Sesamstræti Listakonan í barnaþættinum Sesame Street árið 1975.
Sesamstræti Listakonan í barnaþættinum Sesame Street árið 1975.
Þjóðlagasöngkonan og mannréttindafrömuðurinn Buffy Sainte-Marie hefur vísað á bug ásökunum um að hún hafi logið til um að vera af Cree-ættbálki, í kjölfar ásakana sem fram komu í fréttaskýringaþættinum The Fifth Estate í kanadíska ríkissjónvarpinu í þarsíðustu viku

Þjóðlagasöngkonan og mannréttindafrömuðurinn Buffy Sainte-Marie hefur vísað á bug ásökunum um að hún hafi logið til um að vera af Cree-ættbálki, í kjölfar ásakana sem fram komu í fréttaskýringaþættinum The Fifth Estate í kanadíska ríkissjónvarpinu í þarsíðustu viku.

Buffy Sainte-Marie naut töluverðra vinsælda í Bandaríkjunum og Kanada á áttunda áratugnum og árið 1983 hlaut hún Óskarsverðlaun fyrir lagið „Up Where We Belong“ sem flutt var í kvikmyndinni An Officer and a Gentleman. Þá var nokkuð gert úr því að hún væri fyrsti frumbygginn sem hlotið hefði verðlaunin.

Buffy Sainte-Marie hefur ávallt haldið því fram að hún hafi fæðst árið 1941 á Piapot First Nation-verndarsvæðinu í Saskatchewan í Kanada. Að hennar sögn var hún tekin frá lífforeldrum sínum þegar hún var ungbarn og alin upp af hvítri fjölskyldu í Bandaríkjunum. Söngkonan hefur sagt að fæðingarvottorð hennar og önnur skjöl sem staðfesti þá sögu hafi orðið eldi að bráð.

Upplýsingar sem kanadíska ríkissjónvarpið CBC hefur undir höndum stangast á við þessa sögu. Til sé fæðingarvottorð sem staðfesti það. „Hún fæddist ekki í Kanada … hún er greinilega fædd í Bandaríkjunum,“ er haft eftir bróðurdóttur söngkonunnar, Heidi St. Marie. „Hún er alls ekki frumbyggi eða indíáni.“ Buffy Sainte-Marie sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi þar sem segir að hún hafi alltaf sagt heiðarlega frá um uppruna sinn.