Hallveig Thorlacius
Hallveig Thorlacius
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókaútgáfan Ormstunga gefur út fjórar skáldsögur í ár. Babúska eftir Hallveigu Thorlacius var fyrst á markað en þar fléttast nokkur mál saman í eina frásögn. Ung stúlka í Reykjavík verður fyrir bíl og lætur lífið

Bókaútgáfan Ormstunga gefur út fjórar skáldsögur í ár.

Babúska eftir Hallveigu Thorlacius var fyrst á markað en þar fléttast nokkur mál saman í eina frásögn. Ung stúlka í Reykjavík verður fyrir bíl og lætur lífið. Rússnesk stúlka, sem vinnur við skúringar, er eini sjónarvottur að atburðinum fyrir framan Þjóðleikhúsið. Birta, fjórtán ára niðursetningur norður í Urriðavík, hengdi sig úti í fjósi fyrir hundrað árum og gengur nú aftur.

Sigurjón Magnússon sendir frá sér skáldsöguna Biluð ást. „Nanna er látin – konan sem Jóhann Máni elskaði. Það var biluð ást. Hér segir frá harkalegum örlögum manns sem hafði margt til brunns að bera, var gæddur góðum gáfum, óvanalegu líkamlegu atgervi og hugdirfsku. En ástina kunni hann ekki að varast,“ segir útgefandi um verkið.

Davíð Wunderbar nefnist nýtt verk eftir Hákon J. Behrens. „Þrátt fyrir sakleysislega kápu er rétt að vara lesendur við því að lesa þessa bók. Það er ekki nóg með að Starkaður Starkaðsson fari offari í þráhyggju sinni gagnvart mælingu tímans heldur finnur hann þörf fyrir að bregða fyrir sig ruddalegu orðafari þegar hann ferðast djúpt niður í myrkur mannssálarinnar, til staða sem engum er hollt að heimsækja,“ segir m.a. um bókna.

Þá sendir kvikmyndaleikstjórinn Ágúst Guðmundsson frá sér skáldsöguna Maður í eigin bíómynd sem fjallar um Ingmar Bergman. „Árið er 1949. Ingmar Bergman, 31 árs gamall og fimm barna faðir, fer til Suður-Frakklands að skrifa kvikmyndahandrit. Það veldur uppnámi í hjónabandinu. Í sólinni fer handrit hans að fjalla að verulegu leyti um þetta stormasama hjónaband þar sem höfundurinn gerir frekar lítið úr sjálfum sér en hefur eiginkonuna í dýrlingatölu.“
ragnheidurb@mbl.is