Jónína Ingólfsdóttir fæddist í Reykjavík 12. mars 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 19. október 2023.

Foreldrar hennar voru Ingólfur Matthíasson loftskeytamaður, f. 15. september 1903, d. 18. júní 1950, og Unnur Sigríður Einarsdóttir húsmóðir, f. 6. ágúst 1904, d. 23.febrúar 1976. Jónína var elst þriggja systkina. Bróðir hennar Jóhannes, f. 1933, d. 1995, var giftur Gyðu Ásdísi, f. 1935, d. 2002. Börn þeirra eru fjögur. Yngri bróðir Jónínu er Einar Jónas, f. 1935, giftur Arndísi Ingunni, f. 1939. Börn þeirra eru þrjú.

Hinn 3. október 1953 gekk Jónína í hjónaband með Sigurjóni Kristinssyni, f. 18. júlí 1922, d. 9. desember 2007. Foreldrar hans voru Kristinn Jónsson, f. 29. nóvember 1898, d. 8. júní 1946, og Ágústa Arnbjörnsdóttir, f. 11. ágúst 1899 d. 24. maí 1989. Börn Jónínu og Sigurjóns eru: 1) Kristinn Ingi, f. 9. ágúst 1956, kvæntur Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 9. mars 1955. Börn þeirra eru: a) Jónína Kristrún, f. 9. febrúar 1973, gift Halldóri Magnússyni, f. 1971. Jónína á Alexander Inga, f. 1990, með Kristjáni G. Ríkharðssyni, f. 1971. Alexander á synina Patrik Mána, f. 2014, og Kristján Darra, f. 2017, með Aniku Halldórsdóttur. Alexander er í sambúð með Jónu Kristínu Lúthersdóttur, f. 1990, og eiga þau soninn Aron Inga, f. 2022. Sonur Jónu er Adrian, f. 2014. Börn Jónínu Kristrúnar og Halldórs eru Magnús Ingi, f. 2006, og Sigrún Ísabel, f. 2011. Dætur Halldórs eru Anika, f. 1992, og Hrefna Dís, f. 1993. b) Kristinn Sigurjón, f. 10. febrúar 1985, kvæntur Guðrúnu Lísu Einarsdóttur, f. 1985. Þau eiga dæturnar Efemíu Rós, f. 2015, og Indíru Sól, f. 2019. 2) Unnur Ágústa, f. 27. júlí 1963, gift Ragnari Sæ Ragnarssyni, f. 3. ágúst 1961. Börn þeirra eru: a) Katrín, f. 24. apríl 1991. Hún á dótturina Júlí Nótt, f. 2022, með Sverri Örvari Elefsen, f. 1998. b) Gunnar Freyr, f. 18. október 2000.

Jónína fæddist í Reykjavík og ólst upp í fjölskylduhúsinu á Nýlendugötu 18. Árið 1942 flutti fjölskyldan í Gufunes þar sem Ingólfur faðir hennar var stöðvarstjóri til 1950 er hann lést og þá flutti Jónína aftur til Reykjavíkur með móður sinni og bræðrum. Jónína gekk í Miðbæjarskólann og síðar Ingimarsskólann við Lindargötu. Hún byrjaði ung að starfa við fjarskiptastöðina í Gufunesi og síðar á Ritsímanum í Reykjavík. Hún settist á skólabekk aftur um miðjan aldur og lauk símritaranámi. Hún starfaði ötullega í Oddfellowreglunni allt fram á síðustu ár, var yfirmeistari í Rebekkustúkunni Bergþóru og tók síðar þátt í stofnun nýrrar Rebekkustúku í Hafnarfirði, Barböru. Jónína var ern og minnug og mundi vel eftir því þegar stríðið byrjaði og breskur her gekk á land í Reykjavík 1940. Hún las ógrynni bóka bæði á íslensku og erlendum tungumálum. Hún naut þess einnig að ferðast. Jónína átti auðvelt með að tileinka sér nýjungar og hin síðari ár fylgdist hún með vinum og fjölskyldunni á fésbókinni.

Útför Jónínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 2. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku besta tengdamamma.

Jónína, amma Ninna, kvaddi okkur aðfaranótt fimmtudagsins 19. október sl. og er nú komin yfir í Sumarlandið. Það er gott að vita af henni á góðum stað hjá Sigurjóni tengdapabba.

Jónína tók vel á móti mér frá fyrsta degi. Við vorum miklir vinir og æ síðan hefur varla liðið sú vika í tæp 40 ár að við höfum ekki hist, spjallað, spilað, borðað saman og upplifað skemmtilega daga.

Eftir að Jónína flutti í Einholt fyrir sjö árum bjuggum við í sama stigagangi. Það var frábær og farsæl hugmynd. Samskiptin urðu þá meira upp á hvern dag eða oft í viku sem skapaði enn frekari samgang og samskipti, börnum mínum til mikillar gleði, ekki síst Gunnari Frey, sem varð hennar helsti bandamaður og bílstjóri.

Gunnar sá einnig um að tengja ömmu sína töfrum tækninnar til að viðhalda samskiptum við vini og vandamenn.

Katrín dóttir mín og Ninna voru alltaf mjög nánar, eins og góðar vinkonur, þar sem spil og skrafl varð vikulegur leikur. Krossgátur, þekking og reynsla við að finna og beygja orð gerði hana að meistara leiksins.

Þegar Júlí Nótt kom í heiminn fyrir sextán mánuðum urðu til ný samskipti full af gleði, þrátt fyrir 93 ára aldursmun.

Minningarnar munu lifa áfram.

Jónína var ræðin, fróð, hress og jákvæð með eindæmum. Óbrigðult minni hennar á gamla tíma jafnt sem samtímann varð okkur yngra fólkinu fyrirmynd.

Fækkar nú óðum þeim sem upplifðu og sáu með eigin augum breska herinn stíga á land 1940, eða mættu á opnunardag Sundhallarinnar fyrir 86 árum og fleira mætti upp telja. Þegar Gunnar Freyr gerði stuttmynd um bernskuár og uppvöxt Jónínu fyrir nokkrum árum kom margt óvænt fram.

Ritsímamærin Jónína hafði sína þekkingu, s.s. góða tungumálakunnáttu, frá vinnutengdum verkefnum. Að þurfa daglangt að senda erlend skeyti samin á enska tungu var henni eðlislægt sem og lestur bæði íslenskra og erlendra bóka.

Ég votta syni hennar og tengdadóttur, Didda og Sigrúnu, dóttur hennar og eiginkonu minni Unni Ágústu, börnum þeirra, Jónínu Kristrúnu, Kristni Sigurjóni og Katrínu og Gunnari Frey og fjölskyldum innilega samúð.

Ragnar Sær
Ragnarsson.

Ég hef alltaf mikil ömmustelpa og eyddi miklum tíma hjá ömmu og afa þegar ég var lítil. Við vorum alltaf góðar vinkonur og ég lærði svo mikið af ömmu minni og við fundum alltaf eitthvað skemmtilegt að gera.

Amma kenndi mér scrabble þegar ég var fimm ára. Einnig að spila kasjon og gátum við spilað það tímunum saman!

Ég man hvað ég elskaði að fá að róta í kjólunum hennar ömmu og fá svo að halda danssýningar fyrir hana og afa.

Síðustu sjö árin bjó amma á stigaganginum fyrir ofan okkur sem mér þótti svo vænt um. Hún gat alltaf kíkt niður til okkar í mat eða við upp til hennar í spil og spjall.

Ég man hvað amma var glöð þegar dóttir mín Júlí Nótt, nýjasta langömmubarnið hennar, kom í heiminn. Það var dásamlegt að sjá hvernig það birti alltaf yfir ömmu þegar við kíktum til hennar.

Ég mun sakna þín mikið, að hafa þig ekki hjá okkur á jólunum, að spila scrabble, knúsa þig og hlæja með þér, það verður ekki eins án þín, elsku amma Ninna.

Katrín
Ragnarsdóttir.

Hún vinkona mín og samstarfskona er farin inn í Sumarlandið. Þegar ég segi vinkona þá var hún vinnufélagi og vinkona okkar allra sem vorum á Ritsímanum. Það var ekki ónýtt að hafa slíkan viskubrunn til að leita til með réttritun og ýmislegt varðandi vinnuna.

Þegar ég kom á Ritsímann alveg blaut á bak við eyrun þá var þar fyrir fullorðið fólk sem var reyndar við það að hætta, en þá var Ninna á besta aldri og hvað ég leit upp til þessarar konu og þótti vænt um hana, alltaf vel klædd, alltaf eins við alla, vandvirk og vinnusöm. Mér dettur í hug kvennafrídagurinn 1975 þegar við stormuðum úr vinnunni í Landssímahúsinu og á Austurvöll, en ein fór ekki og það var Ninna.

Þannig var að mágur hennar og eiginmaður voru með bókaútgáfu og hún las fyrir þá bækur sem áttu að vera þess virði að þýða.

Það var ómetanlegt að hafa Ninnu með í helgarferðum til útlanda af því að þar var hún virkilega á heimavelli, a.m.k. í Edinborg þar sem hún gat heilsað upp á öll konungamálverkin, og ensku söguna kunnu hún utan að, við þurftum engan annan leiðsögumann í slíkum ferðum

Hún tók alveg virkan þátt þegar við fórum út að borða og héldum partí, þar var hún hrókur alls fagnaðar.

Það var gaman að sögunum hennar, man eftir því þegar hún var að segja frá að hún var með þeim fyrstu sem fengu Barbídúkku, kann ekki að fara með hver gaf henni, gæti verið að pabbi hennar hafi komið með hana frá útlöndum.

Ég þekki engan annan sem er 94 ára og tekur fullan þátt í Facebook, þannig héldum við Ninna sambandi síðustu árin, hún fylgdist með mínu fólki og ég með hennar.

Ég vil þakka henni fyrir samveruna og vinskapinn og sendi öllu hennar fólki samúðarkveðjur, blessuð sé minningin um Jónínu Ingólfsdóttur.

Ragnhildur
Valgeirsdóttir.