Goldberg-tilbrigðin ★★★★★ Verk eftir Johann Sebastian Bach. Víkingur Heiðar Ólafsson (einleikari á píanó). Deutsche Grammophon (DG) – 4864553, árið 2023. Heildartími: 74 mín.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Goldberg-tilbrigðin er sjötta einleiksplatan sem Víkingur Heiðar Ólafsson hljóðritar fyrir þýska útgáfurisann Deutsche Grammophon. Fyrri plötur hans hafa allar hlotið mikið lof en hér ræðst Víkingur ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hljóðritanir af tilbrigðunum skipta að minnsta kosti tugum (ef ekki hundruðum) en sjálfur hefur Víkingur lýst verkinu í viðtali við Morgunblaðið sem nokkurs konar bréfi til framtíðarinnar. Það var samið árið 1741, þegar Johann Sebastian Bach (1685-1750) var 56 ára gamall og er tileinkað eða kennt við Johann Gottlieb Goldberg (1727-1756), ungan nemanda Bachs. Um er að ræða alls 30 tilbrigði með aríu sem er leikin á undan og á eftir flutningi tilbrigðanna.

Ég nefndi að Goldberg-tilbrigðin hefðu verið hljóðrituð ótal sinnum, enda nokkurs konar prófsteinn píanistans. Þekktastar eru kannski tvær hljóðritanir sem kanadíski píanistinn Glenn Gould gerði í upphafi og lok ferils síns, það er að segja 1955 og 1981. Sjálfur ólst ég einkum upp við tvær hljóðritanir: Gould frá 1981 og Rosalyn Tureck frá 1958.

Víkingur fer rólega af stað, það er að segja hann leikur aríuna (með endurtekningum) í fremur afslöppuðu tempói. Svo taka við tilbrigði 1 til 14, öll í G-dúr, sem Víkingur leikur af miklu listfengi, flest í mjög hröðu tempói (til dæmis 1. og 5. tilbrigðið) en aldrei þannig að þau hljómi eitthvað annað en fullkomlega eðlilega. Legatóið í 3. tilbrigðinu er eftirminnilegt og jafnvægið milli radda (hægri og vinstri hendi) er fullkomið.

Tæknilega er leikur Víkings óaðfinnanlegur en túlkunin er aldrei vélræn, eins og stundum vill brenna við í Bach. Kemur þar til einstaklega góð stjórn á rubato (þar sem Víkingur ýmist hægir á eða hraðar á) en notkunin á hraðabreytingum er alltaf nærgætin og hljómar aldrei tilgerðarlega (eins og til að mynda stundum hjá Gould). Tónninn er líka fíngerður, en þó með sterk karaktereinkenni, og það er unun að heyra hversu veikt Víkingur getur leikið, þó þannig að tónninn er ávallt syngjandi. Hann hefur líka einstakt lag á að stjórna styrkleika og hraðabreytingum á sama tíma; hægir stundum á og leikur diminuendo á sama tíma (til að mynda áberandi í 15. tilbrigðinu).

Tilbrigði númer 15 (Canone alla Quinta) er það fyrsta af þremur sem hljóma í g-moll (hin eru númer 21 og 25). Tempóið hjá Víkingi er afslappað, en þó aldrei á kostnað heildarinnar. Það er einmitt eins og Víkingur litist um í raddskránni með því að hægja á hér og þar en taka svo aftur upp tempóið; meðal annarra orða – Víkingur andar með tónlistinni. Af ótal upptökum sem ég hef hlustað á man ég í svipinn ekki eftir fágaðri túlkun á 15. tilbrigðinu, sem myndar nokkurs konar forleik að seinni helmingi Goldberg-tilbrigðanna.

Ef frá eru talin g-moll-tilbrigðin númer 21 og 25 er seinni helmingurinn í nokkuð gangandi tempói. Aftur nær Víkingur upp mikilli stemningu, hvort sem það er í ljóðrænni krómatík 25. tilbrigðisins (sem er jafnframt lengsta tilbrigðið) eða á leifturhraða í því 26. og 28. Allt fellur svo í ljúfa löð aftur þegar arían er endurtekin (da capo) í blálokin (hér leikin án endurtekninga). Það er eitthvað himneskt við túlkun Víkings, ljóðræn en í senn gangandi.

Það eru uppi býsna ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að túlka verk Bachs nú á dögum. Goldberg-tilbrigðin eru til að mynda samin fyrir sembal en eru nú langoftast leikin á píanó. Ég nefndi áðan að túlkun Víkings væri aldrei vélræn en með því að leika verk Bachs án allra hraðabreytinga (rubato) geta þau einmitt hljómað þannig. Vissulega heyrast slíkar túlkanir við og við í dag en þær segja manni í raun lítið – í slíkri túlkun býr engin „frásögn“. Það er hins vegar einmitt það sem einkennir túlkun Víkings; hann er að segja okkur nokkurs konar „sögu“, það er að segja draga upp eins konar „mynd“. Sú mynd er einmitt afar sannfærandi; verkið myndar heild sem einkennist af útskotum hér og þar eða einhvers konar krókum og kimum sem Víkingur rannsakar gaumgæfilega – aldrei þó á kostnað heildarinnar. Þá er hljóðið á upptökunni ljómandi gott og mjög skýrt; þannig má segja að hver einasta nóta heyrist vel.

Í viðtali við Morgunblaðið víkur Víkingur að því sem fram undan er hjá sér, hugsanlega fantasíuplata tileinkuð tónskáldum á borð við Beethoven, Schubert, Chopin, Brahms eða Schumann. Ef ég ætti að óska mér einhvers væri það auðvitað Veltempraða hljómborðið (Das Wohltemperierte Klavier) eftir Bach (báðar bækurnar) en svo líka konsertar á borð við 20 og 24 eftir Mozart og svo 3. og 4. píanókonsert Beethovens.

Víkingur er hugsandi píanisti. Það er gaman að lesa það sem hann hefur sjálfur fram að færa um verkin sem hann túlkar hverju sinni og greinilegt að túlkun hans hvílir á breiðum þekkingargrunni. Það verður gaman að heyra hann leika Goldberg-tilbrigðin í Hörpu í febrúar næstkomandi en verkið hefur nú fylgt honum í áratugi og ljóst að Víkingur þekkir það eins og lófann á sér. Það heyrist berlega á nýju Deutsche Grammophon-plötunni, en þar tekst honum eftir sem áður að láta Goldberg-tilbrigðin hljóma eins og maður sé að heyra þau í fyrsta skipti. Það er býsna fáum gefið að leika slíkt eftir.