Jónína G. Ragnhildur Ívarsdóttir fæddist 3. júní 1944. Hún lést 1. október 2023.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Haust árið 1972. Átján ára menntaskólastelpa vill vinna með skólanum til að afla sér smá vasapeninga. Hún röltir út í Verslun Halla Þórs í Árbæjarhverfi og falast eftir vinnu í sjoppunni á kvöldin og um helgar. Erindinu er vel tekið, það vantar einmitt starfskraft í sjoppuna og henni er sagt að mæta næsta dag kl. 18. Sem hún og gerir. Þar hittir hún fyrir fallega, dökkhærða konu með örlítið skásett augu sem gera hana eilítið framandi í augum menntaskólastelpunnar. Konan er ákveðin, snör í snúningum og veit greinilega alveg hvað hún er að gera. Þetta er Didda. Og þarna hefst rúmlega hálfrar aldar vinátta sem aldrei bar skugga á.

Þegar leiðir okkar Diddu lágu saman þarna í sjoppunni í Halla Þór var ég átján ára en Didda tíu árum eldri, þriggja barna móðir. Þrátt fyrir aldursmuninn og gjörólíkar aðstæður smullum við saman. Við unnum vel saman, stundum sagði Didda að ég væri eins og hægri höndin á henni. Það var gaman hjá okkur, brandararnir flugu og við hlógum mikið. Við þekktum marga fastagestanna og ef við vissum ekki hvað þeir hétu gáfum við þeim nöfn okkar á milli. Á þessum tíma bjó Didda í Hraunbænum og ég varð fljótlega fastagestur heima hjá henni. Síðan flutti hún í Rjúpufellið þar sem hún bjó til dauðadags, oft lá leið mín þangað þó lengra væri að fara.

Þær voru margar stundirnar sem við Didda sátum yfir kaffibolla í eldhúsinu í Rjúpufellinu, spáðum í spilin og bollana og töluðum um allt milli himins og jarðar. Síminn var líka óspart notaður þess á milli. Ef eitthvað lá okkur á hjarta var slegið á þráðinn. Traustið var algjört á báða bóga, við vissum báðar að það sem við sögðum færi ekki lengra, það þurfti ekki að taka fram hvað var einungis ætlað okkar eyrum. Stöku sinnum sögðum við þó

„þú setur þetta á bak við eyrað“ ef eitthvað sérstaklega viðkvæmt var til umræðu. Það er algjörlega ómetanlegt að eiga slíkan trúnaðarvin og verður seint fullþakkað.

Didda var einstaklega trygglynd og góður vinur vina sinna. Hún taldi aldrei eftir sér að rétta hjálparhönd ef einhver þurfti á því að halda. Hún var hörkudugleg, handfljót og hana munaði ekkert um að galdra fram veislu á svipstundu. Hláturmild og skemmtileg, með mjög ákveðnar skoðanir á pólitík. Hún elskaði dýr eins og allir kettirnir hennar geta borið vitni um, þeir elskuðu hana líka og gættu hennar eftir að hún veiktist. Hún elskaði líka börn og henni var annt um gamalt fólk. Það að elska dýr, börn og gamalt fólk sýnir innri mann hverrar manneskju, þeir sem það gera eru gott fólk með hlýtt hjartalag.

Síðustu ár voru henni Diddu erfið. Það hlýtur að hafa verið erfitt að búa við þær hömlur sem á hana voru lagðar, þessa duglegu og drífandi konu sem var vön að ganga hiklaust í það sem gera þurfti og ljúka því með glans. En hún naut ástar og umhyggju Sigurðar og Guðrúnar Pálmeyjar sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að annast hana sem best, voru vakin og sofin yfir velferð og vellíðan hennar.

Elsku Didda mín, ég veit að þú átt góða heimkomu í sumarlandið, laus við allar hömlur sem hafa heft þig síðustu árin. Nú geturðu aftur tekið til hendinni. Ástvinum Diddu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Takk fyrir allt, elsku Didda mín.

Kristíana Baldursdóttir.