Ráðstefna Ásta K. Sigurjónsdóttir, Rósbjörg Jónsdóttir, Alexandra Leeper frá Sjávarklasanum og Þórdís Alda Þórðardóttir frá Fjártækniklasanum.
Ráðstefna Ásta K. Sigurjónsdóttir, Rósbjörg Jónsdóttir, Alexandra Leeper frá Sjávarklasanum og Þórdís Alda Þórðardóttir frá Fjártækniklasanum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Klasar eru hreyfiafl nýsköpunar og geta hraðað verulega breytingum þvert á atvinnugreinar.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Klasar eru hreyfiafl nýsköpunar og geta hraðað verulega breytingum þvert á atvinnugreinar.

Þetta segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.

„Í grunninn efla klasar samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Þau fyrirtæki sem taka þátt í klasastarfsemi eru nánast undantekningarlaust samfélagslega ábyrg og hugsa um heildina, ekki bara um eigin hag,“ bætir Ásta við.

Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska orkuklasans, segir að það skipti höfuðmáli í klasasamstarfi að það ríki samkeppni meðal aðildarfélaga.

„Í klasastarfsemi leggja allir sitt lóð á vogarskálarnar til þess að flýta fyrir heildarávinningi greinarinnar og leitað er að lausnum sem greinin og samfélagið nýtur góðs af,“ segir Rósbjörg.

Alþjóðleg ráðstefna hér á landi

Dagana 7.-9. nóvember mun fara fram alþjóðleg klasaráðstefna hér á landi á Hilton Reykjavík sem ber heitið New Landscapes in the Cluster Development. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi en í 26. sinn sem hún fer fram.

Eigandi ráðstefnunnar er alþjóðlegu klasasamtökin TCI (The Competitiveness Institute). Ásta Kristín sem jafnframt situr í stjórn TCI leiðir framkvæmd ráðstefnunnar fyrir hönd gestgjafanna sem auk Íslenska ferðaklasans eru Orkuklasinn, Sjávarklasinn og Fjártækniklasinn í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. En auk ráðuneytisins koma fjölmargir samstarfsaðilar að verkefninu.

Ásta og Rósbjörg segja að það hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf að ráðstefnan sé haldin hér á landi í ár.

„Við viljum að heimurinn geti lært af því hvernig við gerum hlutina hér á Íslandi en meginþemu ráðstefnunnar tengjast öll styrkleikum íslensks atvinnulífs en þau eru orka, tækni og hugvit, bláa hagkerfið og ferðaþjónustan. Við teljum okkur vera með gott hlaðborð af tækifærum hér á landi,“ segir Ásta.

Rósbjörg bætir við að þverfagleg nálgun leiki lykilhlutverk þegar kemur að klasasamstarfi og að langtímahugsunin sé mikilvæg.

„Hugmyndafræðin með klösum byggist á því að enginn sé eyland og að fyrirtæki ættu að vinna saman því það er enginn sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Rósbjörg.

Minni opinber stuðningur hér

Fyrirlesararnir sem tala á ráðstefnunni koma frá sex heimsálfum og munu kynna sér aðstæður Íslands og annarra þjóða á sviði klasastjórnunar og framþróunar vistkerfa fyrirtækja og stofnana og á sama tíma deila reynslu sinni og þekkingu.

Á ráðstefnunni munu meðal annars halda erindi þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska Sjávarklasans, og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, ásamt fleirum.

Ásta segir að á ráðstefnunni muni fulltrúar ríkja hvaðanæva úr heiminum bera saman bækur sínar og læra hver af öðrum.

„Við munum jafnframt fá til okkar fulltrúa stjórnvalda frá Kanada, Washington ríki, Ungverjalandi, Kólumbíu og Ástralíu. En þau lönd hafa sett klasastarfsemi í forgrunn og í þeim löndum er mun meira um opinberan stuðning en hér á landi,“ segir Ásta.

Rósbjörg tekur undir og segir að umræddar þjóðir nýti vettvang á borð við klasa með markvissum hætti.

„Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar gestgjafanna þegar ég segi að það eru mikilvæg skilaboð fyrir íslenskt atvinnulíf að stjórnvöld taki virkari þátt og horfi til þeirra mikilvægu tækifæra sem drifkraftar klasa endurspegla. Verkfæri klasanna ýta undir aukna verðmætasköpun og nýsköpun ásamt því að flýta fyrir framþróun,“ segir Rósbjörg.

Ásta segir að á árinu 2021 hafi Alþingi samþykkt Klasastefnu fyrir Ísland sem feli í sér mikilvæg skilaboð og tækifæri til frekari þróunar auk þess að leggja skýrari línur um hlutverk stjórnvalda.

„Mikilvægt er að fylgja þessari stefnu fast eftir með markvissum aðgerðum og teljum við að þessi ráðstefna og samstarf ráðuneytisins í því sé stór liður í þeirri vegferð. Á ráðstefnunni munum við líka heyra ótal leiðir sem stjórnvöld innan mismunandi landa hafa farið og getum dregið ákveðinn lærdóm af því,“ segir Ásta að lokum.