Fiskiveisla Íslendingar eru sjávarútvegsþjóð og því er miður að við borðum fisk ekki í meira mæli en raunin er. Hér þarf að gera betur og auka sýnileikann, segir Kolbrún Sveindóttir, sérfræðingur hjá Matís, hér í viðtalinu.
Fiskiveisla Íslendingar eru sjávarútvegsþjóð og því er miður að við borðum fisk ekki í meira mæli en raunin er. Hér þarf að gera betur og auka sýnileikann, segir Kolbrún Sveindóttir, sérfræðingur hjá Matís, hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fólk ætti að borða meira af fiski, þó ekki sé nema vegna hollustu,“ segir Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís. Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2023, sem haldin er nú í vikunni, flytur Kolbrún erindi sem ber yfirskriftina Þróun, áhrif og ímynd fiskneyslu. Titillinn segir allt um efnið sem flutt er á málstofu þar sem markaðsmál sjávarafurða verða í brennidepli. Vitað er og staðfest að mikilvægi góðrar ímyndar sjávarafurða hefur aukist síðustu ár, þar sem neytendur vilja upplýsingar um vöruna sem þeir kaupa. Hollusta og umhverfisáhrif eru stórir þættir þegar fólk ákveður hvað vera skuli í matinn á heimili sínu eða velur á veitingastöðum. Allt þarf að vera á hreinu og að því leyti er staða íslenskra sjávarafurða sterk.

„Ímynd íslensks fisk ætti að vera sterk, meðal annars þegar litið er til þess að óæskileg efni eru langt undir viðmiðum. Slíkt finnst stundum í fiski sem veiddur er á fjarlægari miðum. Þá er nýting fiskistofna við Ísland sjálfbær og kolefnisspor fisksins er lágt í samanburði við kjöt. Samanburðurinn er einnig hliðhollur fiski þegar horft er á verð. Því segi ég að hver Íslendingur ætti að borða fisk sem aðalmáltíð dagsins tvisvar til þrisvar í viku, enda er slíkt í samræmi við þær ráðleggingar,“ segir Kolbrún.

Æskileg prótein og steinefni

Hjá Matís er meðal annars unnið að fjölbreyttum þróunar- og vísindaverkefnum í tengslum við matvælaframleiðslu. Leiðarstefið er aukin verðmætasköpun og góð nýting alls hráefnis. Verkefni á þessum nótum hafa lengi verið á borðum Kolbrúnar. Má þar nefna að þegar hún aflaði sér meistaraprófs í matvælafræði var lokaverkið að þróa mælistiku á ferskleika lax. Skynmat á þorski og viðhorf fólks til neyslu á þeim gula var inntakið í doktorsverkefni hennar.

„Íslendingar vilja fisk en neysla dregst saman. Nýjustu kannanir segja okkur að fæstir landsmenn borði fisk tvisvar í viku; og sérstaklega vekur athygli að fiskneysla ungmenna er lítil. Eins borða konur áberandi minna af fiski en karlar,“ segir Kolbrún.

Á heimilum sem og í mötuneytum skóla og vinnustaða er alsiða að fiskur sé aðalrétturinn á mánudögum. Slíkt þykir þá gjarnan ágæt tilbreyting, eftir að fólk hefur heima verið með kjötmáltíðir yfir helgina. En fiskur þarf síður en svo að vera „mánudagsmatur“ í neikvæðri merkingu þess orðs. Hið allra einfaldasta er soðning með kartöflum, en möguleikarnir í matargerðinni eru nánast óteljandi. Sé fiskurinn brakandi ferskur er þetta eitt hið allra besta.

„Ferskleiki og bragð skiptir neytendur máli. Einnig að úr fiskinum fást prótein og steinefni. Feitur fiskur eins og til dæmis lax og bleikja inniheldur D-vítamín og langar omega-3 fitusýrur. Þá má líka nefna að fiskur er mikilvægur fyrir inntöku á joði en skortur á því meðal kvenna á barneignaraldri, er áhyggjuefni,“ segir Kolbrún.

Útvatna og ofelda ekki

Til þess að auka fiskneyslu, eins og æskilegt er, segir Kolbrún mikilvægt að ná samtali til dæmis við matreiðslumenn í stórum mötuneytum, sem og þeirra sem selja fiskinn. Einnig þurfi fiskur í verslunum að vera jafn áberandi í framsetningu og kjötvara.

„Íslendingar eru sjávarútvegsþjóð og því er miður að við borðum fisk ekki í meira mæli en raunin er. Hér þarf að gera betur og auka sýnileika. Kynna betur möguleikana. Annars má segja að ef fólk gúgglar orð eins og til dæmis fiskréttur kemur ótrúlega margt upp; í raun fiskiveisla í öllum sínum fjölbreytileika. Heimasíðan fiskimatinn.is er bæði fjölbreytt og áhugaverð og margar fleiri efnisveitur mætti tiltaka. Og síðan má líka minna á ýmis húsráð í eldamennsku, til dæmis að ofelda ekki fisk og að saltfisk þarf alltaf að útvatna. Milt saltbragð gerir fiskinn góðan en brimsaltur fiskur er nánast óætur. Víða þykir vel útvatnaður íslenskur saltfiskur eitt það besta sem býðst.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson