Guðmundur Páll Ásgeirsson er formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar og segir frá áhrifum lækninga og fylgikvilla.
Guðmundur Páll Ásgeirsson er formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar og segir frá áhrifum lækninga og fylgikvilla. — Ljósmynd/Krabbameinsfélagið Framför
Eftir því sem menn eru yngri er þetta svakalegra högg og ekki bara högg heldur getur það orkað eins og árás á hugmyndina um það hver þú ert, breytt sjálfsmyndinni og samskiptum.

Guðmundur Páll Ásgeirsson, formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar, greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2020 og er fram liðu stundir og eftir rannsóknir þótti sýnt að hann væri með æxli sem takast þurfti á við.

Gekkst Guðmundur undir geislameðferð sem krafðist hormónahvarfslyfja í formi stungulyfs sem heldur virkni sinni í líkamanum í hálft ár með það fyrir augum að krabbameinið í kirtlinum er svipt testósteróni, skreppur við það saman og verður þar með móttækilegra fórnarlamb geislameðferðarinnar.

Í því viðtali sem Guðmundur veitir hér í blaðinu í tilefni af sölu Bláa trefilsins nú í nóvember ræðir hann áhrif lækninga og fylgikvilla á innra líf, sjálfmynd, tilfinningar og fleira sem fylgir andlegri hlið óvænts vágests sem oftar en ekki greinist að óvörum og er boðberi óþægilegra tilfinninga og hugsana.

Skert geta til að stunda kynlíf er sá fylgifiskur krabbameins í blöðruhálskirtli sem líklegast kemur flestum fyrst í hug. „Eftir því sem menn eru yngri er þetta svakalegra högg og ekki bara högg heldur getur það orkað eins og árás á hugmyndina um það hver þú ert, breytt sjálfsmyndinni og samskiptum við maka. Það er algengt að menn verði daprir og jafnvel þunglyndir og finnist erfitt að höndla þessa stöðu, finnist lífið tómlegt og þeir sjálfir lítils virði,“ segir Guðmundur Páll.

Þvagleki sé þá hvimleiður kvilli sem einnig fylgir en sjaldnar sé þó rætt um. Hann gengur að sögn Guðmundar til baka í mörgum tilfellum en svo er ekki alltaf.

„Fyrir þá sem sleppa með minni háttar veikindi, svo sem þegar brottnám kirtilsins eða geislameðferð gengur vel, er þetta eins og verkefni sem gengur yfir. Margir eru fljótir að jafna sig bæði líkamlega, tilfinningalega og félagslega. En svo er annar hópur manna þar sem meinið er erfitt viðureignar, hafði þegar dreift sér eða tekið sig upp á ný eftir meðferð eða meðferðir. Þeir menn búa við erfiðari veikindi og meðferðir í langan tíma,“ segir Guðmundur.

Hann kveður það stórverkefni að takast á við krónískan sjúkdóm sem mótar líf manns en tekur um leið fram að á hans eigin göngu hafi hann kynnst karlahópum sem eftir langa sjúkdómsgöngu hafi fundið þá upplifun og tilfinningu að þeir væru að lifa verðugu og mikilsverðu lífi sem væri vel þess virði að lifa sem flesta daga.

Guðmundur lítur á sjúklingafélögin sem eins konar menningu þar sem siðir, venjur og söguheimur verða til í hópnum. Tilgangur batasamfélaga, eins og þeirra sem segir af í þessu blaði, er að viðhalda og segja lífsbætandi sögur. „Þarna eru menn að fá búta eða efni í endurbyggingu sinnar eigin sögu úr því sögusafni sem verður til í góðu jafningjasamfélagi.“