Norðurlönd Katrín Jakobsdóttir á fundi Norðurlandaráðs í Osló í gær ásamt norrænum forsætisráðherrum og leiðtogum.
Norðurlönd Katrín Jakobsdóttir á fundi Norðurlandaráðs í Osló í gær ásamt norrænum forsætisráðherrum og leiðtogum. — Ljósmynd/norden.org
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í gær þátt í leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Osló. Þar stýrði hún fundi forsætisráðherranna sem haldinn var í tengslum við fundinn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í gær þátt í leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Osló. Þar stýrði hún fundi forsætisráðherranna sem haldinn var í tengslum við fundinn.

Í vikunni fer fram árlegt þing Norðurlandaráðs, þar sem áhersla er lögð á alvarlega stöðu í heimsmálunum, hvernig hraða megi framtíðarsýn fyrir árið 2023 og þá einkum hvað varðar græna umbreytingu og aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggismála. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO er heiðursgestur þingsins og ávarpaði það í fyrradag.

Á fundi forsætisráðherranna var fjallað meðal annars um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og stríðið í Úkraínu. Ráðherrarnir ræddu einnig loftslagsmál og framtíðarsýn Norðurlanda fyrir 2030, sem felur í sér að Norðurlönd eigi að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Að auki voru tekin fyrir mál er varða gervigreind og áhrif tækninnar á lýðræði.

Í ávarpi sínu á leiðtogafundinum sagði Katrín meðal annars: „Norrænu forsætisráðherrarnir ákváðu í morgun að efla norrænt samstarf til þess að vakta og skilja betur með hvaða hætti gervigreind getur grafið undan lýðræði á Norðurlöndum. Gervigreindin mun nefnilega hafa áhrif á alla geira samfélagsins og tæknin þróast miklum mun hraðar en hin pólitíska umræða og stefnumótun. Við þurfum að bregðast við strax því lýðræði er í eðli sínu viðkvæmt, að því þarf stöðugt að hlúa en það þarf einnig að vernda.“

Katrín flutti einnig ávarp á lokaráðstefnu norræns verkefnis um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Á ráðstefnunni var rætt um rannsóknir og leiðir til að uppræta og koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Forsætisráðherra tók einnig þátt í vinnufundi ásamt forsætisráðherrum hinna EES-ríkjanna, Noregs og Liechtenstein. Þar var rætt um málefni EES, þar á meðal 30 ára afmæli EES-samningsins.