Sigrún Ólafsdóttir fæddist á Akranesi 21. ágúst 1936. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 23. október 2023.

Hún var dóttir hjónanna Ólafs Veturliða Oddssonar, f. 1915, d. 1977, og Halldóru E. Sigurdórsdóttur, f. 1919, d. 1968. Þau skildu, Páll Jóhannsson, f. 1915, gekk henni í föðurstað.

Sigrún átti þrjú alsystkini og sex hálfsystkini.

Rúna, eins og hún var alltaf kölluð, giftist 1957 Sigvalda Loftssyni, f. 1930, d. 2006. Sigrún eignaðist fimm börn með Valda, en Sigvaldi átti dóttur áður, sem ólst upp hjá þeim. Börn þeirra eru: 1) Linda, f. 1955, maki Baldur Pétursson, þau eiga þrjár dætur, átta barnabörn og tvö barnabarnabörn. 2) Páll Halldór, f. 1959, maki Unnur Sigurðardóttir, þau eiga tvö börn og fimm barnabörn. 3) Ægir, f. 1963, hann á eina dóttur og eitt barnabarn. 4) Sigurdór, f. 1964, maki Anna Alexandersdóttir, þau eiga tvær dætur og tvö barnabörn. 5) Stella Freyja, f. 1970, maki James Morris, þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn. Dóttir Sigvalda er Helga Guðbjörg, f. 1950, d. 2021, hún eignaðist þrjú börn og níu barnabörn.

Sigrún ólst upp á Akranesi, fyrir utan tvö ár á Siglufirði og tvö á Sauðárkróki.

Þau hjónin bjuggu alla sína tíð á Akranesi, og byggðu sér hús á Esjubraut 35, fluttu þangað árið 1968.

Rúna flutti að Þjóðbraut 1 á Akranesi árið 2008 og bjó þar til dauðadags.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 13.

Þetta gerðist hratt, eins og þú vildir elsku amma mín. Ég strauk andlit þitt, kyssti þig á ennið og kvaddi þig að eilífu. Mikið sem það var sárt, en þá var gott að fá að kveðja þig.

Eftir sitja fallegar minningar um svo yndislega og sterka konu sem þú varst. Ég held að þú hafir ekki gert þér grein fyrir því hvað þú hafðir áhrif á marga í kringum þig með vingjarnlegri framkomu þinni og þessu vinalega brosi sem kom öllum til að líka vel við þig.

Sem lítill krakki var ég mikið á Esjubrautinni hjá ömmu og afa, ég átti mína vini þar og svo var stutt að fara í Kalmansvíkina þar sem hestarnir voru. Amma hafði svo gaman af því að ferðast um landið sitt og fóru þau afi upp á ansi mörg fjöllin að tína steina, sem var þeirra helsta áhugamál, fallega steina sem þau svo slípuðu. Steinasafn þeirra var mjög mikið og fallegt.

Ferðalög eru það sem upp úr stendur þegar ég hugsa til ömmu og afa. Jesús minn ef ég myndi nú allt það sem hún amma mín kenndi mér og fræddi mig um á okkar ferðalögum frá því ég var lítil stelpa, þá væri ég rík manneskja. Þessi kona, hún amma mín, þekkti held ég öll fjöllin á landinu, allar þúfur sem voru merkilegar, fossa og dali. Hún hafði svo mikla unun af því að tala um náttúruna í kringum sig og því hélt hún auðvitað áfram með barna- og barnabarnabörnin sín, á ferðalögum og í bílferðum um landið.

Þegar ég var ung stelpa á framhaldsskólaaldri bjó ég hjá ömmu og afa. Foreldrar mínir fluttu til Reykjavíkur og þangað vildi ég ekki sjá að fara. Ömmu fannst það nú ekki vera neitt tiltökumál að ég myndi búa hjá þeim og ég var aldeilis velkomin. Þannig voru amma og afi, maður var alltaf velkominn og alltaf var opinn faðmur. Þetta var góður tími með þeim.

Ég var heppin að eiga svona yndislega ömmu og heppin að eiga með henni öll þessi yndislegu ár. Við bjuggum nálægt hvor annarri eftir að við fjölskyldan fluttum heim frá Danmörku árið 2008. Og við hittumst í hverri viku og þá oftast í mat hjá mömmu og pabba. Þar var oft setið og spjallað fram eftir kvöldi og þótti ömmu það svo gaman. Ég var svo heppin að geta gert hárið hennar fínt og henni fannst hún alltaf vera að trufla mig þegar hún þurfti á því að halda að fá klippingu eða permanent. Hún var yfirleitt búin að klippa sig sjálf ef ég var ekki nógu fljót að fá hana í stólinn. Æi hún var svo þakklát.

Ég er svo þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á um ömmu. Hún var svo stór partur af mínu lífi, lífi dætra minna og síðustu árin átti hún yndislegar stundir með barnabarnabörnunum sínum líka. Þessir litlu drengir dáðu hana og hún ljómaði þegar hún var í kringum þá.

Amma hvatti mig alltaf í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur. Hún hrósaði mér svo oft fyrir það að vera góð móðir og hvað stelpurnar okkar væru yndislegar. Ég vona að hún hafi fundið jafnmikið fyrir því hvað mér þótti vænt um hana eins og hún sýndi mér hvað henni þótti vænt um mig.

Söknuðurinn er sár en minningarnar lifa.

Elsku amma mín, nú ertu komin til afa og þeirra sem elska þig þarna uppi.

Takk fyrir allt.

Sigrún Baldursdóttir.

Ég er örlítið orðlaus og smá ringluð.

Hún amma mín, amma Rúna, var ekki kölluð amma gamla heldur var hún ung í anda og gekk landið endilangt með okkur þrátt fyrir þessa tölu sem hún bar, 87 ár, en við vitum að aldur er afstæður og það átti vel við hana.

Hún fór frá okkur of hratt og of fljótt, hún vildi komast í skýin og vera hjá stjörnunum og kannski þess vegna er ég þakklát og ætla að sýna þakklæti þó ég skilji ekki af hverju ég get ekki hringt í hana og fengið það sama: „Amma, hæ.“ „Hæ Heiðrún mín.“ „Hvað segirðu amma?“ „Ég má ekki segja það!“

Alltaf sami frasinn og ég elskaði það.

Ég ætlaði ekki að skrifa stóra kveðju hér en það er erfitt þegar hún á í hlut.

Vá ferðalögin um landið, tína steina, fara með ömmu og afa öll sumur að tala um fjöll og fossa, þá var gaman.

Viktor var þinn helsti vinur og þér þótti svo vænt um hann og þið Freyja áttuð sérstakt samband, vildi geta sagt það sama með Atlas en takk fyrir að passa hann svona oft þrátt fyrir klikkhausinn sem hann var.

Ég vil þakka þér fyrir að leyfa mér að vera svona mikið með þér frá unga aldri fram að síðasta degi, ég vil þakka þér fyrir að hafa sagt við mig oft að þú værir svo stolt af mér, ég vil þakka þér fyrir að vera með mér og okkur öll jól og alla páska og síðast en ekki síst, elsku amma mín, vil ég þakka þér fyrir að hafa elskað mig og mín skilyrðislaust alltaf.

Amma eða mamma því þú varst hvort tveggja fyrir mér, ég elskaði þig þá, ég elska þig nú og mun elska þig alltaf.

Nú ætla ég að gera það eina sem ég veit að þú myndir biðja mig um í dag; ég ætla að halda fast utan um þína stelpu, mömmu mína, sem sá og sér ekki sólina fyrir mömmu sinni, þér amma mín, því þú varst hennar sólskin og mitt líka.

Elsku amma mín hvíldu í friði, biddu afa Valda að fara og tína steina með þér, svo kem ég að skoða þá með ykkur seinna.

Ástarkveðja, mín kæra kona.

Kveðja, þín litla

Heiðrún Baldursdóttir.

Elsku elsku (lang)amma mín. Takk fyrir samveruna í þessi 26 ár sem ég var svo heppin að eiga langhressustu og bestu langömmuna. Það var mikill heiður að geta gefið þér þann titil að verða langalangamma, ég man hvað þú grínaðist alltaf með það að ég skyldi ekki hafa haldið í mér og fætt Gunnar Leó á sjálfan afmælisdaginn þinn. Ég reyndi … En það er rosalega gott að ylja sér við allar þessar góðu minningar sem maður á bæði sem lítið barn en einnig sem tveggja barna „fullorðins-mamma“. En þótt maður viti hver lokaskref lífsins eru, þá er þetta rosalega erfitt og það er alltaf stutt í tárin hugsandi til þess að geta ekki hitt þig aftur, eins og t.d. í mat hjá ömmu og afa á Skagabraut. Það var alltaf gaman og alltaf hlógum við þegar þú sullaðir mat niður á þig. Ég vona að þið afi séuð bara í sólbaði og dansandi til skiptis við Amore, lagið þitt. Ég mun halda minningunni um þig á lofti og horfum við litlu strákarnir þínir til himins og á stjörnurnar og segjum „þarna er amma Rúna“. Gunnar Leó spyr um þig daglega og við söknum þín rosalega, við skoðum stundum myndirnar frá bústaðarferðinni í fyrra og það var svo skemmtileg ferð. Guð geymi þig elsku amma mín og þangað til næst. Við elskum þig.

Viktoría Gunnarsdóttir.

Rúna systir mín hefur lokað sinni lífsbók, það gerði hún að morgni 23. október eftir tæplega vikudvöl á Sjúkrahúsi Akraness. Rúnu systur kynntist ég þegar ég var komin á tíunda árið, þá fékk ég að fara í heimsókn til mömmu og Palla pabba sem á þeim árum bjuggu á Sauðárkróki. Þetta var seinnipart sumars, það voru komin ber á Nafirnar og fórum við systur í berjamó og náðum í nokkur bláber til að gleðja bróður okkar hann Sigga sem var búinn að vera í sveit úti á Reykjaströnd um sumarið. Ekki vildi betur til en svo að nokkur lambaspörð fylgdu með í berjadósina sem sögð voru vera af mínum völdum. Að sjálfsögðu gleymdist þetta óhapp ekki og var oft rifjað upp.

Ári síðar fluttist ég til fjölskyldu minnar í Björkinni og ólst upp hjá henni og systkinum mínum. Þá var Rúna orðin 15 ára og mikill námsmaður, margverðlaunuð fyrir árangur. Rúna systir kynntist manni sínum, Sigvalda Loftssyni frá Hólmavík, á Akranesi. Árið 1955 eignuðust þau sitt fyrsta barn, hana Lindu Hrönn, litlu yndislegu frænku mína sem ég var svo ánægð að fá að fara með út að labba í fallega vagninum. Alla tíð var gott að koma til Rúnu og það var aldrei mál að fá að gista með alla þó að fjölskyldurnar stækkuðu og húsakynni ekki alltaf af stærstu gerð, jafnvel þó komið væri til margra daga dvalar.

Rúna var mikil útivistarkona, gekk á fjöll og í fjörur og fann sér efnivið í handverk og/eða til skrauts. Mikið var gaman að leika sér með alla steinana sem hún hafði slípað til eftir að hafa fundið þá á ferðum sínum. Hún var hafsjór af fróðleik um nöfn og staðhætti, þekkti fossana og fjöllin og naut þess að ferðast um landið sitt. Þá þótti henni ekki síður skemmtilegt að geta heimsótt dóttur sína til Þýskalands, Havaí og nú síðast til hennar í Texas. Í mörg ár hittumst við með fjölskyldur okkar í sumarbústöðum í Húsafelli og börnin okkar og barnabörn minnast enn á þessara skemmtilegu samverustunda. Fyrir nokkrum árum hittumst við á Laugum í Sælingsdal og áttum ógleymanlega samveru með afkomendum okkar. Síðasta ferð okkar systra saman var í Fljótshlíðina á nýliðnu sumri, að heimsækja Einvarð frænda okkar og konu hans og þar áttum við yndislega stund.

Elsku Rúna mín.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti ekki um hríð,

þá minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Öllum afkomendum Rúnu sendi ég mína innilegustu samúð. Elsku systir, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín Gugga,

Guðbjörg Ólafsdóttir.