Jóhanna Thorsteinson
Jóhanna Thorsteinson
Vináttan er undirstaða starfs lionsklúbba. Í Lions eignast margir sína bestu vini.

Jóhanna Thorsteinson

Lionsklúbbar hafa verið starfræktir á Íslandi frá því 1951. Í upphafi voru það áhugasamir og vel efnaðir karlar sem stofnuðu fyrstu lionsklúbbana í Reykjavík. Þeir þekktu lionsklúbba frá útlöndum og vildu leggja íslensku samfélagi lið, með því að afla fjár til margvíslegra þjóðþrifamála sem hvorki ríki né sveitarfélög höfðu áhuga á eða bolmagn til að fjármagna.

Klúbbfélagar tóku margvísleg málefni upp á sína arma. Sem dæmi um verkefni lionsklúbba má nefna Reykjadal í Mosfellssveit þar sem fötluð börn njóta sumardvalar ár hvert, Sólheima í Grímsnesi, BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala), Píeta-samtökin, Stígamót, björgunarsveitir og heilsugæslustöðvar um allt land svo fátt eitt sé talið. En mesta áherslan hefur ávallt verið og er enn stuðningur við sjóndapra og blinda.

Lions á Íslandi hefur stutt ötullega við Blindrafélagið og gefið sértækan tækjabúnað til að mynda augnbotna og síðasta stórátak í fjáröflun var til kaupa á þjálfuðum leiðsöguhundum fyrir blinda. Þegar Lions fer í fjáröflun á landsvísu þá er það með sölu á rauðri fjöður. Rauða fjöðrin er því landssöfnun til einhvers tiltekins og fyrirframákveðins verkefnis í þágu blindra og sjóndapurra á Íslandi.

Helen Keller

Á alþjóðaþingi Lions í Bandaríkjunum 1925 kom Bandaríkjamaðurinn Helen Keller (1880-1968) fram með þá hugmynd að Lions gerðust „riddarar hinna blindu“. Hún fæddist hraust og eðlilegt barn en veiktist af skarlatssótt 19 mánaða gömul og missti í kjölfarið bæði sjón og heyrn. Eðlilega þróaðist hún í að verða lítil reið stúlka, illviðráðanlegt barn og með öllu tengslalaus við þann heim sem við flest þekkjum sem njótum þessara mikilvægu skynfæra.

Sex ára var hún send til hins fræga Alexanders G. Bells, sem var kennari heyrnarlausra, en líka uppfinningamaður og vísindamaður. Tengdasonur hans rak skóla fyrir blinda í Boston. Bell fékk ungan kennara, Önnu Sullivan, frá blindraskólanum til að kenna Helen. Strax eftir nokkurra mánaða þjálfun fór Helen að taka stórstígum framförum. Hún lærði að þreifa á hlutum og tengja þá við orð sem voru stöfuð í lófa hennar. Hún lærði líka að lesa af vörum með því að þreifa á vörum þess sem talaði við hana. Helen Keller varð undrabarn, blindri og heyrnarlausri tókst henni að verða altalandi og komast í framhaldsnám og ljúka háskóla.

Hún varð afkastamikill rithöfundur og baráttumaður fyrir réttindum blindra og heyrnarskertra. Hún fræddi fólk um blinduna, heyrnarleysið og réttindabaráttu þeirra. Og einmitt sem slíkur fyrirlesari sá hún möguleika í að ákalla Lions á heimsvísu og fá hreyfinguna til að leggja baráttunni lið. Lions International svaraði kallinu og ætíð síðan hafa lionsklúbbar um allan heim lagt blindum og sjónskertum lið með margvíslegum hætti.

Hugmyndafræði Lions

Lionsklúbbar eru starfræktir í yfir 200 löndum um allan heim. Klúbbfundir eru með ýmsu yfirbragði, stundum eru þetta matarfundir, stundum kaffifundir. Þeir eiga alls ekki að vera langir, en þurfa alltaf að vera skemmtilegir. Fundartíminn getur verið snemma að morgni, og þá fyrir vinnutíma, í hádeginu eða á kvöldin.

Lionsklúbbar á Íslandi eru í dag nærri 80 talsins. Verkefnin eru jafnmörg og klúbbarnir eru margir. En fyrst og fremst eru klúbbarnir að hlúa að nærsamfélagi sínu. Margir klúbbar stunda skógrækt og hefur einn klúbburinn, Baldur, staðið fyrir frábærum gróðurfarsrannsóknum og uppgræðslu í grennd við Hvítavatn undir Langjökli.

Í lionsklúbbi er lögð áhersla á vináttu félaganna og fjölskyldna þeirra. Vináttan er undirstaða starfs lionsklúbba. Í Lions eignast margir sína bestu vini.

Í dag er mjög erfitt að halda úti félagsstarfi sem byggist á fundarsetum og félagslegum samskiptum. Það er lítið svigrúm fyrir „mannlega þáttinn“ í samkeppni við það gríðarlega framboð af afþreyingu af öllu tagi sem okkur stendur öllum til boða alla daga árið um kring. Og nú er svo komið að mikil umræða hefur skapast um afleiðingar snjallsímavæðingar innan veggja grunnskólans. Það kemur alltaf betur og betur í ljós hve félagsleg færni nemendanna minnkar með aukinni notkun snjalltækjanna. Oft kunna þeir ekki almennar og óskráðar samskiptareglur í félagslegum samskiptum sínum. Þetta hefur leitt til þess að fræðsluyfirvöld hugleiða snjallsímabann á skólatíma.

Í Lions öðlast félagar félagslega þjálfun og þar fer einnig fram markviss fræðsla. Í Lions eru mörg tilboð um fræðslu og gagnast hún ekki aðeins til starfa í Lions, heldur einnig í atvinnulífinu og í daglegu lífi. Lions býður upp á fjölbreytt félagslíf, fræðslu, skemmtanir, verkefni, fundi og ferðalög með vinum og fjölskyldum.

En fyrst og fremst er gaman að vera í Lions!

Höfundur er formaður lionsklúbbsins Eirar í Reykjavík.

Höf.: Jóhanna Thorsteinson