Flugsýn Horft yfir Hvolsvöll. Hér sjást sem aðalatriði myndar grunnskóli og íþróttamannvirki. Gróska er í bænum og íbúum fer fjölgandi.
Flugsýn Horft yfir Hvolsvöll. Hér sjást sem aðalatriði myndar grunnskóli og íþróttamannvirki. Gróska er í bænum og íbúum fer fjölgandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Afmælishátíð verður á Hvolsvelli næstkomandi sunnudag í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin 90 ár frá því að þéttbýli tók að myndast í landi Stórólfshvols, eins og þá var komist að orði. Dagskrá hefst kl

Afmælishátíð verður á Hvolsvelli næstkomandi sunnudag í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin 90 ár frá því að þéttbýli tók að myndast í landi Stórólfshvols, eins og þá var komist að orði. Dagskrá hefst kl. 14 og verður í húsnæði Valhalla, það er Sögusetrinu. Aðalræðumaður verður Ísólfur Gylfi Pálmason fyrrverandi sveitarstjóri sem mun stikla á stóru í sögu þéttbýlisins og segja sögur af fólkinu sem hefur búið í bænum.

Á dagskrá verða tvö atriði frá Tónlistarskóla Rangæinga. Annars vegar spilar Hafdís Auður Jónsdóttir, 7 ára, á píanó og hins vegar syngur Dórothea Oddsdóttir nokkur lög. Þess má til gamans geta að Dórothea býr einmitt í elsta húsi þéttbýlisins, gamla kaupfélaginu.

Einnig verður fjallað um Hvolsvöll framtíðarinnar. Ungmenni úr 8.-10. bekk í Hvolsskóla segja þá frá því í nokkrum orðum hvernig þau sjá fyrir sér Hvolsvöll í framtíðinni, það er hvernig þau vonast til að þéttbýlið þróist áfram. Nemendurnir fengu frjálsar hendur við að túlka efnið og eru því væntingar bundnar við að eitthvað framandi og forvitnilegt komi fram.

Að lokinni skipulagðri dagskrá í Valhalla verður afmæliskaffi og gestum gefst kostur á að ganga gegnum Kaupfélagssafnið svonefnda. Þar verða uppi gamlar myndir frá Hvolsvelli úr safni Ottós heitins Eyfjörð, en þær eru mikilvæg heimild úr sögu byggðarlagsins.

Íbúar á Hvolsvelli í dag eru, skv. tölum Hagstofu Íslands, 1.108. Byggðarlagið er hluti af Rangárþingi eystra, en það spannar svæðið milli Eystri-Rangár og Jökulsár á Sólheimasandi, en þar á milli eru Hvolhreppur hinn forni, Fljótshlíð, Landeyjar og Eyjafjöll. sbs@mbl.is