Vinahópur Stilla úr kvikmyndinni Hygge í leikstjórn Dags Kára.
Vinahópur Stilla úr kvikmyndinni Hygge í leikstjórn Dags Kára.
Hygge nefnist nýjasta kvikmyndin í leikstjórn Dags Kára Péturssonar sem frumsýnd var í Danmörku í síðustu viku. Um er að ræða danska útgáfu af ítölsku myndinni Perfetti sconosciuti (2016) sem íslenska myndin Villibráð (2023) byggðist líka…

Hygge nefnist nýjasta kvikmyndin í leikstjórn Dags Kára Péturssonar sem frumsýnd var í Danmörku í síðustu viku. Um er að ræða danska útgáfu af ítölsku myndinni Perfetti sconosciuti (2016) sem íslenska myndin Villibráð (2023) byggðist líka á.

Á vef danska kvikmyndatímaritsins kino.dk má finna samantekt á þeim dómum sem þegar hafa birst. Freja Dam rýnir Jyllands-Posten segir auðvelt fyrir áhorfendur að skemmta sér yfir gamanmyndinni úr smiðju Dags Kára sem bjóði upp á „vandræðalegustu fjölskyldumáltíðina í danskri kvikmyndasögu síðan Festen“. Vísar hún þar til kvikmyndar í leikstjórn Thomasar Vinterberg frá árinu 1998. Dam bendir á að húmorinn í Hygge „haldi sig innan raunsæisrammans“ sem gefi myndinni „dýpri hljómbotn en í hefðbundnum dönskum gamanmyndum“.

Morten Kildebæk rýnir Soundvenue segir unga leikara myndarinnar standa sig vel sem ósamhenta fjölskyldu í kvikmynd Dags Kára, sem sé „meðvitað vandræðaleg“. Rýnir Børsen segir tilvalið fyrir pör að fara saman á Hygge „enda er ég viss um að fólk hefur nóg um að tala að mynd lokinni“.

Rýnir danska dagblaðsins Information lýsir myndinni sem „vandræðalegri“ og „skemmtilegri“, en tekur fram að bak við allt glensið glitti þó í sársaukann. Hrósar kvikmyndarýnir blaðsins sérstaklega frammistöðu leikhópsins, en í helstu hlutverkum eru Sofie Torp, Jesper Groth, Andrea Heick Gadeberg og Nicolai Jørgensen.