Hjónin Steini og Gunnhildur stödd við Fjallsárlón við rætur Vatnajökuls í fyrra.
Hjónin Steini og Gunnhildur stödd við Fjallsárlón við rætur Vatnajökuls í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steini Þorvaldsson fæddist 2. nóvember 1948 á Akranesi og ólst þar upp fyrstu árin og gekk í tímakennslu þar sex ára og Barnaskóla Akranes fyrstu þrjá bekkina. „Þegar ég er níu ára gamall flyst ég á fæðingarjörð föður míns að Narfastöðum í Melasveit í Borgarfirði

Steini Þorvaldsson fæddist 2. nóvember 1948 á Akranesi og ólst þar upp fyrstu árin og gekk í tímakennslu þar sex ára og Barnaskóla Akranes fyrstu þrjá bekkina.

„Þegar ég er níu ára gamall flyst ég á fæðingarjörð föður míns að Narfastöðum í Melasveit í Borgarfirði. Þar gekk ég í farskóla þar sem kenndar voru tvær vikur okkar megin í sveitinni en svo var heimalærdómur í tvær vikur meðan kennt var í hinum enda sveitarinnar. Síðan fer ég í 1. bekk Gagnfræðaskóla Akraness og fermist þar vorið 1962.“

Vorið 1962 brugðu foreldrar Steina búi, fluttust suður og bjuggu lengst af í Kópavogi. Steini fór í Gagnfræðaskóla Kópavogs og lauk þaðan miðskólaprófi. Áratugum síðar fór hann í Iðnskólann á Selfossi og síðan í Fjölbrautaskóla Suðurlands og í framhaldi af því í Samvinnuháskólann og lauk þar fyrst námi í frumgreinadeild og síðar námi í rekstrarfræði.

Lengst af starfsferlinum starfaði Steini við verslunarstörf á Selfossi, síðustu árin þar sem verslunar- og innkaupastjóri hjá Bifreiðasmiðjum KÁ. Eftir rekstrarfræðinámið starfaði hann við kennslu á Eiðum í Eiðaþinghá, og sem fjármálastjóri á Laugum í Reykjadal þar til hann réðst sem kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Langnesinga á Þórshöfn. Þar starfaði hann í fjögur ár sem kaupfélagsstjóri og síðar framkvæmdastjóri.

Árið 1998 flutti Steini aftur í Kópavog og starfaði fyrstu árin sem verslunarstjóri hjá bílaumboðinu Jöfri en eftir gjaldþrot þess var hann ráðinn fjármálastjóri Menntaskólans í Kópavogi þar sem hann starfaði fram að starfslokum rúmlega sjötugur.

„Á ferlinum hef ég komið talsvert að félagsmálum, m.a. sem formaður Verslunarmannafélags Árnessýslu, og hjá Breiðabliki sem stjórnarmaður og formaður í knattspyrnudeild og síðar í aðalstjórn í nokkur ár. Í dag er ég heiðursfélagi í Breiðabliki. Ég er félagi í Samfylkingunni og sat fyrir hennar hönd í barnaverndarnefnd Kópavogs í nokkur ár og sit nú í hafnarstjórn Kópavogs. Ég hef verið félagi í Oddfellowreglunni í allmörg ár og gegnt þar trúnaðarstörfum.

Þá var ég einn af stofnfélögum Þroskahjálpar á Suðurlandi og var þar í stjórn í nokkur ár sem gjaldkeri og síðar varaformaður. Vegna starfa minna fyrir Þroskahjálp var ég skipaður formaður stjórnar um málefni fatlaðra og gegndi því þar til málaflokkurinn var færður til sveitarfélaganna.“

Aðaláhugamál Steina eru ferðalög, innanlands sem utan. „Þar ber hæst hálendið með öllum sínum töfrum. Einnig er ég áhugamaður um fótbolta og fylgist með Breiðabliki, Manchester United og landsliðum okkar. Þá spila ég bridge tvisvar í viku með eldri borgurum í Gullsmára.“

Fjölskylda

Eiginkona Steina er Gunnhildur Sveinsdóttir, f. 27.8. 1958, grunnskólakennari. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar Gunnhildar voru hjónin Sveinn Sveinsson, f. 14.6. 1917, d. 3.9. 1986, múrarameistari, og Margrét Lilja Eggertsdóttir, f. 12.8. 1920, d. 14.7. 2003, húsmóðir.

Börn Steina með fyrrverandi eiginkonu, Sigríði Ólafsdóttur, f. 25.5. 1948, fv. bókara, eru: 1) Ólafur, f. 6.11. 1967, tölvunarfræðingur, kvæntur Ólöfu Lilju Eyþórsdóttur, f. 19.10. 1973, viðskiptafræðingi. Þau eru búsett í Kópavogi; 2) Þorvaldur Ingi, f. 2.5. 1972, búsettur á sambýli á Selfossi; 3) Kristín Laufey, f. 16.2. 1980, lyfjafræðingur, gift Guðmundi B. Friðrikssyni, f. 17.3. 1975, umhverfisverkfræðingi. Sonur þeirra er Óskar Elí, f. 17.1. 2019, fyrir átti Kristín Laufey soninn Sæþór Inga Danason, f. 18.9. 2012. Guðmundur á þrjú börn frá fyrra hjónabandi. Sonur Steina með fyrrverandi eiginkonu, Ástu Baldvinsdóttur, f. 27.2. 1951, aðstoðarmanni á leikskóla, er 4) Elfar Tjörfi, f. 19.8. 1990, stjórnmálafræðingur, kvæntur Rebekku Jenny Reynisdóttur, f. 2.5. 1993. Dóttir þeirra er Ísabella Ársól, f. 5.11. 2021.

Stjúpbörn Steina og börn Gunnhildar eru Harpa Halldórsdóttir, f. 26.2. 1980, viðskiptafræðingur, gift Jóni Pálmari Þorsteinssyni, f. 18.9. 1976, rafvirkja og eiga þau þrjú börn; Hafliði Halldórsson, f. 20.4. 1990, lögfræðingur, í sambúð með Stefáni Inga Þórissyni, f. 11.1. 1989, viðskiptafræðingi; Hlynur Halldórsson, f. 11.4. 1992, tölvunarfræðingur, í sambúð með Mörthu Sigurðardóttur, f. 11.5. 1991, tækniteiknara og eiga þau eitt barn.

Alsystur Steina eru Ólöf Þorvaldsdóttir, f. 24.5. 1945, fyrrverandi framkvæmdastjóri, búsett í Kópavogi, og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, f. 7.7. 1950, leikari, búsett í Kópavogi. Sammæðra bróðir Steina var Hilmar Harðarson, f. 15.4. 1938, d. 30.9. 2017, sjómaður og verkamaður.

Foreldrar Steina voru hjónin Þorvaldur Steinason, f. 6.4. 1907, d. 15.1. 1973, bóndi og verkamaður, og Ingunn Valgerður Hjartardóttir, f. 30.9. 1909, d. 15.9. 1980, húsmóðir.