Bókbindari Viðar Pálsson hefur komið sér upp aðstöðu heima.
Bókbindari Viðar Pálsson hefur komið sér upp aðstöðu heima. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, bindur inn bækur í frístundum. Hann opnaði nýlega vefsíðu, bokband0.wordpress.com, til að vekja athygli á því að hann taki að sér að binda bækur fyrir aðra í vandað, hefðbundið skinnband

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, bindur inn bækur í frístundum. Hann opnaði nýlega vefsíðu, bokband0.wordpress.com, til að vekja athygli á því að hann taki að sér að binda bækur fyrir aðra í vandað, hefðbundið skinnband. „Vinir og kollegar hafa lengi skotið til mín bókum til að láta mig binda þær inn og mér datt í hug að opna augu fleiri fyrir þessum möguleika,“ segir Viðar. Hann leggur þó áherslu á að bókband sé áhugamál hjá sér en ekki lifibrauð, háskólastarfið sé hans dagvinna.

Bókband hefur blasað við Viðari alla ævi. Hann segist hafa alist upp hjá leselskum foreldrum, sem eiga ágætt bókasafn, og eins hafi verið stórt bókasafn með mörgum bókum bundnum í skinn á Steindórsstöðum í Reykholtsdal, þar sem hann hafi verið í sveit í mörg sumur. „Ég hef verið hændur að bókum allt frá því ég var ungur, bæði til lestrar og einnig hef ég heillast af bókum sem gripum. Vel handbundnar bækur hafa alltaf vakið athygli mína og forvitni og mér finnst falleg heimilisbókasöfn með því áhugaverðasta og fallegasta sem ég sé á heimilum.“

Í fótspor meistara

Viðar segir að frá æsku hafi blundað í sér löngun til að læra bókband. Að sagnfræðináminu loknu hafi hann séð tækifæri til að láta drauminn verða að veruleika. „Ég hafði ekki tök á því að læra bókband sem iðngrein heldur vildi frekar leita til bókbandsmeistara um einkatíma, fá þannig handleiðslu í faginu og verða sjálfbjarga.“ Hann hafi kynnst Guðlaugi Atlasyni, bókbandsmeistara í Vogum á Vatnsleysuströnd. „Hann tók mér opnum örmum og er mikill öðlingur. Ég mætti til hans reglulega í langan tíma og batt inn bækur undir hans handleiðslu.“ Samhliða verknáminu hafi hann orðið sér úti um verkfæri og annað sem til þurfti til að geta sinnt bókbandinu heima hjá sér.

Síðar segist Viðar hafa komist í kynni við Ragnar Gylfa Einarsson bókbandsmeistara og son hans Einar Svein. „Þeir eru sömuleiðis miklir öðlingar og velgjörðarmenn mínir, hafa leyft mér að njóta þeirrar þekkingar sem þeir hafa yfir að búa.“ Þannig hafi bókbandið hjá honum smám saman þróast og hann náð færni í faginu. „Með árunum hef ég líka byggt upp fullkomnari aðstöðu heima hjá mér.“

Færni í bókbandi næst með stöðugri æfingu árum saman, að sögn Viðars. „Uppskeran er nærandi, það er ánægjulegt og gefandi að handleika vel innbundna bók og sömuleiðis að geta orðið öðrum að liði við að koma góðri bók í gott band.“

Og bókband snýst ekki einungis um bækurnar sjálfar. „Ég lít fyrst og fremst á bókband sem hægan lífsstíl, aðferð til að setjast niður eftir eril dagsins og finna fyrir rósemd. Bókband er fag sem krefst rólyndis, yfirvegunar og þolinmæði. Það kallar á sterkt kaffi og lágstemmda tónlist. Það veitir sköpunarkraftinum útrás, sem ég held að sé ein af grunnþörfum okkar.“ Spurður hvort mikill tími gefist fyrir áhugamálið segir Viðar: „Það er auðvitað misjafnt eftir dögum, en ég reyni að gera eitthvað flesta daga, þó ekki sé nema nokkur handtök. Reglulega næ ég góðri setu.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson