Hrefna Ólafsdóttir fæddist á Strandgötu 43 í Hafnarfirði 5. maí 1943. Hún lést á dvalarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði 10. október 2023.

Foreldrar hennar voru Dagbjört Guðjónsdóttir, f. 9. júlí 1920, d. 8. júlí 2014, og Howard M. Tippie, f. 3. febrúar 1920, d. 5. júlí 1995. Kjörfaðir Hrefnu var Ólafur Ólafsson, f. 29. júlí 1921, d. 25. október 1992.

Systkini Hrefnu sammæðra eru Lilja Ólafsdóttir, f. 1950, Guðjón Ólafsson, f. 1955, María Gréta Ólafsdóttir, f. 1956, og stjúpbróðir Hrefnu er Gísli Ólafsson, f. 1947.

Systkini Hrefnu samfeðra eru Dennis Howard Tippie, f. 1946, Pamella Lou Tippie, f. 1950, Charles Roy Tippie, f. 1953, og Scott Allan Tippie, f. 22. júní 1955, d. 23. nóvember 1972.

Hrefna giftist 17. apríl 1965 Bjarna Þráinssyni, f. 1938, frá Húsavík. Foreldrar hans voru hjónin María Steingrímsdóttir, f. 16. júlí 1904, d. 13. janúar 1987, og Þráinn Maríusson, f. 27. apríl 1902, d. 6. desember 1965. Börn Hrefnu og Bjarna eru: 1) Dagbjört, f. 17. júní 1963, maki Erlingur Birgir Kjartansson, börn þeirra eru Ísak, f. 22. júlí 1987, Aron, f. 21. október 1991, maki Kamila Kobic, og Enok, f. 17. febrúar 1998. 2) Þráinn Farestveit, f. 27. nóvember 1964, maki Ólöf Ásta Farestveit, börn þeirra eru Bjarni Farestveit, f. 6. nóvember 1990, maki Selma Gestsdóttir, sonur þeirra er Grétar Ingi Farestveit, f. 2021, og dóttir Bjarna úr fyrri sambúð er Fjóla Sif Farestveit, f. 2009. Dröfn Farestveit, f. 24. september 1996, maki Dagur Örn Hilmarsson, sonur þeirra er Dofri Hrafn Farestveit, f. 2023. 3) Guðrún Bjarnadóttir, f. 27. maí 1973, maki Hannes Pétursson, börn þeirra eru Fannar Logi, f. 17. október 2001, Birta Líf, f. 27. júlí 2003, og Hrefna Lind, f. 2. apríl 2005.

Hrefna ólst lengst af upp á Ölduslóð 8 í Hafnarfirði þar sem þrjár kynslóðir bjuggu saman og tvær systur móður hennar á Ölduslóð 6, en mikill samgangur og stuðningur var í nábýli stórfjölskyldunnar. Skólaganga hennar hófst í Barnaskóla Hafnarfjarðar við lækinn og síðar lá leið hennar í Flensborgarskóla. Hrefna og Bjarni felldu hug saman árið 1960 en samband þeirra einkenndist af virðingu, ást og trausti sem hélt sterkum böndum allt fram á síðasta dag. Hrefna var einstaklega laghent og nákvæm frá barnsaldri, allt virtist leika í höndum hennar og var hún listfeng með eindæmum. Hrefna starfaði sem dagmóðir um tíma, vann um árabil hjá Hval hf, en lengst af starfaði hún sem félagsliði á Hrafnistu í Hafnarfirði eða í 32 ár. Fríkirkjan í Hafnarfirði var Hrefnu hugleikin, sá hún um minningar- og styrktarsjóð Guðjóns Magnússonar og Guðrúnar Einarsdóttur í Fríkirkjunni um áratuga skeið. Hrefna var mjög virk í starfi kvenfélags Fríkirkjunnar.

Útför Hrefnu fer fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 15.

Elsku mamma, í dag ertu frjáls. Það er með mikilli sorg og djúpum söknuði sem ég kveð þig, elsku mamma. Það sem ekki var á þig lagt, sem barn og síðar sem fullorðna. Sorgir og þrautir sem þú varðst að þola síðastliðin 13 ár og allt til síðasta andardráttar voru ótrúlegar. Þetta var sjúkdómur sem lengst af hafði ekkert nafn, óvæginn og grimmur.

Sem barni og sem fullorðinni var þér falið að bera með sjálfri þér leyndarmál sem var þó á allra vörum. Hjúpur leyndarhyggjunnar samofinn skömm vafði þig fjötrum sem þó voru ekki þínir heldur annarra. Að alast upp vitandi það að þú áttir þér annað nafn sem að hluta til var tekið af þér og annað óþekkt foreldri hefur án nokkurs vafa haft mikil og djúpstæð áhrif á þig allt þitt líf. Hernámið dró á sínum tíma fram það versta í samfélagi manna, sérstaklega þegar rætt var um svokölluð ástandsbörn og mæður þeirra, fordæmingin var alger og óvægin. Þú fékkst svo sannarlega að finna fyrir því á eigin skinni.

Samtöl okkar varðandi þessi mál voru mörg en svörin létu þó á sér standa. Mörgum spurningum verður því miður aldrei svarað. Þann 4. júlí árið 1993 dró þó til tíðinda með þeim hætti að tímaglasinu var snúið við og þú náðir að fá svör við mörgum þeim spurningum sem á þér höfðu hvílt frá barnsaldri, hittir pabba þinn og fjölskyldu hans. Í einni svipan eignaðist þú fjögur systkini og nýja sögu. Það var alltaf svo gaman að fylgjast með því hversu stolt þú varst af þessum nýju tímum, nýrri framtíð. Eins og alltaf fórst þú fram með fallega brosið, dugnaðinn og bjartsýnina að vopni. Lagðir mikið á þig til að læra tungumál nýrra tengsla og varðst bæði talandi og skrifandi á ensku á met tíma.

Pabbi kom inn í líf þitt árið 1960 og fjölskyldan hóf sína vegferð, Garðstígur, Arnarhraun og Heiðvangur urðu okkar heimili. Ferðalög voru ríkur og fastur liður í lífi fjölskyldunnar, við ferðuðumst um allt land og lengst af var Húsafell okkar heimili á sumrin, þvílíkt ævintýri sem það var. Allar ferðirnar norður á Húsavík, Ásbyrgi og Mývatn eru eftirminnilegar.

Nákvæmni og fágun var þér svo eðlislæg. Þú varst lausnamiðuð með eindæmum og mikil sköpunargleði einkenndi þig alltaf. Heimili ykkar pabba bar þess alltaf merki og þú lagðir alltaf til aðeins „auka“ í allt. Hjálpsemi og dugnaður voru einkennandi fyrir þig og þú lagðir öðrum til ótakmarkaðan tíma við bakstur, skreytingar, prjóna- og saumaskap. Hruni í Þjórsárdal var ykkar annað heimili til margra ára á sumrin eða allt þar til þú hafðir ekki lengur getu til að ferðast vegna sjúkdómsins PSP (progressive supranuclear palsy) sem á endanum bar þig ofurliði eftir 13 ára baráttu.

Elsku mamma, þú tókst á við sjúkdóminn af miklu æðruleysi. Ást þín, umhyggja og dugnaður áttu sér nánast engin takmörk og alltaf var stutt í glettni og fallega brosið þitt allt fram á síðustu stundu. Elsku mamma, nú ertu komin á þann stað sem okkar allra bíður, þar er án efa stór hópur sem tekur þér Gloría Jean Hrefna fagnandi, hlátur, glens og gaman.

Í dag ertu í ljósinu.

Þinn sonur,

Þráinn.

Elsku dásamlega mamma mín.

Ég trúi því vart að þú sért farin, lífið verður ekki eins án þín en ég veit að þú varst hvíldinni fegin er hún loksins kom. Allar fallegu minningarnar hrannast upp og eru svo ótrúlega dýrmætar fyrir okkur sem eftir erum. Minningar um þig sem varst alltaf til staðar hvort sem var til að fagna góðu gengi eða halda þétt utan um mig þegar ekki gekk eins vel. Þú sem hafðir svo óteljandi kosti og bókstaflega allt lék í höndunum á þér, alveg sama hvað það var. Jóladressin voru iðulega heimasaumuð er við systkinin vorum yngri og er ég komst á unglingsárin og apaskinns-jogginggallar urðu hámóðins þá var saumavélin virkjuð; ég átti ekki einn heldur þrjá í mismunandi litum. Lopapeysur eftir þig eru miklir dýrgripir og nú dýrmætari en nokkru sinni. Lengi vel gerði ég grín að því að lítið hefði ég erft af hæfileikum þínum því ég gæti ekki bjargað lífi mínu með prjóna- eða saumaskap, en líklega hef ég nú fengið smá af handlagni þinni því annars hefði ég aldrei getað unnið við fínhreyfingar snyrtifræðingsins í öll þessi ár. Þú varst ofurnákvæm og á heimilinu fékkstu viðurnefnið Milla því það fór ekkert frá þér nema fullkomlega frágengið. Pabbi lærði fljótt að ekkert yrði gert nema þú værir búin að leggja blessun þína yfir verkið og mælistokkinn.

Þegar börn okkar Hannesar komu svo í heiminn þá voru þau nú heldur betur dekruð í ömmu- og afahúsum. Minningarnar ylja svo mikið og það er stórkostlegt að heyra krakkana ræða saman um þig og afa sem alltaf tókuð þeim fagnandi. Það sem þú brasaðir og dekraðir við þau er þau komu labbandi á bakkann eftir skóla. Svo mikið var nostrið að ég þurfti að minnast á að það þyrftu nú kannski ekki að vera vöfflur og rjómi á hverjum einasta degi. Það var ekki að spyrja að því, þú snaraðir þér þá bara í það að skera listilega niður alls kyns ávexti í litlar sætar skálar og svo sátu systkinin með tannstöngla og veiddu upp í sig. Ljúfar minningar um dásamlegar gæðastundir sem ömmu- og afabörnin áttu með ykkur og verða varðveittar um alla tíð.

Síðustu tvö ár í fjarlægð hafa verið mér erfið en við áttum samt yndislegar stundir hvert sumar og um jól. Ég fékk alltaf risastórt bros og þumalinn upp þegar ég spurði þig hvernig þér litist á að við værum að upplifa drauminn okkar – að búa og lifa í Ameríkunni stóru þar sem pabbi þinn var fæddur; Ameríkunni þar sem þú áttir uppruna þinn og þar sem þig langaði til að prófa að búa og vinna um árið. Já, ég er svo handviss um að þú ert búin að vera með mér í öllu þessu ævintýri og ég fann fyrir stoltinu þegar ég sagði þér frá því hvernig barnabörnin blómstra og dafna í landinu þar sem rætur þínar liggja.

Elsku mamma, ég er þakklát fyrir svo margt og það sem ekki kemst fyrir hér geymi ég í hjarta mínu. Ég veit að þú ert komin á góðan stað og ég sé þig fyrir mér með rjúkandi kaffibolla í hendi þar sem þú getur loksins tjáð þig með orðum á ný og spjallað um alla heima og geima. Ég veit að þú ert áfram með okkur og vakir yfir okkur öllum sem elskum þig svo heitt.

Þín dóttir,

Guðrún.

Það var erfitt að horfa upp á mömmu veikjast aðeins 67 ára gamla, eins hraust, dugleg og klár sem hún var, í mínum augum gat hún allt og var mín fyrirmynd. Að þurfa að hugsa um og horfa upp á hana koðna niður í 13 ár þangað til ekkert var eftir var mjög erfitt, sárt og ósanngjarnt fyrir okkur pabba og systkinin, en nú ertu loksins búin að fá hvíldina elsku mamma mín.

Þú ert gull og gersemi

góða besta mamma mín.

Dyggðir þínar dásami

eilíflega dóttir þín.

Vandvirkni og vinnusemi

væntumþykja úr augum skín,

hugrekki og hugulsemi

og huggun þegar hún er brýn.

Þrautseigja og þolinmæði

kostir sem að prýða þig.

Bjölluhlátur, birtuljómi,

barlóm lætur eiga sig.

Trygglynd, trú, já algjört æði.

Takk fyrir að eiga mig.

Elska þig!

Þín

Dagbjört.

Hrefna tengdamóðir mín og amma okkar var einstök kona. Henni var margt til lista lagt en ekkert hlutverk leysti hún betur af hendi en ömmuhlutverkið. Hún var amma af gamla skólanum.

Amma elskaði að hafa fólkið sitt í kringum sig og á sunnudögum var lærið sett í ofninn með grænum baunum og máltíðin fullkomnuð með ís, niðursoðnum ávöxtum og rjóma.

Hrefna var virkur þátttakandi í lífi barnabarna sinna, mætti á íþróttaviðburði og hjálpaði til við að brúa bilið milli skóla og íþrótta. Það brögðuðust engir ávextir eins vel og þeir sem amma var búin að skera niður í box í fullkomnum bitum, ekkert hýði á eplunum og safinn af appelsínunum gerði heildarbragðið himneskt. Það voru líka alltaf til vöfflur og rjómi í ísskápnum, hún var ávallt tilbúin til að setja upp veislu á nokkrum mínútum skyldi einhver kíkja í heimsókn. Amma naut þess að sitja í eldhúskróknum á Heiðvanginum og rekja ættir að hafnfirskum sið og þýddi þá ekkert að fara með neitt fleipur því hún mundi öll nöfn og ártöl og leiðrétti stundum Bjarna sinn ef hann fór ekki með rétt mál.

Að vakna með smá særindi í hálsinum eða með nokkrar kommur var eins og að detta í lukkupottinn. Þegar mamma og pabbi voru búin að kveða upp dóminn að ekki ætti að fara í skólann var alltaf fyrsta spurningin: má ég fara til ömmu og afa? Þar fengum við óskipta athygli, hún kenndi okkur að baka, leggja kapal og prjóna svo eitthvað sé nefnt.

Amma elskaði útiveru og voru þau afi dugleg að ferðast víða um landið en síðustu árin voru þau með hjólhýsi við Þjórsárver í Árnesi sem þau kölluðu Hruna. Þangað komum við oft og á meðan Fannar og Birta fóru í skipulagðar sumarbúðir fékk nafna hennar Hrefna að koma í sumarbúðir í Hruna. Minningarnar frá þeim tíma eru óendanlegar og ef eitthvað var toppaði upplifun systkina hennar.

Amma elskaði að vera í kringum fólk og fólk elskaði að vera í kringum hana, það var því mikið tekið frá henni þegar hún hætti að geta tjáð sig með tali síðustu árin.

Það sýndi sig í gegnum veikindin hvað hún átti góða að, það var alltaf gestkvæmt hjá henni á Hrafnistu og hún naut þess þrátt fyrir að geta ekki verið fullur þátttakandi í samræðunum, hennar styrkur var að hlusta. Hún sýndi mikla auðmýkt og æðruleysi í veikindunum. Aldrei heyrðum við hana kvarta eða sýna merki um uppgjöf og hún hélt áfram að gefa af sér fram á síðasta dag, naut þess að hlusta og gaf til baka með fallega brosinu sínu.

Við lærðum svo mikið af ömmu og hún er okkar stóra fyrirmynd í lífinu. Söknuðurinn er mikill, sögurnar, minningarnar og allt sem hún hefur kennt okkur lifir áfram og hún á stóran stað í hjarta okkar. Síðustu daga höfum við eldað ömmumat, rifjað upp skemmtilegar sögur og bakað vöfflur með sultu og miklum rjóma sem við munum halda áfram að gera því minningarnar eru margar og allt sem hún hefur kennt okkur mun lifa áfram með okkur.

Hannes, Fannar,
Birta og Hrefna.

Í dag kveð ég tengdamóður mína til 35 ára. Það er með miklum söknuði og sorg sem ég sest niður og skrifa þessar línur. Það sem einkenndi Hrefnu einna helst var brosið hennar sem hún var óspör á. Ég man svo vel eftir því þegar ég hitti hana fyrst, þá tók hún mér opnum örmum. Ég fann það svo sannarlega að ég var ávallt velkomin inn á heimili tengdaforeldra minna. Þangað var alltaf gott að koma. Hrefna dreif á borðið heimabakaðar kökur, kaffi og ýmislegt tilheyrandi og mátti í raun ekki heyra á það minnst ef ég vildi ekki þiggja eitthvað. Hún var ein af þessum einstöku konum, kona sem var alltaf eitthvað að starfa innan heimilis eða utan þess. Hún staldraði sjaldan við eða hafði dauðan tíma. Ég var einstaklega heppin með tengdamóður, hefði aldrei getað hugsað mér betri tengdamömmu.

Hrefna var einstakur fagurkeri og svo ótrúlega nákvæm í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Á heimili hennar hafði allt ákveðinn stað og var stillt upp af mikilli nákvæmni. Þetta var eitt af því sem hún kenndi mér, að nákvæmni skipti miklu máli. Mér er einstaklega minnisstætt þegar við vorum að baka randalínur og það var mitt fyrsta skipti, þá var stærðin og þykktin mæld vel og hún útskýrði fyrir mér hvers vegna það væri svona mikilvægt. Það tókst ekki alveg jafn vel hjá mér en þá sá ég að minnsti mögulegi breytileiki breytti allri kökunni. Hennar voru alltaf eins og út úr búð, slík var nákvæmnin. Allar hennar jólasmákökur voru jafn stórar. Hún var einstök hvað þetta varðar og það sama var að segja um garðinn hennar. Hún ræktaði öll sín sumarblóm sjálf, kenndi mér að sá og gróðursetja. Allt eftir kúnstarinnar reglum enda fékk hún verðlaun fyrir garðinn sinn sem var ótrúlega fallegur á sumrin innan um allt hraungrjótið í Hafnarfirði.

Það var ekki bara fagurkerinn Hrefna sem ég kynntist svo vel, heldur var hún einstaklega jákvæð persóna að eðlisfari, hugulsöm og þolinmóð. Það var ekkert vandamál í hennar huga. Hún var alltaf tilbúin til þess að aðstoða og leiðbeina jafnvel þó svo að hún hefði nóg að gera. Kenndi mér að prjóna meðal annars en þegar kom að slátrinu þá reyndi ég, en ég var ekki alveg tilbúin í að læra það, þá hló hún að mér á góðlátlegan hátt og svo var nú ekki meira um það. Hún færði okkur bara sláturkeppina næstu árin.

Það er erfitt að hugsa til þess að hún sé ekki á meðal okkar lengur. Það var sárt að horfa upp á þessa flottu athafnakonu missa smám saman getuna til að taka þátt í samræðunum á milli fólks því þar hafði hún ávallt verið hrókur alls fagnaðar. Við sáum að hún var alltaf með okkur í samræðum og hugsaði skýrt en gat ekki tjáð sig, það var sárt.

Elsku tengdamamma mín, það er svo ótrúlega sárt að kveðja þig og ég held að ég sé ekki enn búin að átta mig til fulls á því að þú sért farin. Við munum halda minningum þínum á lofti og segja langömmubörnunum frá þér og leyfa þeim að kynnast þér í gegnum okkur.

Hvíldu í friði.

Þín tengdadóttir,

Ólöf Ásta.

Elsku amma, við eigum erfitt með að trúa því að þú sért farin. Þú tókst á við veikindi þín af hugrekki og ávallt með bros á vör, þrautseigjan og styrkur þinn í gegnum þetta allt hefur kennt okkur svo margt. Við munum ætíð minnast þín með bros á vör og hugsa til allra skemmtilegu stundanna sem við áttum saman. Sumar dagarnir úti í garði á Heiðvangi þar sem þú ræktaðir öll fallegu blómin þín og grænmetið og þú leyfðir okkur alltaf að borða á okkur gat af gómsætu jarðarberjunum og grænmetinu sem þú ræktaðir. Garðurinn þinn var ævintýraland þar sem við eyddum ófáum stundum saman. Þú tókst alltaf á móti okkur opnum örmum og dekraðir við okkur með ískúlu í kramarhúsi og svo má ekki gleyma að við fengum alltaf að laumast í kexkrukkuna þína í eldhúsinu. Það var alltaf svo fallegt og bjart heima hjá þér og afa og okkur leið alltaf svo vel að koma í heimsókn. Þú lagði einnig mikið upp úr veislum og varst eins og þeytispjald inn og út úr eldhúsinu meðan á veislunum stóð. Amma þú varst svo ævintýragjörn og það var alltaf svo gaman að vera í kringum þig, allar bústaðar- og skíðaferðirnar voru eitt stórt ævintýri svo og Andrésar Andar-leikarnir með þér og afa. En það var fátt sem gladdi þig jafn mikið og þegar langömmubörnin þín, Fjóla Sif, Grétar Ingi og Dofri Hrafn, sem er skírður í höfuðið á þér, komu í heimsókn. Þá sáum við gleðina skína úr andliti þínu um leið og við komum. Við erum svo ótrúlega þakklát að þau fengu að kynnast þér. Þú varst svo einstök elsku amma, brosið þitt og hláturinn þinn mun ávallt lifa í minningum okkar. Söknuðurinn er sár og við munum minnast þín með hlýju. Við vitum að þú ert á betri stað þar sem þú ert að upplifa enn eitt ævintýrið og að þú vakir yfir okkur öllum.

Þín barnabörn,

Dröfn og Bjarni.

Vorið 1993 komu afbrotafræðinemarnir Þráinn og Ólöf Ásta dóttir okkar heim í frí frá Háskólanum í Stokkhólmi. Mikil gleði fylgdi heimkomu þeirra.

Á sunnudagsmorgnum var setið og skrafað. Einn daginn segir Þráinn: „Vitið þið, ég held að afi Óli sé ekki pabbi hennar mömmu. Ég hef alltaf fundið fyrir einhverri þöggun í fjölskyldunni,“ segir hann. „Hefurðu spurt mömmu þína?“ „Já, en þá fer hún bara að tala um eitthvað allt annað. Svo talaði ég við ömmu mína. Þá sagði hún að mamma mín væri dóttir bandarísks hermanns. Meira vildi hún ekki ræða.“ Þetta snart djúpar tilfinningar hjá Þráni. „Hvað geri ég nú?“ spurði hann. „En kirkjubækurnar,“ var sagt, „þær segja oft sögu?“

Nokkrum dögum síðar kom Þráinn heim glaður í bragði. „Ég fór í Þjóðarbókhlöðuna og gamall maður hjálpaði mér að finna þetta.“ Í kirkjubókinni stóð: Dagbjörtu Guðjónsdóttur og Howard M. Tippie frá Oregon í Bandaríkjunum fæddist dóttir 5. maí og hún er skírð Gloria Jean Hrefna Tippie hinn 23. apríl 1944. Tæpum sex árum síðar var svo strikað yfir nafnið Gloria Jean og eftir stóð bara nafnið Hrefna. Þar stóð enn fremur að eiginmaður Dagbjartar Guðjónsdóttur hefði ættleitt stúlkubarnið.

Dagurinn er 4. júlí þegar við flettum upp í alfræðiorðabók og leitum eftir nafni bæjarins í Oregon. Frekar fámennur bær, nokkrar tugþúsundir íbúa. „Hvað gerum við nú?“ spurði Þráinn. Við hringjum í langlínumiðstöðina og biðjum dömurnar að gefa okkur upp nöfn allra í bænum sem bera nafnið Tippie. Stúlkan fletti í skránni og sagði að nokkrir tugir bæru nafnið. Þráinn bað hana að hringja í eitt númer.

Það er svarað strax. „Þekkir þú Howard Tippie?“ spurði Þráinn. „Já, já,“ var svarað, „ég er bróðir hans. Hringirðu frá Íslandi?“ spyr hann. „Howard eignaðist þar stúlku!“

„Er hann á lífi,“ spurði Þráinn. „Já, já, ég er hér með símanúmerið hans.“

Við látum bara slag standa. Þráinn biður um að hringt sé í númerið. Konurödd svarar: „Hello.“ „Halló,“ segir Þráinn, „I am calling from Iceland.“ „O yes,“ svarar konan, „from Ireland?“ „No, from Iceland,“ endurtekur Þráinn og brýnir röddina. „O, from Iceland,“ endurtekur konan.

Þá heyrist hrópað titrandi röddu aftan við konuna: „Gloria, Gloria, my daugther!“

Þetta er 4. júlí, frelsisdagur Bandaríkjanna. Já þessi dagur varð svo sannarlega frelsisdagur Hrefnu. Við þessar fréttir var eins og steini væri létt af hjarta hennar. Nú loks skýrðust tilfinningar hennar, sem hún hafði ekki skilið gegnum árin. Nafnið Gloria Jean hljómaði nú svo kunnuglega í höfði hennar.

Hrefna heimsótti svo föður sinn og fjölskyldu. Þar var henni tekið opnum örmum. Þar fékk hún að vita að faðir hennar og móðir höfðu verið trúlofuð. Mjög skyndilega er svo Howard kallaður í innrásina í Frakkland. Þar særðist hann mjög illa.

Okkar elskulegi tengdasonur Þráinn leysti þessa gátu lítillar stúlku frá stríðsárunum. Mörg börn hér á landi áttu viðlíka sögur.

Við fengum að taka þátt í þessari fallegu sögu og njóta samvista við Hrefnu, þessa yndislegu konu með fallega og hlýja brosið.

Guð blessi þig kæra Hrefna.

Dröfn og Arthur Farestveit.

Nú hefur elskuleg vinkona okkar Hrefna Ólafsdóttir fengið hvíldina. Hún barðist hetjulega við illvígan sjúkdóm í meira en áratug.

Hrefna var elskuleg manneskja, alltaf góð heim að sækja, brosmild, skapgóð, hjálpsöm og góð í öllum samskiptum. Dugleg og rösk til verka og einstaklega skipulögð. Hrefna var fagurkeri og bar heimili hennar glöggan vott um það.

Hrefna er okkur öllum kær, við erum búnar að þekkja hana nánast alla ævi. Við kynntumst nokkrar í Barnaskóla Hafnarfjarðar og svo bættust fleiri vinkonur i hópinn í Flensborg. Ein okkar féll frá fyrir nokkrum árum. Eftir gagnfræðapróf héldum við hópinn og höfum gert það alla tíð síðan.

Þegar við héldum út í lífið við nám og störf var alltaf sterkur þráður á milli okkar. Fljótlega stofnuðum við saumaklúbb og hittumst vikulega til að byrja með. Það var alltaf gaman að hittast í saumaklúbbnum og fá ný tíðindi af hópnum. Fyrstu árin var mikið prjónað og saumað á börnin okkar, við lærðum mikið hver af annarri.

Nokkrar okkar vinkvenna lékum handbolta með FH og gerðum það gott. Urðum Íslandsmeistarar í tvígang með meistaraflokki og skólameistarar nokkrum sinnum. Hrefna var þar mjög lipur leikmaður.

Hrefna átti erlendan föður en hún kynntist honum ekki fyrr en löngu seinna. Syni Hrefnu tókst með fyrirspurnum og símhringingum að hafa uppi á afa sínum. Hrefna og sonur hennar fóru fljótlega eftir það til Ameríku og þar urðu miklir fagnaðarfundir. Faðir hennar var mjög glaður að lifa það að sjá hana en hann lést fljótlega eftir heimsókn þeirra. Komið var á góðum samskiptum milli fjölskyldnanna. Nú á fjölskylda Hrefnu stóra fjölskyldu þarna úti og eru samskiptin góð og heimsóknir milli landa líka. Systkini hennar hafa komið í heimsókn til Íslands tvisvar sinnum.

Við vinkonurnar fórum margar og mjög góðar ferðir til útlanda. Fyrsta ferðin okkar var til Parísar. Hrefna hafði sérstaklega gaman af þessari ferð því þetta var hennar fyrsta utanlandsferð. Hún var fjörug og sérstaklega áhugasöm, ljómaði af gleði, var fróðleiksfús og smitaði út frá sér með fallega brosinu sínu.

Fleiri ferðir voru farnar, þar á meðal til San Francisco. Hrefna var búin að hafa samband við bróður sinn sem býr í Ameríku og mjög ánægjulegt var að hann gat komið að hitta systur sína og verið með henni í smá tíma. Eftir að Hrefna veiktist söknuðum við hennar í saumaklúbbnum og ferðalögum okkar. Við erum allar í sama árgangi svo að á þessu ári erum við að fagna stórafmæli okkar. Af því tilefni var farið í siglingu með skemmtiferðaskipi og siglt yfir Atlantshafið. Meðan við vorum á skipinu átti Hrefna stórafmæli, með hjálp tækninnar gátum við hringt í hana. Gaman var að sjá hana svo glaða með fjölskyldu sinni og ættingjum á afmælisdaginn. Hefðum viljað fagna með elsku vinkonu okkar.

Að lokum kveðjum við elsku Hrefnu okkar og munum sakna hennar um ókomin ár. Við eigum margar mjög fallegar og góðar minningar um hana.

Elsku Bjarni, Dagbjört, Þráinn og Guðrún og fjölskyldur ykkar, söknuður ykkar er mikill. Allar góðar minningar munu lifa.

Auður, Áslaug,
Guðrún, Kristín,
Ragna og Svanhildur.