Anna Guðrún Auðunsdóttir fæddist á Landspítalanum 26. desember 1970. Hún lést á líknardeild Landspítalans 25. október 2023.

Foreldrar hennar eru Sigurbjörg Guðmundsdóttir, f. 6.7. 1951, og Auðunn Hafsteinn Ágústsson, f. 22.6. 1945. Hún átti einn yngri bróður, Ágúst Jóhann, f. 31.5. 1974. Hann er kvæntur Evu Lind Vestmann, f. 25.9. 1975, og eiga þau saman fimm börn.

Eiginmaður hennar er Friðrik Már Gunnarsson, f. 29.9. 1968 á Ísafirði. Þau gengu í hjónaband 15.6. 2002 í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Þau eignuðust saman tvö börn, Valdísi Björgu, f. 26.11. 1996, og Bjarka Má, f. 10.8. 1998. Anna og Friðrik voru búsett í Byggðarholti 31 í Mosfellsbæ.

Anna Guðrún bjó fyrstu tvö árin í Danmörku en ólst svo upp í Seljahverfinu og lauk grunnskólagöngu sinni í Seljaskóla. Þaðan lá leiðin í MR í máladeild, að loknu stúdentsprófi fór hún í Kennaraháskólann þaðan sem hún útskrifaðist sem kennari. Hún hóf kennaraferilinn við grunnskólann á Ísafirði og færði sig svo yfir hafið til Noregs þar sem hún kenndi íslensku. Árið 1999 flutti hún ásamt fjölskyldunni aftur til Íslands þar sem hún hóf störf hjá Tryggingamiðstöðinni og vann hún þar í 17 ár. Samhliða því starfi var hún lífsstílsráðgjafi hjá Herbalife og náði sér í BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Árið 2019 hóf hún störf á fjármálasviði Landspítalans ásamt því að klára meistaranám í verkefnastjórnun við HR.

Í seinni tíð fann Anna ástríðu í útivist og íþróttum. Hún spilaði blak með Aftureldingu, kleif mörg fjöll, t.d. Hvannadalshnjúk og Eyjafjallajökul, hún hljóp Laugaveginn, stundaði sjósund, gönguskíði og varð Landvættur.

Útför Önnu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 15.

Ég skildi ekki hvað hún sá við mig, þessi lífsglaða Reykjavíkurmær. Og skil það svo sem ekki enn. Hún kom til Ísafjarðar, nýútskrifuð úr Kennaraháskólanum og reiknaði líklega ekki með að stoppa þar nema í mesta lagi einn vetur. En vinir okkar stungu okkur af á dansgólfinu í Sjallanum, einmitt þegar Stjórnin hóf að spila vangalag, og þar með varð ekki aftur snúið. „The rest is history.“ Það verða 30 ár í maí á næsta ári. Valdís Björg fæddist svo 1996 og Bjarki Már 1998.

Anna starfaði sem grunnskólakennari bæði á Ísafirði og í Noregi, en við heimkomuna til Íslands var hún ráðin til Tryggingamiðstöðvarinnar þar sem hún vann í 17 ár og eignaðist góða vini – marga fyrir lífstíð. Fyrir nokkrum árum yfirgaf hún TM og hóf störf á fjármálasviði Landspítalans.

Anna elskaði hreyfingu. Hún tók þátt í Þrekmeistaranum, kvennablakinu hjá Aftureldingu með hressum vinkonum, fór í ævintýraferðir með vinnufélögum, Herbalife-hópnum sínum og öðrum, m.a. á Hvannadalshnjúk, hljóp Laugaveginn og síðar með yndislegum vinkonum í Morgunfuglunum í Landvættina þar sem hún kláraði alls kyns þrautir með stæl. Með fram öllu þessu var hún boðin og búin að sinna sjálfboðaliðsstörfum fyrir Aftureldingu, fór í ófáar ferðir sem fararstjóri með krökkunum í fótboltanum, bakaði vöfflur og seldi jólapappír, sá um leikmannakaffi og sjoppuna hjá meistaraflokki og hvað annað sem gera þurfti.

Anna tók viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og kom heim, ekki bara með gráðuna heldur einstakar vinkonur sem hafa haldið saman síðan, Önnu þótti afar vænt um þessar vinkonur og þeirra menn. Svo var það matarklúbburinn sem í 20 ár hefur átt margar ógleymanlegar kvöldstundir. Þá átti Anna góðar vinkonur úr Seljaskóla og MR og fleiri frá Herbalife-árunum og ekki síst úr Ljósinu, sem var henni svo mikilvægt.

Anna lauk svo meistaranámi í verkefnastjórnum frá HR. Hún var nýlega byrjuð í náminu þegar hún greindist en tókst samt að ljúka því, þótt hún þyrfti til þess eitt aukaár. Ég veit að mörgum þótti það einstakt afrek.

Anna greindist með magakrabbamein 2019. Hún vann sigur á því en svo kom í ljós haustið 2021 að krabbinn hafði tekið sig upp á ný. Anna setti undir sig hausinn og tókst á við það með sama hugarfari og henni var svo tamt og í tvö ár af lyfjameðferðum barðist hún með höfuðið hátt og bros á vör og mátti varla á henni sjá að hún væri veik.

Það var svo í haust að það fór að draga af henni. Við vorum í London um síðustu mánaðamót og daginn eftir heimkomuna mætti hún upp á deild í lyfjagjöf en var þá lögð inn, fyrst í nokkra daga til að safna kröftum. En krabbinn var þá þegar að vinna sigur. Anna fékk pláss á líknardeild Landspítalans og lést þar 25. október.

Anna lagði af stað í sumarlandið með bros á vör umvafin sínum nánustu. Okkur er sagt að það sé ekki algengt en Anna var jú einstök. Kannski var hún fegin að vera laus við sjúkdóminn. Kannski var hún glöð að vera loksins komin í sumarlandið. Og hver veit, kannski þekkti hún þann sem tók á móti henni.

Hvíl í friði elsku Anna.

Þinn

Friðrik Már (Friggi).

Elsku mamma mín, síðustu dagar hafa verið svo óraunverulegir og ég sakna þín svo sárt. Við vorum saman í London fyrir mánuði og nú ertu farin frá mér. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að geta haldið áfram lífinu án þín.

Edinborgarferðin okkar á afmælinu mínu í fyrra er svo dýrmæt minning sem ég mun halda fast í. Við höfum líklega aldrei deilt jafn miklu með hvor annarri, bara tvær saman á ferðalagi. Þú orðaðir það þannig að við höfum verið á trúnó í þrjá daga. Við borðuðum líka svo mikið af góðum mat sem var okkur báðum mikið áhugamál, skoðuðum jólamarkaðinn og keyptum okkur svo eins hringa sem við vorum með á þumalfingri.

Þú sóttir stíft í nýjar og spennandi áskoranir og kláraðir þær alltaf með trompi. Ég leit svo mikið upp til þín, sum afrekin þín eru hreint ótrúleg. Þú gafst mér trú á að ekkert væri óyfirstíganlegt svo lengi sem maður hefur trú á sér og æfir sig, að ég geti gert allt það sem mig langar til. Ég er viss um að þú og þín afrek hafi haft mikil áhrif á manneskjuna sem ég er í dag og mín afrek.

Ég man að þegar þú greindist fyrst með krabbamein sagðirðu við mig „þetta er bara nýtt verkefni sem ég á að takast á við – af hverju ekki ég eins og hver annar?“. Og í veikindunum varstu svo ótrúlega sterk og jákvæð, fannst þér ný áhugamál og ferðaðist út um allt.

Þú sagðist ekki vera hrædd við að deyja, og að þú hefðir meiri áhyggjur af okkur fjölskyldunni, þá sérstaklega pabba. Ég lofaði þér að passa upp á pabba fyrir þig, og Viggó, og ég mun standa við það.

Takk fyrir allt, elsku besta mamma mín. Þú ert hetjan mín.

Þín

Valdís.

Stóra frænka mín hún Anna Guðrún hefur skipað stóran sess í mínu lífi. Við erum systkinadætur og mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar. Það var alltaf notalegt að vera í kringum Önnu. Hún dvaldi vel í sér, hafði góða nærveru, sýndi fólki áhuga, var hvetjandi og sagði skemmtilega frá.

Á 80's-árunum var hún heldur betur upp á sitt besta. Með hár eins og eftirlætissöngvarinn, Limahl; ljóst hár, broddar og axlapúðar í takt við það. Ég og Gústi frændi bíðum þess aldrei bætur að hafa verið heilaþvegin frá unga aldri af tónlist þessa áratugar. Á unglingsárum hennar, og ég þá átta ára krakki, voru mikil samskipti milli hennar og Elvu systur minnar. Þá stundaði ég þá iðju að hlera nánast öll þeirra símtöl um allt milli himins og … . Í eitt skipti man ég eftir að þessi dagfarsprúða stúlka sagði við systur mína: „Ég drep Írisi ef hún er að hlera núna!“ Auðvitað lá ég á hleri og vissi „öll“ þeirra leyndarmál. Því skal þó haldið til haga að nánast fyllsta trúnaðar var gætt. Til að toppa þetta, þá lagði ég mikið á mig, þegar Anna kom í heimsókn, að hlera samtöl þeirra á milli. Áður en hún kom faldi ég mig inni í fataskáp systur minnar, sat þar þögul og hlustaði á þær mala um lífsins gagn og nauðsynjar unglingsáranna.

Þegar Anna Guðrún var að læra til kennarans hafði mamma mín samband við hana og bað hana að aðstoða mig við að læra undir samræmda prófið í íslensku. Mögulega var ég því fyrsti alvörunemandinn hennar Önnu. Ég var með lesblindu og því ýmislegt í íslensku sem vafðist fyrir mér. Hún sat með mér tímunum saman í herberginu mínu á Stórateignum. Mér er efst í huga þolinmæði, natni og góðar kennsluaðferðir hennar sem skiluðu sér í afar góðum árangri á prófinu. Mikið er ég þakklát fyrir þessa hjálp.

Fyrir um 15 árum stundaði ég langhlaup og var Anna einstaklega hvetjandi en sagðist ekki geta hlaupið. Það leið ekki á löngu þar til hún var farin að hlaupa maraþon, Laugaveginn og afreka ýmislegt annað. Þetta lýsir Önnu vel, hún var markmiðamiðuð og virkni var henni mikilvæg. Eins og mig minnir að hún hafi orðað það: „Ef ég er ekki virk þá er ég bara sófaklessa!“ En hún var síður en svo „sófaklessa“ heldur náði hún miklum árangri í leik og starfi. Fjöldi háskólagráða og íþróttaafrek. En stoltust var hún af börnunum sínum, Valdísi og Bjarka. Ég upplifði hana sem mikla mömmu sem sýndi börnum sínum hlýju og ástúð en á sama tíma kenndi hún þeim sjálfstæði og ábyrgð. Ég upplifði hana og Frigga sem einstaklega hlý og samrýnd hjón. Bæði með rólegt fas, en á sama tíma skemmtileg og félagslynd. Anna mín á ekki langt að sækja þetta fas enda foreldrar hennar, Auðunn og Systa frænka, einstök ljúfmenni og áreiðanleg.

Elsku Friggi, Valdís, Bjarki, Systa, Auðunn, Gústi og fjölskylda, missir ykkar er mikill og sár en minning um einstaka, sterka og góða manneskju mun lifa með okkur um ókomna tíð. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur og styrk á þessum erfiða tíma.

Kveðja,

Íris Eik Ólafsdóttir.

Enn erum við minnt á hvað tíminn líður hratt og hvað lífið er hverfult. Ótrúlegt að það séu 20 ár síðan leiðir okkar Önnu Guðrúnar lágu fyrst saman. Það var þegar við hófum fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, breitt aldursbil og mismunandi styrkleika gekk okkur mjög vel að vinna saman og áttum við mörg sameiginleg verkefni í skólanum. Engu var skilað inn nema Anna væri búin að leggja blessun sína yfir verkið.

Eftir að námi lauk hélt vinskapurinn áfram og varð sterkari eftir því sem árin liðu. Eftir að strákarnir okkar voru teknir inn í hópinn varð úr sterkur og samheldinn vinahópur. Við ferðuðumst saman innan lands og utan og nutum samverunnar ekki síst með góðum mat.

Það var mikið áfall fyrir fjórum árum þegar Anna fékk sitt erfiða verkefni í fangið. Hún tók við þessu verkefni eins og hennar var von og vísa af einstöku æðruleysi, hugrekki og jákvæðni. Hún lét veikindin aldrei stoppa sig við að taka þátt í lífinu. Hún kenndi okkur að lífið er núna og ekki á að bíða með að gera hlutina heldur drífa í að framkvæma skemmtilegar hugmyndir strax.

Tíminn sem við áttum saman var allt of skammur en góðar minningar um ótrúlega flotta konu og frábæra vinkonu ylja okkur. Elsku Friggi og fjölskylda, ykkar missir er stór, hugur okkar er hjá ykkur og elsku Önnu í sólskinslandinu.

Guðrún og Haraldur, Guðrún og Jón,
Kristín og Eyjólfur.

Gott er að vera fleyg og fær

frjáls í hverju spori.

Sinnið verður sumarblær,

sálin full af vori.

(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)

Með þessum ljóðlínum langar okkur að minnast kærrar vinkonu sem við erum að kveðja allt of snemma. Leiðir okkar lágu saman árið 2015 er Anna Guðrún bættist í hóp okkar Morgunfuglanna í Mosfellsbæ og varð hún eftir það partur af innsta kjarna hlaupahópsins þrátt fyrir að segjast hvorki vera morgunmanneskja né íþróttakona. Annað kom á daginn. Anna Guðrún var óþreytandi við ótal hlaupaæfingar klukkan sex að morgni, Landvættaæfingar og keppnir, Laugavegshlaup og við fleiri krefjandi tilefni. Anna Guðrún sýndi og sannaði að hún var mikil keppnismanneskja og ótrúlega dugleg, sterkbyggð og skipulögð. Hún setti sér markmið og þegar hún gerði það fylgdi hún þeim eftir og kláraði sérhvert verkefni. Kynni okkar af Önnu Guðrúnu sýndu svo ekki varð um villst að hún gerði það sem hún ætlaði sér.

Anna Guðrún var líka góð móðir og maki og mikil fjölskyldukona. Hún studdi börnin sín af mikilli alúð og ræktarsemi og það fór ekki á milli mála að hún var mjög stolt af fjölskyldu sinni enda studdi hún hana alla með ráðum og dáð.

Hún tókst á við baráttuna við krabbamein sitt af eftirtektarverðu æðruleysi og jákvæðni. Gafst aldrei upp, kvartaði aldrei og fannst hún í betri aðstöðu en margir aðrir. Aldrei á veikindaferli hennar bar hún sig illa og það er aðdáunarvert hversu sterk fjölskyldan öll hefur verið í gegnum þetta erfiða ferli.

Við, Morgunfuglarnir, munum ávallt sakna Önnu Guðrúnar en um leið njóta endurminninga um góða og heilsteypta vinkonu. Hlaupaæfingar breyttust í Önnugöngur þegar þol hennar minnkaði en við upplifðum margar skemmtilegar stundir saman sem urðu sumar að árlegum hefðum, til að mynda jólakjólahlaupið á aðventunni, Úlfarsfellsgöngur, þar sem skálað var á gamlársdag, og svo morgunæfing okkar á afmælisdaginn hennar hinn 26. desember. Þeirri hefð hyggjumst við viðhalda í minningu okkar kæru vinkonu sem við söknum svo sárt.

Við vottum Friðriki, Valdísi, Bjarka og öðrum fjölskyldumeðlimum samúð við fráfall Önnu Guðrúnar.

Kristín, Droplaug, Eygerður, Ása Dagný, Sigurlaug María og Hrafnhildur.