Einfaldleikinn allsráðandi Phoebe Philo vill að fólk kaupi fáar en vandaðar flíkur.
Einfaldleikinn allsráðandi Phoebe Philo vill að fólk kaupi fáar en vandaðar flíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er líklega enginn með svarið við því hvernig hægt er að framleiða og halda tískufyrirtækjum gangandi en biðja neytendur á sama tíma um að kaupa minna. Það er hinsvegar líklegra að fólk geti dregið úr innkaupum ef það kaupir færri og vandaðri flíkur

Marta María Winkel Jónasdóttir

mm@mbl.is

Það er líklega enginn með svarið við því hvernig hægt er að framleiða og halda tískufyrirtækjum gangandi en biðja neytendur á sama tíma um að kaupa minna. Það er hinsvegar líklegra að fólk geti dregið úr innkaupum ef það kaupir færri og vandaðri flíkur. Til þess að það geti gengið þarf fólk að vera meðvitað hvaða stefnu það ætlar að taka í fatamálum sínum. Það þarf að setja sér markmið og búa markvisst til fataskáp sem hentar lífsstíl þess. Það þarf líka að hætta að kaupa föt sér til huggunar þegar lífið fer um það ómjúkum höndum.

Frá því Philo hóf feril sinn árið 1997 hjá tískuhúsinu Chloé hefur hún verið með einkennandi stíl. Hún hefur alltaf fílað einfaldleika og elegans sem er á sama tíma alveg laus við glansefni og glitur. Til að byrja með var hún aðstoðarhönnuður Stellu McCartney, sem rekur í dag sitt eigið tískuhús, enda hoppa fáir fullskapaðir inn í áhrifastöður þrátt fyrir að vera með gáfur (og smekk) yfir meðallagi.

Árið 2006 hætti Philo hjá Chloé. Hún hafði eignast barn og vildi eignast fleiri en hennar annað barn kom í heiminn 2009. Hún vildi flytja aftur til Lundúna og sagði í viðtali við The Guardian á sínum tíma að hún ætlaði að stofna sitt eigið fatamerki. Það gerðist þó ekki á þessum tímapunkti því 2008 réð hún sig til tískuhússins Céline. Hinn ofureinfaldi og látlausi stíll Philo heillaði heimsbyggðina og Céline varð eitt af aðaltískumerkjunum. Á tímabili var til dæmis enginn fullgildur meðlimur í spariskóafélaginu nema eiga sólgleraugu frá Céline og helst tösku líka. Fyrir sex árum hætti Philo hjá Céline og einhvern veginn vissi tískuelítan að nú væri hún með eitthvað í bígerð. Það reyndist rétt.

Í vikunni varð ljóst að Philo hefur ekki setið heima hjá sér og látið sér leiðast síðan hún hætti hjá Céline því hún frumsýndi nýja tískulínu undir eigin nafni. Það vekur athygli að hún réð ekki frægustu fyrirsætur heims til að sýna nýjustu afurðir sínar og það var engin Anna Wintour á fremst bekk með fýlusvip og svört sólgleraugu að dæma lifendur og dauða. Nei, hún frumsýndi línuna á hljóðlegan hátt á vef sínum phoebephilo.com. Þrátt fyrir þessa hljóðlátu opnun tókst Philo ekki að leyna því að hún væri komin með nýtt verkefni.

Eftir að línan var kynnt hefur hún neitað fjölmiðlum heimsins um viðtöl. Hún stofnaði líka Instagram-reikning en hefur ekki birt eina einustu mynd þrátt fyrir að vera nú þegar með 362 þúsund fylgjendur. Það er því ekki auðvelt að spá um næstu skref. Það eina sem vitað er er að flíkurnar í línunni eru eigulegar á margan hátt þótt það sé ljóst að ekki langi allan heiminn í silkikjól með standkraga sem nær niður að mjöðmum vinstra megin en niður í gólf hægra megin.

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir