Óskar Marvin Svendsaas Helgason fæddist í Skálholti Neskaupstað 8. september 1943. Hann lést á fjórðungssjúkrahúsinu Neskaupstað 25. október 2023.

Foreldrar hans voru Jónína Hansdóttir Beck, f. á Sómastöðum 25. október 1910, d. 18. ágúst 1991, og Sigfús Helgi Hjörleifsson, f. í Hruna 29. júlí 1900, d. 21. janúar 1991.

Systkini Óskars voru Hjörleifur Þór Helgason, f. 1. apríl 1943, d. 26. janúar 1955, stúlka Helgadóttir, f. 3. maí 1942.

Óskar nam húsasmíði og lauk sveinsprófi 1965, síðar varð hann meistari í sinni iðn 1969.

Óskar var ógiftur og barnlaus.

Útförin fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 2. nóvember 2023, og verður athöfninni streymt á facebooksíðu Norðfjarðarkirkju kl. 13.

Við kveðjum þessa dagana hann Óskar Marvin frænda minn.

Það lá snemma fyrir að ég myndi tengjast Óskari sterkum böndum því ég fékk þann heiður að bera nafn bróður hans og föður. Enda var mér alltaf sérlega vel tekið á efri hæðinni í Ásgarði 6 og þar eignaðist ég auka ömmu, afa og stórfrænda. Ég lít um öxl í dag fullur þakklætis að hafa átt þig sem frænda og vin alla ævi Óskar.

Takk fyrir þolinmæðina og vinskapinn við mig sem barn.

Takk fyrir að kenna mér að smíða og gildi þess að vanda sig.

Takk fyrir að fóðra börnin mín á sætindum af fingurgómum þínum (held ég).

Takk fyrir að leyfa það stoltur að tvö barna minna bera þitt nafn.

Takk fyrir að koma og heimsækja mig oft, hvar sem ég bjó á landinu eða erlendis.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar ef þurfi smíðaverk að vinna hvar sem ég bjó.

Takk fyrir að koma með mér til Danmerkur um árið svo ég gæti sýnt þér Kongens Köben.

Takk Óskar. Takk og hvíl í friði.

Hjörleifur Helgi Hansson.

Óskar var yngsta barn þeirra sæmdarhjóna Nonnu og Helga. Óskar var skírður eftir frænda sínum sem fórst með Gandi NK haustið 1942 táningur að aldri. Hafið var örlagavaldur í fjölskyldunni og verðið sem sjómannafjölskyldur guldu á síðustu öld í sjávarplássum eins og Norðfjörður var og er.

Óskar var víðlesinn, fróður og vel gefinn. Oft var flett upp í Óskari þegar kom að byggingarsögu og atvinnusögu Norðfjarðar. Ártöl, dagsetningar, atburðir og fólk sem greypt í minni hans. Ættfróður með eindæmum um sínar ættir sem og annarra.

Óskar var með netta bíladellu og átti marga bíla, þó mest Toyotur. Átti númerið sem Hjörleifur bróðir hans átti, N-30.

Óskar ferðaðist m.a. til Færeyja, Noregs og Danmerkur til að heimsækja frændfólk með Hansa frænda sínum og uppeldisbróður.

Óskar var félagslyndur og leiddist ekki góð tilsvör eða góðar sögur. Sjálfur var hann sögumaður góður og kunni ógrynni af sögum sem hann sagði á sinn kankvísa hátt, oftast með lúmskt bros á vör. Húmoristi. Aldrei voru þær sögur meiðandi enda lagði hann aldrei illt til nokkurs manns.

Óskar skipti sjaldan eða aldrei skapi, jafnlyndur og geðgóður. Frændrækinn og barngóður svo af bar. Átti ekki langt að sækja það en foreldrar hans voru einstaklega barngóð og gott að koma í Ásgarð. Mörg börn nutu góðs af en þeir feðgar Óskar og Helgi smíðuðu m.a. leikföng, hvort sem það voru bogar, skíði eða litlir bátar.

Óskar þótti einstaklega góður smiður, vandvirkur og með haga hönd og kom að ýmsu alveg fram á síðasta ár. Óskar varð húsasmíðameistari ungur að aldri og teiknaði, reisti hús og kom að ófáum nýbyggingum, endurbótum, viðhaldi og teiknaði og smíðaði innréttingar ef svo bar undir. Óskar vann sjálfstætt svo til alla ævi, lengi ásamt föður sínum.

Í vor greindist Óskar með krabbamein en heilsunni hafði hrakað síðustu árin. Sjúkradvölin var stutt. Nonna frænka Óskars var vakin og sofin við sjúkrabeðinn hans síðustu mánuði og hafi hún þökk fyrir.

Síðasta kveðja Óskars til þess sem párar þessar línur lýsir honum vel: „Gangi ykkur vel.“

Takk fyrir okkur. Minningarnar ylja.

Davíð Heiðar Hansson.