Goðsögn Sir Bobby Charlton varð heimsmeistari með Englandi árið 1966.
Goðsögn Sir Bobby Charlton varð heimsmeistari með Englandi árið 1966. — AFP/Kazuhiro Nogi
Knattspyrnugoðsögnin Sir Bobby Charlton lést í kjölfar þess að hafa dottið illa á hjúkrunarheimili. BBC greinir frá því að rannsókn á vegum dánardómstjóra Cheshire hafi leitt í ljós að Charlton hafi látist af slysförum

Knattspyrnugoðsögnin Sir Bobby Charlton lést í kjölfar þess að hafa dottið illa á hjúkrunarheimili. BBC greinir frá því að rannsókn á vegum dánardómstjóra Cheshire hafi leitt í ljós að Charlton hafi látist af slysförum.

Hann hafi misst jafnvægið er hann reyndi að standa upp úr stól sínum á hjúkrunarheimilinu The Willows í Knutsford með þeim afleiðingum að hann skall á gluggasyllu og hugsanlega á ofni.

Starfsfólk hjúkrunarheimilisins skoðaði Charlton í bak og fyrir í kjölfarið en fann engin ummerki um áverka, auk þess sem hreyfigeta hans virtist óskert. Síðar tók starfsfólkið hins vegar eftir bólgu á baki hans og kallaði þá til bráðaliða. Charlton var fluttur á sjúkrahús og þaðan á sjúkrahúsið í Macclesfield, þar sem myndatökur leiddu í ljós að hann hefði rifbeinsbrotnað og væri útsettur fyrir því að fá lungnabólgu.

Komið í líknandi meðferð

Í kjölfarið ákváðu læknar á sjúkrahúsinu í Macclesfield að réttast væri að koma Charlton í líknandi meðferð og lést hann fimm dögum síðar.

Charlton greindist með heilabilun fyrir þremur árum og lést 21. október síðastliðinn, 86 ára að aldri. Opinber dánarorsök að mati dánardómstjóra var áverkar á lungum, fall og heilabilun.

Charlton lék lykilhlutverk í liði Englendinga sem fagnaði heimsmeistaratitilinum í knattspyrnu árið 1966 á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Hann lék 106 leiki A-landsleiki og skoraði í þeim 49 mörk. Þá lék hann í 17 ár með Manchester United og varð þrívegis Englandsmeistari með liðinu, hann varð einu sinni enskur bikarmeistari og vann Evrópubikarinn einu sinni.