Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ugla gefur út 66 titla á árinu, þar af 24 glæpasögur, fjórar ljúflestrarbækur og 13 þýddar barnabækur. Fyrir jólin eru fyrirferðarmestar bækur um Depil og Múmínálfana ásamt þýddum fagurbókmenntum, ævisögum og fræðibókum

Ugla gefur út 66 titla á árinu, þar af 24 glæpasögur, fjórar ljúflestrarbækur og 13 þýddar barnabækur. Fyrir jólin eru fyrirferðarmestar bækur um Depil og Múmínálfana ásamt þýddum fagurbókmenntum, ævisögum og fræðibókum.

Af fagurbókmenntunum má til dæmis nefna tvær bækur eftir franska Nóbelsverðlaunahöfundinn Annie Ernaux, Unga manninn í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur og Konu í þýðingu Þórhildar Ólafsdóttur. Þá gefur Ugla út Borgirnar ósýnilegu eftir Italo Calvino í þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur og Hlébarða í kjallaranum eftir Amos Oz í þýðingu Árna Óskarssonar. Árni þýðir einnig verk skoska rithöfundarins Muriel Spark, Blómaskeið ungfrú Jean Brodie. Þá má nefna Lokasuðuna eftir sænska stílsnillinginn Torgny Lindgren í þýðingu Heimis Pálssonar.

Ugla gefur út sex ævisögur. Lífssögu Didda Frissa, um ótrúlega ævi Sigurðar Friðrikssonar, eftir Ásmund Friðriksson, Séra Friðrik og drengina hans, sögu æskulýðsleiðtoga, eftir Guðmund Magnússon, Morðin í Dillonshúsi, örlagasögu mæðgnanna Sigríðar Ögmundsdóttur og Huldu Karenar Larsen, eftir Sigríði Dúu Goldsworthy, Svein Benediktsson, ævisögu brautryðjanda og athafnamanns, eftir Steinar J. Lúðvíksson, Born To Run, sjálfsævisögu Bruce Springsteen, í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, auk endurskoðaðrar útgáfu á bók Garðars Sverrissonar, Yfir farinn veg með Bobby Fischer.

Af fræðibókum og bókum almenns efnis má nefna Kúbudeiluna eftir Max Hastings, í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, Jökulsævintýrið eftir Jakob F. Ásgeirsson, en þar segir í máli og myndum frá frækilegri björgun Loftleiðamanna á bandarískri skíðaflugvél úr iðrum Vatnajökuls árið 1951, víðfræga bók þýska eðlisfræðingsins Sabine Hossenfelder, Rammvillt í reikningskúnstum, í þýðingu Baldurs Arnarsonar og Gunnlaugs Björnssonar, og Hamfarir á heimskautaslóðum eftir Norðmanninn Odd Harald Hauge, í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Enn fremur má nefna tvær nýjar þýðingar á bókum Þjóðverjans Eckharts Tolle, Kraftinn í núinu, í þýðingu Helga Ingólfssonar, og Nýja jörð, í þýðingu Sigurðar Skúlasonar.
ragnheidurb@mbl.is