Kristín Sigfúsdóttir fæddist á Öndólfsstöðum í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu, 6. desember 1933. Hún lést 21. október 2023. Foreldrar hennar voru Sigfús Hallgrímsson, bóndi og organisti í Vogum Mývatnssveit (1883-1966), og Sólveig Stefánsdóttir frá Öndólfsstöðum í Reykjadal (1891-1967).

Kristín var yngst tíu systkina. Þau voru: andvana fædd stúlka (1912), Ólöf, (1913-1926), Bára (1915-2000), Stefán (1917-1999), Ásdís (1919-2012), Hinrik (1922-2018), Valgerður (1925-2009), Sólveig Erna (1927-2017) og Jón Árni (f. 1929).

Kristín var skírð í höfuðið á ömmu sinni, Guðfinna Kristín, en var alltaf kölluð Nína. Hún giftist 30. desember 1953 Bóasi Gunnarssyni, f. 15. desember 1932, d. 9.5. 2015. Foreldrar hans voru Margrét Friðriksdóttir (1899-1975) og Gunnar Bóasson frá Bakkagerði á Reyðarfirði (1884-1945).

Börn Nínu og Bóasar eru:

1. Margrét, f. 1952, gift Kristjáni Val Ingólfssyni og eiga þau Bóas og Benedikt. Benedikt er giftur Angelu Árnadóttur og eiga þau þrjú börn.

2. Hinrik Árni, f. 1954, giftur Guðbjörgu Ásdísi Ingólfsdóttur og eiga þau Brynju Björk, Benedikt Bóas og Benjamín Björn. Brynja er gift Þórmundi Blöndal, Benedikt er giftur Söndru Hlín Guðmundsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Benjamín er giftur Fanneyju Hrund Jónasdóttur og eiga þau tvö börn.

3. Gunnar, f. 1956, d. 2022, giftur Friðriku Guðjónsdóttur og eiga þau Jónu Kristínu, Kolbrúnu Ödu, Dóru Hrund og Bóas. Jóna Kristín er gift Ásgeiri Bjarna Ásgeirssyni. Þau eiga samtals sjö börn. Kolbrún Ada á eina dóttur og er í sambúð með Berglindi Ósk Ingólfsdóttur. Dóra er í sambúð með Jóni Frey Axelssyni og eiga þau eina dóttur. Bóas er í sambúð með Lilju Björk Jónsdóttur og eiga þau eina dóttur.

4. Sólveig Anna, f. 1958, gift Baldri Tuma Baldurssyni og eiga þau Nínu og Kolbein Tuma. Nína á eina dóttur og Kolbeinn er í sambúð með Katrínu Brynjarsdóttur og eiga þau eina dóttur.

5. Ólöf Valgerður, f. 1960, gift Helga Bjarnasyni. Börn þeirra eru Andrea Bóel, Bjarni og Ragnheiður. Andrea er gift Hafsteini Ómari Gestssyni og eiga þau þrjú börn, Bjarni er í sambúð með Ástu D. Jónsdóttur og eiga þau eitt barn. Ragnheiður er gift Jóni Steinari Ágústssyni og eiga þau tvö börn.

6. Sigfús Haraldur, f. 1960, giftur Þóru Fríði Björnsdóttur og eiga þau Ásdísi Ingu, Ingólf, Gunnar og Örnu Kristínu. Ásdís Inga er í sambúð með Gunnari Jósteinssyni og eiga þau tvö börn, Ingólfur er giftur Hrund Teitsdóttur og eiga þau þrjú börn, Gunnar er í sambúð með Sofie H. Augustesen og Arna er í sambúð með Andreas Boyesen og eiga þau tvo syni.

7. Bóas Börkur, f. 1962, giftur Eyju Elísabetu Einarsdóttur og eiga þau Júlíus Gunnar, Bjarka og Elías. Bjarki er giftur Ásdísi Ósk Guðmundsdóttur og eiga þau einn son, Elías er í sambúð með Evu Benediktsdóttur og eiga þau einn son.

8. Ragnheiður, f. 1964, gift Guðmundi Inga Gústavssyni. Þeirra börn eru Arnaldur, Árný Eir, Þrúður og Hinrik. Arnaldur er í sambúð með Anni Olsson og eiga þau tvo syni.

9. Birgitta, f. 1973 er gift Hentziu í Lágabö.

Nína ólst upp í Mývatnssveit og gekk í farskóla sveitarinnar og stundaði síðan nám í Laugaskóla í Reykjadal einn vetur. Hún vann öll hefðbundin sveitastörf og sinnti sérstaklega silungsveiði með föður sínum.

Nína og Bóas byggðu sér hús í landi Voga árið 1959 og nefndu Stuðla eftir samnefndri jörð í eigu fjölskyldu hans í Reyðarfirði. Fram til þess tíma bjuggu þau með foreldrum Nínu í Vogum og sá Nína um heimilishald fyrir aldraða foreldra sína og annaðist þau af mikilli umhyggju. Bóas stundaði sjómennsku allt til ársins 1963 og var því allur heimilisrekstur og barnauppeldi á hendi Nínu.

Eftir að Bóas kom til starfa í Mývatnssveit voru þau samhent við að byggja og bæta við hús og garð og styðja börnin til mennta og íþróttaiðkunnar. Nína vann síðar utan heimilis m.a á saumastofu sem hún tók þátt í að setja á fót. Hún var ötul í öllu félagsstarfi, söng í kirkjukórnum og kvennakórnum Lissý, hún sá um vikulegan Kirkjuskóla fyrir börnin í mörg ár, hún var í stjórn slysavarnardeildarinnar Hrings og sat í almannavarnarnefnd sveitarinnar árin sem Kröflueldar geisuðu. Hún hóf ferðaþjónustu þegar ekki þurfti lengur að nota barnaherbergin. Nína flutti til Reykjavíkur árið 1996 og starfaði m.a á saumastofu og í mötuneytum. Árið 2007 flutti hún í þjónustuíbúð í Furugerði 1 í Reykjavík þar sem hún bjó til æviloka.

Útför hennar verður gerð frá Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit í dag, 2. nóvember 2023, kl. 14. Streymi frá útför:
mbl.is/go/5vkda

Vinnusama mamma mín, sem var með heimagistingu, saumaði rúmfötin sjálf, og elskaði að taka á móti gestum, talaði bæði ensku og þýsku við þá, sótti grænmeti niður í gróðurhús á morgunverðarborðið og rósir í blómahúsið, keypti sér strauvél, svo hún yrði fljótari að græja allt fyrir næstu gesti.

Blíða mamma mín, sem talaði mikið við guð, kveikti á kertum og þær systurnar stilltu sig saman og báðu fyrir fólki, veiku fólki, fólki í vanda, konum sem voru að eiga barn.

Hugrakka mamma mín, sem fór úr sveitinni sinni, flutti suður, lærði að taka strætó út um allan bæ. Bjó við bágar aðstæður til að byrja með og var oft við það að missa kjarkinn. Hún sótti styrk í Kvennakirkjuna, fór á námskeið og í messur og átti þar gott samfélag. Hitti Valgerði vinkonu sína, þær fóru í leikhús, eða bæjarferðir, Valgerður átti bíl og þær voru frjálsar að gera það sem þær lysti.

Duglega mamma mín, sem fór til Kanarí mörg ár í röð, safnaði sér lengi svo hún gæti verið í margar vikur úti, hikaði ekki við að fara ein, en svo komu vinkonur og voru með henni, og við Hentzia fórum í eina viku. Það var svo yndislegt að upplifa Kanarí með mömmu, hún þekkti allt og labbaði örugg um göturnar, naut sólarinnar og fékk sér pina colada. Ég held að þetta hafi verið bestu árin hennar.

Hugmyndaríka mamma mín, sem flutti í Furugerði, fannst félagslífið þar heldur dapurt, svo hún ákvað að rífa upp stemninguna, stofnaði Gleðibanka sem stóð fyrir alls konar skemmtunum fyrir íbúana. Svo varð til prjónaklúbbur, þær hittust tvisvar í viku til að prjóna flíkur sem þær gáfu til góðgerðarfélaga, mörg þúsund flíkur hafa farið frá þeim.

Fallega mamma mín, sem átti mikið af glitrandi skarti, slæður og varaliti í öllum litum og fín föt og var alltaf glæsileg, líka í bleika náttsloppnum sínum.

Kærleiksríka mamma mín, hún var ekki erfitt gamalmenni, hún var svo nægjusöm, og ég hrósaði henni oft fyrir það. Það eru nokkur ár síðan mamma vildi fara á hjúkrunarheimili, því hún fann að hún þurfti meiri umönnun, en kerfið leyfði henni það ekki. Við Hentzia lögðum okkur mikið fram við að tryggja öryggi hennar og vellíðan síðustu árin, og ég held að það hafi tekist bærilega hjá okkur. Við höfðum ánægju af því að sinna mömmu og vera með henni, það var í forgangi að hún hefði það gott.

Fyrirmyndin mamma mín, sem var orðin svo þreytt og fékk hvíldina 21. október sl. eftir stutt veikindi. Við Hentzia vorum hjá henni þegar lífsljósið hennar slokknaði, sögðum henni að hún væri alveg örugg og þetta yrði allt í lagi, við yrðum í lagi þó hún færi. Satt best að segja veit ég ekki hvenær það verður í lagi, það er það allavega ekki núna.

Tómarúmið er ólýsanlegt og söknuðurinn mikill. Kvöldsímtölin, morgunsímtölin, fjarstýringarsímtölin, líklega hef ég oft verið alltof stjórnsöm. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa átt hana og fengið leiðsögn hjá henni í gegnum lífið.

Góða nótt, elsku mamma mín, og takk fyrir allt – sko allt. Guð geymi þig.

Þín

Birgitta.

Elskuleg móðir mín er látin á nítugasta aldursári. Hennar langa ævi var viðburðarík og fólk á hennar reki lifði tímana tvenna, lítið um þau hversdagsþægindi sem við búum við í dag.

Kornung byrjaði hún búskap með pabba og börnin urðu níu svo nóg var að gera á nýja stóra heimilinu í Stuðlum. Alltaf fann hún tíma fyrir okkur, sagði okkur ótal sögur, og svo bakaði hún alltaf á fimmtudögum margar sortir, það var nú aldeilis gaman. Hún studdi okkur jafnt á skólagöngu sem í íþróttastarfi. Seinna þegar börnin voru flutt að heiman gat hún tekið enn meiri þátt í félagslífi í sveitinni. Hún var mikill leiðtogi og stýrði öllum verkum sem hún kom nálægt af natni og handbragð hennar var auðsjáanlegt. Ekki má gleyma garðinum kringum húsið sem ilmaði öll sumur af hundrað blómategundum og var eins og skrúðgarður yfir að líta.

Það var alltaf fjörlegt á heimilinu, mamma þurfti að beita mikilli kænsku til að koma krökkunum í rúmið, stundum fengum við hálft epli, stundum söng hún fyrir okkur eða sagði sögur og flestar þær sögur lifa með okkur enn í dag.

Þegar dagsverki hennar lauk fyrir norðan flutti hún suður til Reykjavíkur og bjó þar síðustu æviárin. Þar undi hún sér vel í Furugerðinu. Síðasta árið var henni erfitt, elsku Gunnsi bróðir lést skyndilega fyrir réttu ári og þá var hún ekki sátt við Guð sinn, að hafa ekki tekið sig til sín í staðinn. Mér fannst byrja að halla undan fæti hjá henni eftir það og hún var búin að undirbúa burtför sína og leggja á ráðin með það ferli. Eftir stutta legu lést hún á Landspítalanum að morgni laugardagsins 21. október.

Þessi besta mamma í heimi hafði alltaf tíma fyrir börnin sín, hún hjúkraði okkur veikum dag sem nótt, var vön að banka léttilega eitt til tvö slög á handlegg eða bak þegar manni leið sem verst, með ælupest eða martraðir sem ég fékk alloft í veikindum sem ungbarn, söng fyrir okkur og spilaði, enda var músík stór hluti af hennar lífi alla tíð. Daginn áður en hún lést var meðvitund hennar mjög skert og þegar ég kvaddi hana lagði ég vanga á enni hennar og klappaði létt á handlegg hennar og fann strax að hún fann fyrir þessu, andardrátturinn breyttist og ég vissi að hún var tilbúin að fara í sína hinstu ferð, að hitta Gunnsa sinn, pabba og ástvini sem öll biðu eftir henni.

Hún var trúuð kona og henni var það mikilvægt að vita af ástvinum sínum á góðum stað hjá Guði og að þangað færi hún óhrædd þegar tíminn kæmi. Guð blessi þig og geymi elsku mamma mín.

Börkur.

Fyrir 19 árum hitti ég yndislegu tengdamömmu minna í fyrsta skipti. Ég sá strax að þetta var kona að mínu skapi og það kom heldur betur í ljós að þetta var staðreynd. Við Nína áttu skap og húmor saman. Og fáir trúa því hvernig við létum stundum þegar enginn heyrði til. Nína er ein fallegasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. Og svo heppilega vill til að dóttir hennar, Birgitta mín, er nákvæmlega eins og mamma hennar.

Ef Nína heyrði um einhvern sem átti bágt, þá var hún búin að hræra í köku og brauð og lét færa manneskjunni. Hún var mikill sáttasemjari og skipti sér af ef hún vissi um ósætti.

Öll jól, langt fram í ellina, bakaði Nína smákökur handa börnum og barnabörnum, og notaði mikinn tíma í að gera kertaskreytingar handa öllum.

Ég var svo heppin að eyða síðustu 18 jólunum með henni. Og hennar jólahefð varð okkar jólahefð. Fyrstu árin var hún með puttana í öllu og kenndi okkur hvernig við ættum að gera súpuna, sósuna og hvernig skyldi elda rjúpuna.

En eftir því sem hún varð eldri og krafturinn og orkan minnkaði gat hún ekki tekið þátt í eldamennskunni. En við vorum jú löngu útskrifaðar og hún hafði engar áhyggjur af matnum. Kirkjan ómar öll og jólamessan voru löngu orðin ómissandi og hún gat rólega hallað sér aftur og notið alls sem var í boði.

Jólin 2021 standa upp úr, en þá ákváðum við að fara norður í Mývatnssveit að halda upp á alvöru Stuðlajól.

Við Birgitta ákváðum að skreyta Stuðla með stæl. Marglit ljós úti um allt, í gluggunum, á snúrunum og í flaggstönginni. Nínu fannst þetta svo flott og var stolt og fannst svo gaman að bjóða gömlum vinkonum í heimsókn í fallega jólahúsið sitt.

Það eru bestu jólin sem ég hef upplifað. Við Birgitta vissum að þetta yrðu síðustu jólin hennar Nínu í sveitinni fögru og sveitin, held ég, vissi það líka, því alla daga sýndi hún sínar fallegustu og bestu hliðar. Logn, bleikur og blár himinn, dansandi norðurljós og bítandi frost.

Það að fá að fylgja Nínu öll þessi ár, alveg fram að síðasta andardrætti, breytti mér sem manneskju. Nína kenndi mér margt um lífið, samskipti, þolinmæði og kærleika og hún mildaði samband mitt við guð.

Tómarúmið er mikið, það er svo margt sem ég á eftir að sakna, en mest mun ég sakna gæðastundanna okkar á laugardögum.

Í hjarta mínu mun ég geyma allar minningarnar um fallega og góða manneskju, sem mér þótti svo óskaplega vænt um.

Hentzia.

Elsku amma mín er fallin frá, þessi ótrúlega kona sem ég er stolt af að kalla nöfnu mína. Á æskuárum mínum bjuggum við fjölskyldan í Svíþjóð og það var alltaf mikið tilhlökkunarefni að koma heim í Mývatnssveitina til ömmu og afa. Sveitin var algert undraland fyrir okkur frændsystkinin og lékum við okkur ýmist uppi í hraunum eða niðri við vatn. Inni á milli sagði amma okkur sögur um alls kyns furðuverur, álfa og huldufólk og stundum hafði hún dreift súkkulaðirúsínum um hraunið fyrir okkur. Þegar við fluttum heim til Íslands var ég svo lánsöm að amma bjó hjá okkur í nokkur ár. Við Nínurnar tvær réðum ríkjum á neðri hæðinni í Álfabrekku og eru þessi ár mér afar dýrmæt í minningunni. Amma tók alltaf á móti okkur systkinunum eftir skóla og sá til þess að við værum vel nærð af kakósúpu með tvíbökum og oftar en ekki fylgdi smá sögustund með.

Þegar ég lít til baka sé ég hve mikilvægur stuðningur ömmu var fyrir mig á bæði unglings- og fullorðinsárunum. Hún hafði trú á mér, hvatti og stappaði í mig stálinu þegar þess þurfti sem er mér ómetanlegt. Góðmennska, kærleikur og réttsýni eru eiginleikar sem ég tengi við ömmu. Þeirra fékk dóttir mín líka að njóta í ríkulegum mæli þegar við kíktum í heimsókn síðustu árin og hvað viðvíkur sögunum hafði hún heldur engu gleymt. Eitt sem var í miklu uppáhaldi hjá dóttur minni var að leika sér með glingrið hennar ömmu en þar var sannarlega af nógu að taka. Ógleymanlegar eru þær stundir þegar Sólveig Freyja þræddi á sig fjöldann allan af hálsmenum og armböndum og amma spilaði fyrir okkur á orgelið á meðan.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt ömmu svona lengi, bæði sem barn og fullorðin kona. Takk fyrir allt, elsku amma mín, dreymi þig ljósið og sofðu rótt.

Nína Baldursdóttir.

Elsku amma Nína hefur nú fengið hvíldina sína. Hún sofnaði friðsæl og sátt, sannarlega búin að skila sínu á þessari jörð.

Amma var kraftmikil, dugleg, sýndi frumkvæði og þor, mikla góðmennsku og hlýju og ekki síst hafði hún einstaka frásagnargleði. Hver man ekki eftir sögunni um smjörbita, skemmtileg og fyndin saga sem amma sagði okkur oft og bara eftir minni. Hún hafði nefnilega ótrúlegt minni og sagði okkur hinar ýmsu sögur frá því að hún var ung.

Samverustundir með henni voru dýrmætar, uppfullar af góðum sögum og spjalli, sterku kaffi með rjóma og ljúffengum kökum eða brauði og áleggi. Öll símtölin eru okkur líka minnisstæð, röddin hennar var svo hlýleg og glaðvær. Við þurftum aldrei að óttast að umræðuefnin yrðu á þrotum með ömmu. Svo var hún alltaf svo fín og glæsileg.

Við erum ótrúlega þakklát fyrir að hafa átt ömmu Nínu svona lengi og að hún hafi líka náð að kynnast börnunum okkar.

Takk fyrir allt elsku amma og hvíldu í friði.

Ásdís, Ingólfur, Gunnar og Arna Kristín.

Elsku amma Nína er lögst til hvílu.

Við systkinin vorum lánsöm að búa í nálægð við ömmu og afa í barnæsku. Fastur liður var vellingur og slátur í hádeginu á laugardögum. Kleinubakstur með kaldri mjólk var best í heimi því auðvitað gerði amma bestu kleinurnar. Og hvert ár héldum við saman jól og áramót. Amma og afi voru fastur liður í tilverunni.

Við amma brölluðum mikið saman eftir að við fluttum suður.

Veturinn 1997 leigðum við saman á Njálsgötu og sambúðin gekk glimrandi vel. Hún fór til vinnu á morgnana og ég í skólann. Seinnipartinn horfðum við á Leiðarljós og elduðum yfirleitt kvöldmat saman. Mikill gestagangur um helgar og síminn hringdi oft og það var talað lengi. Amma átti saumavél sem var alltaf til taks og mátti ekki á milli sjá hvor notaði meira. Það þurfti ekki alltaf að kaupa nýtt, bara taka inn hér eða út þar og orðið eins og nýtt. Ég lærði margt nytsamlegt þennan vetur, utan skólabókanna.

Um árabil dvaldi amma á Kanarí yfir myrkasta tímann. Hún bauð systrum og vinkonum með sér og úr urðu miklar skemmtiferðir. Eftir að amma varð eldri hætti hún að treysta sér ein og lögðust þessar ferðir af. Eftir að hafa hlustað á ömmu rifja upp kántrídansnámskeið á Kanarí ákvað ég að bjóða henni að fara til Spánar og ég með sem lagskona. Hún valdi staðinn og ég sá um skipulagninguna. Vorið 2016 fórum við saman út og dvöldum í viku á strandhóteli með útsýni yfir sjóinn. Ég leigði ferðahjólastól svo við kæmumst allra okkar ferða. Við brunuðum upp og niður göturnar í notalegum Spánarhita skoðandi glingur og gersemar. Kvöldmatur á fínum veitingahúsum þar sem amma sagði mér sögur úr sínu lífi. Það var lítið um þagnir í þessari ferð og við snerum ríkari heim eftir þessa samveru.

Þegar amma flutti í Furugerði stofnaði hún prjónaklúbb. Ég hjálpaði til með því að auglýsa eftir garni og prjónum sem lægju í geymslum heimila. Það stóð ekki á svörum og fylltist handavinnuherbergið af efni. Úr varð prjóna- og vináttuklúbbur sem hittist tvisvar í viku og prjónaði ógrynni af peysum, vettlingum og sokkum sem var svo afhent Hjálparstarfi kirkjunnar. Afraksturinn var slíkur að klúbburinn rataði oft í fréttirnar.

Hjá ömmu var alltaf kveikt á kerti. Kveikt var fyrir þá sem á þurftu að halda, hvort sem var til heilla eða á erfiðum tímum. Fyrir jólin gerði amma kertaskreytingar. Þetta var list sem hún hafði lært í Slysavarnadeild Hringsins. Undanfarin ár bauð hún mér að hjálpa sér við skreytingarnar og kenndi mér listina. Jólatónlist á fóninum, púrtvín í glasi og könglar og greni út um allt. Þegar skreytingarnar voru tilbúnar kom hver fjölskylda og valdi sér fyrir jólahátíðina.

Amma hafði sérstakt lag á að lýsa hlutum sem heilluðu hana. Hún sagði til dæmis sögur af morgundögginni og notaði orð eins og smaragðar og gull, lygndi aftur augunum og setti hendur í höfuðhæð og svo dönsuðu fingurnir niður eins og regn til að lýsa dýrðinni. Það var hátíðleiki í hversdeginum hjá ömmu.

Takk fyrir allt og allt, elsku amma.

Fyrir hönd okkar systkinanna,

Brynja, Benedikt og Benjamín.

Nú er lífsljósið hennar elsku Nínu slokknað, litlu systur mömmu, sem var mér næstum eins og stóra systir en umfram allt kær vinkona. Stjarnan hennar skín nú falleg og skær á himninum yfir Vogum og lýsir upp allar minningarnar. Nú taka elsku Gunnsi, foreldrar og systkini hana í sinn faðm.

Nína frænka mín var hetjan sem rak stóra heimilið þeirra Bóasar og barnanna níu í Stuðlum. Hún var mikið ein með börnin og heimilið framan af. Bóas var mest á sjó, jafnt sumar sem vetur. Amma og afi í Vogum voru á næsta leiti og börnin skottuðust á milli.

Nína stóð keik þótt á móti blési, með léttlyndi að vopni á meðan hún eldaði, bakaði, saumaði, þvoði, prjónaði og sinnti börnum. Við frænkur pössuðum börnin gjarnan á sumrin, en annars gengu börn í Vogum mikið sjálfala. Þó þurfti að passa að þau dyttu ekki í vatnið eða týndust ekki uppi í hrauni.

Þegar við Pétur fórum að venja komur okkar í Stuðla á sumrin með okkar börn, í 3-4 vikur í senn, vorum við Nína ungar konur með börn á líkum aldri og aldursmunur á okkur var enginn á þessum árum, 25 til 40 ára. Ég kom til að vera henni innan handar en það fjölgaði óneitanlega í Stuðlum við komu okkar. Þá var bara öðru læri bætt við í sunnudagsmatinn og alltaf var handagangur í öskjunni í litlu borðstofunni. Þetta voru yndisleg sumur, það var svo gaman hjá okkur Nínu og hjá börnunum í sveitinni, alltaf sól og blíða. Við Nína settumst út með morgunbollann og svo var hægt að laumast í búrið þar sem voru kleinur í bauk og hnífurinn stóð í skúffukökunni. Börnum var beitt út á leikvöll eða út í sundlaug meðan hennar naut við og þau pössuðu hvert annað. Svo skiptum við verkum. Nína málaði sig, túberaði og varalitaði áður en hún hóf morgunverkin. Einn hringur um húsið með gott vatn í fati, þvegið úr öllum gluggum. Svo vatt hún sér í hádegismatinn sem stóð á borðinu á slaginu tólf þegar börnin dreif að og Bóas kom úr Kísiliðjunni. Ég byrjaði gjarnan á blómabeðum austan við hús, tók niður þvott, hengdi út, braut saman og sleikti morgunsólina. Bökunardagur fram undan, allt eldhúsið lagt undir, bakaðar formkökur, hjónabandssælur, vínarbrauð, kleinur og skúffukökur. Farið á Skarðsel með dýrindis nesti, vaðið og sullað í lækjum og léku sér stórir og smáir. Eins upp í Lúdent, spilaður fótbolti á sandinum og Nína alltaf með í fjörinu.

Nína var mikill húmoristi, gerði grín að mönnum og málefnum, hermdi óspart eftir fólki og við hlógum okkur máttlausar. Hún fór hiklaust úr miðju verki til að kenna mér gömlu dansana, hækkaði útvarpið í botn og verkin máttu bíða.

Alltaf var gestkvæmt í Stuðlum og gjarnan setið við spjall og hlátrasköll fram á nótt. Nína töfraði fram kaffi og kökur, kex, salöt og osta eins og hver gat í sig látið.

Sumarheimsóknir okkar í Stuðla eru ógleymanlegar, en dýrmætust er öll hlýjan og vináttan sem Nína og fjölskyldan öll umvafði okkur. Fyrir það þökkum við af öllu hjarta.

Ég bið Guð að blessa heimkomu elsku Nínu minnar, móðursystur, stóru systur og trúnaðarvinkonu, sem lifði svo fallegu og gjöfulu lífi.

Guð geymi ykkur öll.

Sólveig Ólöf Jónsdóttir.

Í meira en 40 ár hef ég þekkt heiðurskonuna Nínu. Við vorum kynnt þegar ég kom norður í Mývatnssveit viku fyrir brúðkaup okkar Sólveigar dóttur hennar, og hitti þá tengdaforeldrana og þau af systkinunum níu sem ég hafði ekki séð áður.

Á þessum árum bjuggum við í öðrum landshluta og dvöldumst síðan lengi erlendis við nám en þrátt fyrir það var það aldrei eins og samskiptin væru lítil. Það var líf og fjör í fjölskyldunni og mikið hist og skemmt sér og alltaf var Nína þar í anda þótt hún væri oft langt í burtu. Það var sérstaklega dýrmætt að geta minnst ferðarinnar sem við áttum með henni um Holland og London 1985, minning um frábæran ferðafélaga sem kunni að njóta alls sem þessi ferð bauð upp á með hrifningu og glettni. Ennþá finnst barnabarnabörnunum ævintýralegt að fara í pelsinn hennar ömmu Nínu, sem keyptur var í London í árdaga. Þá var það gæfa okkar að fá að hafa hana nærri okkur um nokkurra ára skeið þegar hún bjó með okkur í Álfabrekkunni eftir að við fluttumst heim frá námi. Einkum og sér í lagi var það dýrmætt fyrir börnin okkar að kynnast ömmu sinni betur.

Heimilið í Mývatnssveit var alltaf fjölmennt og gestrisnin með miklum afbrigðum. Alltaf urðu að vera til hinar ýmsu kökur og sætabrauð, kleinur og kruðirí og það má segja að baksturinn hafi verið sérstök stofnun en húsfreyjan bakaði ofan í allan hópinn sem gat talið 15 manns á sumrin til viðbótar öllum þeim sem þvældust inn un dyrnar á þessu myndarheimili. Þarna, eins og víðar í sveitum, þýddi hljóðið af bíldekkjum sem tóku beygjuna að húsinu að gestir væru komnir í kaffi og yfirleitt búið að setja kaffivélina af stað áður gestirnir börðu að dyrum.

Þegar leið á tíunda áratuginn tók Nína þá ákvörðun að flytja suður. Fyrir mér og fleirum var það eðlileg ákvörðun sjálfstæðrar manneskju sem langaði að víkka sjóndeildarhringinn og vílaði ekkert fyrir sér. Seinna meir gerði ég mér grein fyrir hvað þetta var í raun mikið afrek og sjálfstæðisyfirlýsing, hún varð, eins og sagt er í dag, gerandi í eigin lífi. Hún vann ýmiss konar störf, um nokkurra ára skeið, sótti menningarviðburði af fjölbreyttu tagi og naut lífsins sem aldrei fyrr. Með hennar hæfileika og lífsviðhorf varð henni allt til gleði og á árunum í Furugerðinu nýtti hún kunnáttu sína og forystuhæfileika til að gylla hversdaginn fyrir sambýlinga sína þar.

Hvar sem hún bjó um sig hafði hún fallega hluti í kringum sig, hún var alltaf fallega klædd og elskaði allt sem fagurt var, ekki síst tónlist sem var yfir og allt um kring í hennar hópi.

Þegar stóra hjartað hennar var farið að veiklast og hallaði undan fæti fékk hún góðar og faglegar móttökur í heilbrigðiskerfinu okkar. Fyrir það er fjölskyldan innilega þakklát. Það var reynt sem hægt var. Nína var tilbúin að kveðja, sátt eftir langa og starfsama ævi. Guð blessi minningu Nínu Sigfúsdóttur.

Baldur Tumi Baldursson.