Söngur Frá vinstri: Óskar Pétursson sem hér sést syngja af mikilli innlifun. Svo koma Jóel Agnarsson, Pétur Pétursson, Agnar Gíslason, Ísak Agnarsson og Gísli Pétursson. Tónleikagestir kunnu vel að meta framlag þeirra.
Söngur Frá vinstri: Óskar Pétursson sem hér sést syngja af mikilli innlifun. Svo koma Jóel Agnarsson, Pétur Pétursson, Agnar Gíslason, Ísak Agnarsson og Gísli Pétursson. Tónleikagestir kunnu vel að meta framlag þeirra. — Ljósmyndir/Mummi Lú
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sönghópur manna frá Álftagerði í Skagafirði gerði góða lukku á afmælistónleikunum sem Óskar Pétursson, sem gjarnan er kenndur við bæinn, hélt í Hörpu um síðustu helgi. Þekktur er kvartettinn Álftagerðisbræður þar sem með Óskari voru bræður hans þrír; Pétur, Gísli og Sigfús Péturssynir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sönghópur manna frá Álftagerði í Skagafirði gerði góða lukku á afmælistónleikunum sem Óskar Pétursson, sem gjarnan er kenndur við bæinn, hélt í Hörpu um síðustu helgi. Þekktur er kvartettinn Álftagerðisbræður þar sem með Óskari voru bræður hans þrír; Pétur, Gísli og Sigfús Péturssynir. Nú er Sigfús, áttræður að aldri, hættur í söngnum og á dögunum féll frá Stefán R. Gíslason sem í áratugi hafði verið undirleikari og söngstjóri bræðranna. Hinir einu og sönnu Álftagerðisbræður eru því horfnir af sviðinu.

En allt fram streymir og á afmælistónleikum Óskars þótti ekki annað hægt en að hafa einhverja syngjandi tengingu við Álftagerði. Því var safnað saman í hóp sem í voru Óskar og bræður hans tveir; Pétur og Gísli. Einnig Agnar, sonur Gísla, og tveir synir hans; Jóel og Ísak. Síðastnefndu bræðurnir, Jóel og Ísak, eru um tvítugt og báðir komnir í Karlakórinn Heimi sem fjórða kynslóð söngmanna þar. Einnig er í hópnum Atli Gunnar Arnórsson, tengdasonur Gísla Péturssonar. Hann var af tilfallandi ástæðum utan hópsins á Hörputónleikunum, en var í liðinu þegar sama dagskrá var flutt í Hofi á Akureyri nokkru fyrr.

Söngmennirnir úr Skagafirði fluttu á tónleikunum mörg þekkt lög sem Álftagerðisbræður fluttu forðum og nutu vinsælda af. Þar má nefna lög eins og Sem lindin tær, Rósin og Undir Dalanna sól. Þetta kunnu áheyrendur vel að meta.

„Nei, þetta var bara tilfallandi. Ekkert meira hefur verið ráðgert um söng okkar sem tengjumst Álftagerði. Við erum þó afar ánægðir og þakklátir fyrir þær viðtökur,“ segir Atli Gunnar sem er jafnframt formaður Karlakórsins Heimis.