Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
„Við höfum á síðustu árum verið að leggja til flugvélar Landhelgisgæslunnar til Frontex-verkefna en við ræddum á þessum fundi að þegar vélar eru að fara til ákveðinna landa með einstaklinga hafi löndin samráð sín á milli og nýti þær vélar þá…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Við höfum á síðustu árum verið að leggja til flugvélar Landhelgisgæslunnar til Frontex-verkefna en við ræddum á þessum fundi að þegar vélar eru að fara til ákveðinna landa með einstaklinga hafi löndin samráð sín á milli og nýti þær vélar þá einnig þannig að það verði meiri samvinna varðandi þessa brottflutninga eða flutninga til heimaríkja,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

Guðrún og aðrir dómsmálaráðherrar á Norðurlöndunum tilkynntu á þriðjudaginn um áform um skilvirkara kerfi við að senda ólöglega innflytjendur úr landi til upprunalands eða annarra landa eftir atvikum. Skrifuðu ráðherrarnir undir samkomulag um aukna samvinnu í málaflokknum. Þá stendur meðal annars til að samræma flugferðir til upprunalands eða annarra landa sem fólk á rætur að rekja til og verður það unnið í samvinnu við Frontex, landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu.

Að sögn Guðrúnar myndum við ekki fljúga með örfáa einstaklinga héðan heldur samnýta flug til að mynda með Dönum eða Svíum. Þá segir Guðrún að samstarfið í þessum málaflokki sé gríðarlega mikilvægt. „Það er mikil samstaða á milli landanna og við erum mjög samstiga í að aðlaga útlendingalögin okkar þannig að þau séu sambærileg í löndunum. Öll löndin eru að herða útlendingastefnuna sína, ekki bara Norðurlöndin heldur Bretar, Þjóðverjar og Frakkar því það er mjög mikið álag á alla innviði Evrópu.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir