Sigmundur Guðmundsson fæddist í Hofsósi í Skagafirði 12. júlí 1945. Hann lést 19. október 2023 á LSH, Fossvogi.

Foreldrar hans voru Stefanía Guðrún Jónsdóttir, húsfreyja, fiskverka- og saumakona, f. 12. mars 1925, d. 14. september 2021, og Guðmundur Steinsson, trésmiður og múrari, f. 24. desember 1921, d. 25. júní 1993.

Sigmundur var elstur sjö systkina sem lifa hann öll en þau eru: Anna Steinunn, f. 21. september 1946; Jón, f. 26. mars 1952; Björgvin Margeir, f. 12. apríl 1954; Guðmundur Örn, f. 17. ágúst 1955; Steinn Márus, f. 1. október 1958; Hólmfríður Dröfn, f. 29. maí 1960.

Sigmundur kvæntist hinn 21. janúar 1967 Amalíu Sigurðardóttur, f. 20. júlí 1945. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Úlfar, f. 5. maí 1967. 2) Brynjar Örn, f. 19. mars 1974. Eiginkona hans er Halla Björg Evans, f. 20. júní 1980. Börn þeirra eru a) Guðrún Elfa Jóhannsdóttir, f. 29. ágúst 2001, sambýlismaður hennar er Sindri Snær Norðfjörð, f. 10. mars 1999, b) Bryndís Eva, f. 23. janúar 2010, og c) Emelía Rún, f. 30. október 2012. 3) Hólmar Logi, f. 19. desember 1976. Eiginkona hans er Sólveig Þórarinsdóttir, f. 25. júní 1980. Börn þeirra eru a) Karín, f. 19. febrúar 2007, b) Sólon, f. 25. nóvember 2009, og c) Hákon, f. 24. nóvember 2011.

Sigmundur og Amalía byggðu sér heimili á Smáragrund 18 á Sauðárkóki árið 1969 og bjuggu sín hjúskaparár þar.

Sigmundur stundaði nám við Barnaskólann á Hofsósi, þaðan fór hann í Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði í tvo vetur. Eftir útskrift þar fór hann í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan 1964. Þá sigldi hann um heimsins höf á nýju skipi, ms. Mælifelli. Í lok árs 1964 hóf hann störf hjá Samvinnubankanum sem gjaldkeri, fyrst í Reykjavík en fluttist svo norður á Sauðárkrók þegar Samvinnubankinn opnaði útibú þar 1965. Hann varð seinna útibússtjóri þar og síðar í Landsbankanum þegar bankarnir tveir sameinuðust. Seinna fluttist hann til Akureyrar og tók hann þá við skrifstofustjórastöðu hjá Landsbankanum á Akureyri þar til hann lét af störfum og flutti þá alfarið heim á Sauðárkrók.

Sigmundur hafði ávallt áhuga á íþróttum, hann spilaði fótbolta á sínum yngri árum, körfubolta með Molduxum á Sauðárkróki. Síðar tók golfíþróttin yfir og sinnti hann þeirri ástríðu ötullega. Útivera og hreyfing var eitt af hans áhugamálum alla ævi og allt árið um kring. Sigmundur sinnti mörgum félagsstörfum og var einn af nokkrum áhugamönnum sem árið 1977 komu að og aðstoðuðu við uppbyggingu og að hefja starfsemi Golfklúbbs Skagafjarðar, einnig var hann félagi í Lionsklúbbi Sauðárkróks um árabil, Stangaveiðifélagi Sauðárkróks, Krabbameinsfélagi Skagafjarðar og Björgunarsveitinni Skagfirðingasveit.

Sigmundur hafði mikinn áhuga á veiði og sjómennsku, stundaði hann sjóinn með námi og einnig eftir nám.

Útför Sigmundar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 14 og verður streymt á vef Sauðárkrókskirkju.

Elsku Simmi minn, elsku hjartað mitt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín

Amalía (Amý).

Pabbi, elsku pabbi, við trúum því ekki að við séum sestir hérna niður að skrifa okkar hinstu kveðju til þín, við héldum að þú yrðir langlífur eins og mamma þín. Þú varst alltaf svo hress og með fullkomna heilsu, stóðst alltaf eins og klettur við hliðina á mömmu, alltaf til í allt sem þú varst beðinn um.

Þið mamma komuð ófáar ferðirnar suður til okkar strákanna að passa barnabörnin, sérstaklega þegar Hólmar var að fljúga um allan heim. Við gleymum því aldrei þegar við tilkynntum ykkur að þið væruð að vera afi og amma og tvö á sama tíma, Hólmar með Karín fædda í febrúar og Brynjar með Guðrúnu Elfu, sex ára, sem hann fékk sem bónus. Þú varst alltaf svo stoltur af barnabörnunum, til dæmis í sumar þegar Emelía Rún fór með þér upp á golfvöll eftir að hafa farið á golfnámskeið.

Elsku besti pabbi okkar, takk fyrir allt sem þú gafst okkur. Takk fyrir allt traustið og stundirnar við að leiða okkur inn í lífið og takast á við að læra á bíl og hvað peningar væru, bera virðingu fyrir hlutum og vera til staðar.

Þú kenndir okkur að skoða málin frá öllum hliðum og gast alltaf bent okkur á leiðir til að leysa málin á jákvæðan og hagkvæman hátt. Þú barst virðingu fyrir öllum, bæði mönnum, dýrum og náttúrunni. Aldrei heyrðum við þig tala neikvætt um einn eða neinn.

Þá sýndir þú okkur líka að það skiptir máli að vera nýtinn en ekki nískur enda með gjafmildari mönnum, þá sérstaklega á tímann þinn. Barnabörnin sex tala öll um það, enda alltaf til í skemmtilegar ævintýraferðirnar í Litla-Skóg, veiðiferðir á bryggjunni, alltaf varstu til í að mæta á fótboltamótin þeirra og að slá grasið varð toppurinn á tilverunni, þá sérstaklega að liggja í grasinu í kerrunni.

Takk fyrir að gefa okkur þetta ómetanlega innsæi í lífið, hvort sem var með skemmtilegum veiðiferðum, fjölskylduvænum útilegum eða fara á skíði. Ekki má gleyma ómetanlegum ferðalögum erlendis, sem þótti heldur betur ævintýri fyrir fjölskylduna.

Þú varst grillarinn í fjölskyldunni og stóðst úti við grillið sumar, vetur, vor og haust, það skipti ekki máli hvernig veðrið var. Við eigum ómetanlegar og dýrmætar minningar um góðar samverustundir á æskuheimilinu, enda alltaf tekið vel á móti okkur þegar allur hópurinn mætti norður.

Maður fékk alltaf veðrið uppfært þegar við heyrðum í þér eða vorum á svæðinu, það vantaði ekki upp á þann áhuga að spá í það og hvernig næstu dagar yrðu og hvort spáin hefði ræst sem spáð var þann daginn þegar maður talaði við þig, enginn veðurfréttatími fór fram hjá þér, sem gerði þig að okkar veðurfréttamanni.

Það var nett bíladella í þér og þú hafðir gaman af því að endurnýja bílana, lyklarnir að bílnum á Smáragrundinni voru ekki faldir þó svo að við tækjum þá nokkrum sinnum og spóluðum á afturdrifnum Volvo fram og aftur í innkeyrslunni!

Elsku pabbi, við elskum þig og dáum, þú verður alltaf í minningu okkar. Takk fyrir að fylgja okkur öll þessi ár og þú áttir mikinn þátt í að gera okkur að þeim manneskjum sem við erum í dag.

Þínir synir,

Sigurður Úlfar,
Brynjar Örn og
Hólmar Logi.

Elsku besti Simmi afi okkar.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar,

þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þó ég fengi ekki að þekkja þig

þú virðist alltaf getað huggað mig,

það er eins og þú sért hér hjá mér

og leiðir mig um veg.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig,

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þegar tími minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt vísa veg

og taka á móti mér.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Við elskum þig og söknum alveg óendanlega mikið. Við munum passa vel upp á elsku bestu Amý ömmu og líka Sigga Úlla frænda. Okkur finnst voða erfitt að hugsa þá hugsun að nú eigi pabbar okkar engan pabba en vitum að fjölskyldan verður dugleg að minnast þín og allra þinna ævintýra. Við ætlum svo að deila þessum minningum áfram til litlu langafastelpunnar þinnar sem kemur á nýju ári.

Takk fyrir allt elsku besti afi. Takk fyrir allt sem þú hefur kennt okkur.

Guðrún Elfa, Karín, Sólon, Bryndís Eva, Hákon og Emelía Rún.

Elsku Simmi minn.

Að elska er að lifa, allt hitt er dauði,

og allt sem lifir er fætt af ástinni,

því að veröldin er sköpun hennar.

Það er hún sem vakti aflið,

sem stjórnar viti og vilja mannsins

og vefur örlagaþræði lífsins.

Það er hún sem gerir veröldina fagra,

því að hún er brosið á rúbínvörum kvöldsins

og ljós hinnar ódauðlegu gleði í augum morgunsins.

Að elska er að lifa

og sá sem einhver elskar getur aldrei dáið.

(Gunnar Dal)

Þín

Sólveig.

Hann Simmi bróðir minn er fallinn frá og maður verður víst að sætta sig við orðinn hlut. Einhvern tímann á ævinni verður dauðinn ekki umflúinn, þetta er víst vegferð okkar allra. Það var atburðarás sem engan okkar óraði fyrir að hann skyldi fara svona snemma inn í sumarlandið. Einn daginn deyr maður, en alla hina lifir maður einn dag í einu. Þangað til maðurinn með ljáinn kemur í heimsókn. Hann Simmi bróðir lifði hvern dag og naut þess að vera til. Simmi hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og var fótbolti hans aðaliðkun á yngri árum og var hann þekktur fyrir skallatækni sína. Gönguskíði stundaði hann yfir veturinn auk þess að vera í old boys-körfubolta. Seinna stundaði hann golf eins og enginn væri morgundagurinn, hann var á golfvellinum með ásunum alla virka daga. Þeir sem mættu á völlinn klukkan eitt á daginn kalla sig ásana.

Simmi hélt mjög upp á alla fjölskyldu sína sem og aðra sér nákomna. Foreldrum okkar var hann mjög kær og hugsaði afar vel um móður okkar, en hún náði háum aldri. Lífið er jú ein samfella sem enginn ræður yfir og enginn ræður sínum næturstað.

Við vorum sjö systkinin frá Birkihlíð í Hofsósi og alin upp í miklum kærleik. Simmi fór snemma að heiman og nokkrar minningar lifa mjög sterkt um minn kæra bróður. Hann fer á millilandaskipið ms. Mælifell árið 1964 sem var eitt af skipum Sambandsins gamla. Hann er þá rétt um 19 ára gamall og er skipið þá mestallt sumarið í fraktsiglingum í Miðjarðarhafinu. Þegar hann kom heim um haustið færði hann okkur mikið af framandi nammi og skemmtilegar sögur, sem við sátum alveg agndofa yfir. Mamma og pabbi voru ekki heima þennan dag og Simmi sendi okkur út að kaupa eins mikið af eggjum og hægt var. Hann hafði lært á skipinu að útbúa einhvers konar eggjarétt, sem var afburða góður, og ég held að við sem heima vorum höfum aldrei síðan borðað eins mikið af eggjum og þetta haustkvöld.

Margs er að minnast og verður ekki allt dregið hér fram. Ég man þegar hann keypti Moskvíts, sem var mikil eðalkerra og hann lét í hann plötuspilara (fyrir litlar plötur). Þegar hann og Amalía komu í heimsókn í Hofsós fékk plötuspilarinn heldur betur að finna fyrir því þar sem Björgvin bróðir þeytti skífur allt þar til bíllinn varð því sem næst rafmagnslaus. Þess má geta að þessi spilari er enn til.

Far vel, bróðir sæll, þótt ótímabært sé. Góðir menn byggja Ísland og þú áttir þar hlut að máli. Manndáðin og traustið var þér kært bróðir sæll sem og náungakærleikurinn. Dagur kemur á eftir nóttu, það vita þínir afkomendur og minningin um þig verður þeim öllum vegsemd skær.

Nóttin víkur fyrir degi og landið rís.

Guðmundur Örn Guðmundsson (Öddi Stebbu).

Með sorg í hjarta og miklum söknuði þarf ég að fylgja bróður mínum til grafar, en útför hans fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 2. nóvember, kl. 14.

Simmi er elstur af okkur sjö systkinum og þau sem á eftir komu eru Anna Steinunn, Jón, Björgvin Margeir, Guðmundur Örn, Steinn Márus og Hólmfríður Dröfn.

Við erum öll fædd á Hofsósi og bjuggum í húsi sem heitir Birkihlíð sem stendur norðan við ána. Simmi var okkar fyrirmynd og reyndist okkur vel að hafa hann og leita ráða hjá honum. Hann fór þessa hefðbundnu leið í námi sem var í boði á þeim tíma. Þegar barnaskólagöngu lauk fór hann í Reykholtsskóla og síðan í Samvinnuskólann á Bifröst. Á sumrin vann hann stundum með pabba í múrverki og því sem til féll. Hann fór á sjó í Vestmannaeyjum og seinna fór hann sem háseti á flutningaskipið Mælifell sem sigldi aðallega til Evrópulanda, Frakklands, Spánar, Portúgal o.fl.

Þegar hann lauk skólanum á Bifröst réðst hann sem gjaldkeri hjá Samvinnubankanum á Sauðárkróki og síðar meir sem útibússtjóri.

Hann giftist Amalíu Sigurðardóttir og hófu þau búskap í Aðalgötunni í húsi sem var kalla Fíladelfía. Seinna fluttu þau á Hólaveginn og fóru að byggja sér einbýlishús á Smáragrund 18, sem að var þeirra heimili upp frá því.

Simmi og Amý eignuðust þrjá stráka, Sigurð Úlfar, Brynjar Örn og Hólmar Loga. Það var oft mannmargt og mikið fjör. Simmi lifði mjög heilbrigðu lífi, stundaði íþróttir bæði fótbolta og körfubolta og var einn af stofnendum Golfklúbbsins á Sauðárkróki. Einnig stundaði hann skíði ef tækifæri gafst. Oft fórum við á veiðar og ófáar ferðir í Blöndu. Við fórum oft á sjó á trillunni minni og fiskuðum stundum meira en við ætluðum, en alltaf var jafn gaman.

Þegar við Margrét byrjuðum að byggja hjálpaði hann okkur öll kvöld og allar helgar meira og minna meðan við vorum að koma okkur í skjól og var okkur ómetanleg hjálp. Það er margs að minnast og mér vefst tunga um tönn þegar ég fer að rifja upp þessar ljúfsáru minningar. Við fórum saman í útilegur, hjónaböllin, þorrablótin, fjölskylduboðin, árshátíðir að ógleymdu skemmtilegu kvöldunum með görótta drykki í glasi á Smáragrundinni.

Elsku Amý okkar, nú hefst nýr kafli í þínu lífi og við hjónin komum til með að fylgjast með þér og þinni fjölskyldu.

Með þessum orðum sendum við Margrét og fjölskylda okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi ljós lífsins leiða ykkur.

Björgvin bróðir.

Það var létt yfir hópi unga fólksins sem stóð á hlaðinu að Bifröst í Borgarfirði þann 1. maí 1964 og var að búa sig undir að yfirgefa staðinn. Hlátrasköll, faðmlög og gleði, en þó var viss tregi yfir. Hér var kveðjustund hjá útskriftarbekk Samvinnuskólans að Bifröst það árið. Að baki var tveggja vetra samvera á heimavist skólans, nánd, glaðværð og auðvitað sjálft námið. Öll vorum við ólík sem einstaklingar og komum alls staðar frá af landinu. Samheldnin var engu að síður sterk í hópnum alla tíð og vinarþelið þétt. Og hér kom hann Skagafjörður sterkur og bjartur inn, því Sigmundur Guðmundsson sem nú er kvaddur, fæddur og uppalinn Hofsósssnáði, skein við sólu í þessum hópi. Simmi var hugljúfur og viðfelldinn, alltaf sannur. Mikill og sterkur íþróttamaður, vinsæll félagi, glaðsinna og kíminn. Eftir að sambýli okkar að Bifröst lauk og lífið sjálft var tekið við, leitaðist bekkjarhópurinn við að halda tengslunum, fylgjast hvert með öðru og hittast þá aðstæður leyfðu. Það verður því skarð fyrir skildi þegar bekkurinn okkar hittist á komandi vori til að minnast 60 ára útskriftar frá skólanum.

Erindi þessa pistils hér, er hins vegar að tjá fallega og bjarta minningu sem við eigum um þennan góða dreng. Enn frekar viljum við bekkjarsystkinin úr Samvinnuskólanum að Bifröst 1962 til 1964 senda fjölskyldu Simma innilegustu hluttekningar- og samúðarkveðjur.

Minninguna eigum við áfram.

Haukur Haraldsson.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson frá Grímsstöðum)

Elsku Simmi, þín er sárt saknað en það er huggun harmi gegn að við vitum að nú líður þér vel í sumarlandinu. Ég vil þakka fyrir vináttu og góð kynni, það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þér og verða þér samferða um stund.

Það hefur líka verið dásamlegt að verða vitni að og fá að upplifa hversu yndislega og samheldna fjölskyldu þið Amý hafið skapað. Þið hjónin hafið alltaf verið einstakar fyrirmyndir fyrir okkur öll.

Elsku Amý mín, þinn missir er mestur og ég votta þér innilega samúð mína. Við látum minninguna um góðan mann ylja okkur um hjartarætur og þú mátt vita að hugur okkar allra er hjá þér á þessari stundu.

Simmi, þín verður ávallt sárt saknað en þú lifir áfram í strákunum þínum og afkomendum.

Þín

Halla Björg.

Fallinn er frá kær vinur og golffélagi til áratuga. Sigmundur Guðmundsson eða Simmi í bankanum eins og hann var gjarnan nefndur hér á Krók var einn af þeim sem stóðu fyrir endurreisn Golfklúbbs Skagafjarðar. Fyrst var spilað við frumstæðar aðstæður niðri við Tjarnartjörn og síðar uppi í Skarði. Þar var hann öflugur í vinnu við að koma upp aðstöðu til golfiðkunar. Síðar kom að vinnu við uppbyggingu á Hlíðarendavelli þar sem Simmi lá ekki á liði sínu og mætti í sjálfboðavinnu þegar hann mögulega gat.

Simmi var ákaflega dagfarsprúður maður, kastaði ekki rýrð á nokkurn mann en var þó ákveðinn og fastur fyrir. Hann var virkilega góður félagi, skemmtilegur og lúmskt gamansamur. Ekki er hægt að minnast Simma án þess að nefna hversu mikill Hofsósingur hann var. Gott útsýni er frá golfvellinum yfir í Hofsós og hafði hann oft á orði að sólin skini þar meira en annars staðar í Skagafirði.

Mörg undanfarin ár, jafnt sumar sem vetur, höfum við félagarnir spilað saman níu holur klukkan eitt ef veður hefur leyft. Oftar en ekki var skipt í lið og hart barist. Nú er skarð fyrir skildi þar sem Simma vantar í hollið og verður hans sárt saknað.

Kæra Amí og synir, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Megi minning um góðan dreng og félaga lifa.

Sigurgeir, Steinar,
Haraldur, Reynir,
Guðmundur, Guðmundur Þór og aðrir spilafélagar.