Sprengistjarna Sævar Helgi hefur séð margt en dreymir um að sjá sprengistjörnu. Líkurnar eru þó ekki með honum.
Sprengistjarna Sævar Helgi hefur séð margt en dreymir um að sjá sprengistjörnu. Líkurnar eru þó ekki með honum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sævar Helgi Bragason, oft kallaður Stjörnu-Sævar, segir sitt aðalstarf vera að fræða fólk. Einnig sinnir hann ritstörfum og dagskrárgerð og síðast en ekki síst heimsækir hann skóla og kennir börnum. Aðallega um stjarnvísindi

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Sævar Helgi Bragason, oft kallaður Stjörnu-Sævar, segir sitt aðalstarf vera að fræða fólk. Einnig sinnir hann ritstörfum og dagskrárgerð og síðast en ekki síst heimsækir hann skóla og kennir börnum. Aðallega um stjarnvísindi. Sævari finnst mikilvægt að vekja forvitni barna á alheiminum og fá þau til að líta heiminn öðrum augum. Hann segist fylgjast vel með því sem er að gerast í eldgosamálum á landinu í dag en leggur áherslu á hve mikilvægt það er að fræða börnin um það sem er að gerast. Gera þau hissa og undrandi. Þau hafa nefnilega áhuga líka. Hamfarir er nýjasta bók Sævars en hún er sú fjórða í flokknum Vísindalæsi.

„Bókin fjallar um glötuðustu atburði í sögu jarðarinnar. Saga jarðarinnar er ótrúlega löng og að mínu mati fáránlega áhugaverð. Þegar maður lærir sögu jarðarinnar þá útskýrir það svo margt sem við sjáum í kringum okkur en hún er mörkuð atburðum sem hafa haft gífurleg áhrif á hana. Það þarf líka að útskýra hvernig við vitum hlutina. Eins og til dæmis myndun tunglsins þegar annar hnöttur skall á jörðina. Hún bráðnaði og efnið þeyttist út í geiminn. Jörðin hallaðist fyrir vikið og það er ástæðan fyrir því að við fáum vetur, sumar, vor og haust. Áreksturinn myndaði tunglið og mér finnst það ótrúlega falleg skýring og saga.“

Hann segir sögurnar af hamförum jarðar samt fallegar því þær leiði til einhvers og hafi mikil áhrif.

„Svo eru auðvitað sögurnar um það þegar jörðin gekk í gegnum risavaxnar ísaldir og eldgosahrinur. Ég er í rauninni að segja sögur af skemmtilegum en skelfilegum atburðum sem breytt hafa gangi lífsins og leitt til okkar á endanum.“

Börn hissa á mörgu

Sævar segist vilja breyta sýn barna á heiminn með sögum.

„Þegar maður er lítill þá er maður svolítið hissa á mörgu. En þegar maður eldist er oft eins og það hverfi úr manni. Við þurfum líka oft að útskýra fyrir börnum hvernig við vitum það sem við vitum. Svo þetta er líka tilraun til þess. Það er ævintýri að rannsaka jörðina.“

Það má segja Sævar hafa fundið sína hillu í lífinu en sem lítinn strák dreymdi hann um bók eins og þessa.

„Bókin höfðar til þeirra krakka sem eru síður áhugasöm um skáldskap. Ég var þannig sjálfur og hafði lítinn áhuga á skáldsögum. Ég veit að það er fullt af krökkum þarna úti sem hafa gaman af því að vita hvernig náttúran virkar. Ég þarf að ná í litlu „Sævarana“ þarna úti.“ Sævar skrifaði bókina fyrst og fremst þar sem umfjöllunarefnið er honum afar hugleikið. Honum fannst vanta jarðfræðibók með líffræði- og stjörnufræðilegu ívafi fyrir börn á íslensku. Hann segir bækurnar sem til eru oftast þýddar úr erlendum málum og séu aðallega upptalning á staðreyndum. „En mér finnst þær ekkert endilega bestu vísindabækurnar. Bestu vísindabækurnar eru þegar það er verið að segja mér frá undrinu í formi sögu.“

Foreldrarnir hafa ekki síður gaman af

„Þegar maður skrifar vísindabækur fyrir börn þá vill það til að fullorðnir hafa oftast gaman af því líka. Þeir verða alveg jafn hissa þegar þeir lesa bækurnar því oft eru þetta hlutir sem fólk hefur heyrt en aldrei fengið almennilega útskýringu á. Svo með því að skrifa til barna þá nær maður foreldrunum í leiðinni. Svo er tilgangurinn ekki síst að fjölskyldur séu heima og lesi saman og ég held það sé að lukkast ágætlega miðað við viðbrögðin sem ég hef fengið.“

Það er augljóst að þessi bók verður ekki sú síðasta í bókaflokknum heldur er Sævar fullur hugmynda og sagna sem hann vill segja börnum

„Næsta bók kemur út á næsta ári og mun heita Miklihvellur. Sú bók verður um það hvernig heimurinn varð til, hvernig hann hefur þróast og hvernig hann mun enda.“

Dreymir um að sjá sprengistjörnu

Það er margt í náttúrunni og á himninum sem Sævar hefur séð. Hann er einnig duglegur í að fara með hópa útlendinga út fyrir bæinn til að sýna þeim og fræða um norðurljósin. En það er eitt sem hann dreymir um að sjá og það er svokölluð sprengistjarna með berum augum.

„Það er þegar risastjörnur í alheiminum springa í tætlur, hætta að skína og deyja. Stjörnurnar deyja með hvelli og við höfum ekki séð sprengistjörnu frá jörðinni með berum augum síðan árið 1604 svo það er löngu kominn tími á aðra. Þetta verður kannski ekkert svakalegt sjónarspil þannig séð; skær stjarna á himni, en það er merkingin sem er heillandi. Það er ómögulegt að segja til um hvenær það gerist en það er ein stjarna á himninum sem gæti sprungið. Það er Betelgás í Óríón. Það þýðir að einhvern tímann á næstu hundrað þúsund árum gæti hún sprungið. Svo ég þarf að vera brjálæðislega heppinn til að verða vitni að þessu og líkurnar ekki með mér. Það sem er merkilegt við þetta er að við erum afurð svona sprengingar. Við erum í rauninni lifandi leifar dáinna stjarna. Svo það verður einhvern tímann hluti af bók, að segja börnum hvernig efnin í þeim urðu til. Það er önnur hugmynd sem ég geng með í kollinum.“